142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[18:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ekki er svo ýkja langt síðan ég stóð í þessum ræðustól, nánar tiltekið fyrir fjórum sumrum, og ræddi um mjög svipaðan hlut. Ég ræddi um það hve mikilvægt væri að við fengjum að fara með Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan fyrir því að mér þótti það svo mikilvægt og lagði svo mikla áherslu á það — ég svaf nánast ekkert það sumarið, út af því að maður þurfti að vera hér æði oft í ræðustólnum til að tryggja að almenningur og þingmenn fengju allar þær upplýsingar sem lágu fyrir og voru að koma fram, til að geta tekið upplýsta ákvörðun.

Manni er sagt að þetta mál sé svo flókið — þó er þetta mál sem forseti lýðveldisins hefur sagt að sé vel til þess fallið að fara í þjóðaratkvæði — og þá gildir einu hvaða ríkisstjórn er við völd, manni er bara sagt að málið sé of flókið. Almenningur er greinilega of vitlaus til að geta sett sig inn í málið samkvæmt því sem æðstu ráðamenn þjóðar halda fram.

Ekki nóg með það heldur er því einatt haldið fram að ef við tökum svona mál eins og Icesave eða þetta tiltekna mál þá sé almenningur svo einfaldur að hann greiði atkvæði á þann veg að það leiði okkur út í ómældar hörmungar. Ég man svo vel að okkur var sagt — og það setti nú að mér pínulítinn ugg þó að ég teldi mig hafa aðrar forsendur út frá upplýsingum sem ég hafði viðað að mér — að Ísland mundi breytast í Kúbu norðursins, að mat á okkur hjá þeim fyrirtækjum sem leggja mat á lánshæfni landa mundi fara í rusl.

Mótrökin hjá okkur voru á þeim tíma einmitt þau að ef við tækjum á okkur skuldir sem við mundum ekki ráða við, eins og var í því tilfelli, þá færum við í ruslflokk. Síðan kemur í ljós að með því að hafna því að taka á okkur skuldir sem við vorum ekki borgunarmenn fyrir þá vorum við skyndilega færð upp. Það er því ekki alltaf alveg að marka það sem kemur frá æðstu embættismönnum þjóðarinnar og ég hef það að leiðarljósi hér.

Það sem mér þótti svo rosalega mikilvægt við Icesave-ákvörðunina var þetta: Á sínum tíma, þegar við fengum þetta risastóra verkefni í fangið og þessa risastóru ákvörðun, vorum við enn ekki farin að sjá til lands, við vorum enn niðri og höfðum ekki getað reist okkur á fætur eftir það gríðarlega mikla áfall sem hrunið var. Ef þessu hefði verið velt á okkur af ytri öflum hefðum við verið enn bognari. Þegar við því tökum þessa ákvörðun sameiginlega sem þjóð tókum við ákvörðun, sem var eins upplýst og mögulegt var, um að gera þetta á þann veg ef svo bæri undir — það var einmitt ákall í þessari umræðu að við vildum fá þetta fyrir dómstóla út af því að við vorum sannfærð um að við værum í rétti.

Þegar þetta svo fór dómstólaleiðina var ég eins og margir aðrir sannfærð um — þó að maður viti aldrei — að við mundum hafa betur. Það var einmitt út af því að allir þjöppuðu sér saman þegar ytri váin var virkilega til staðar. Þetta var ekki lengur flokkspólitískt heldur nauðvörn þjóðar.

Segjum sem svo að við hefðum tapað málinu fyrir dómstólum að þá var ákveðinn styrkur í því að við sem sögðum nei, sem vorum mörg, hefðum þá borið ábyrgðina saman. Í staðinn fyrir að hægt væri að benda á einhverja einstaklinga var það fjöldinn sem tók þessa mikilvægu ákvörðun saman. Það er einmitt það sem heillar mig við beint lýðræði. Það sem heillar mig svo mikið við beint lýðræði er ekki bara það að gera sér grein fyrir því að það að búa í lýðræði þýðir að maður þurfi að leggja pínulítið á sig til að rækta skyldur sínar í lýðræðissamfélaginu. Þá tekur maður sameiginlega ábyrgð og maður stendur og maður fellur þar, ekki einn heldur með mörgum. Það er einmitt það sem vantar svo í samfélagið okkar að við gerum hluti sem styrkja okkur mörg saman. Það er allt of mikið um að fólk sé einangrað í samfélögum þar sem sífellt fleiri sækja inn í stóra byggðakjarna.

Í tengslum við þetta dæmi, veiðigjaldið, auðlindarentuna svokölluðu, erum við ekki bara að tala um fiskinn, þetta er bara einn liður í því sem þjóðin tók svo eindregna afstöðu með þegar boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort við vildum tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá eða ekki, spurt var sérstaklega hvort almenningur vildi að auðlindir þjóðarinnar væru í þjóðareign og undir þjóðarforsjá. Svarið var afgerandi, 83% þeirra sem komu á kjörstað sögðu já. Því vekur það óneitanlega mikla furðu, og kom mér satt best að segja verulega á óvart, að það væri í forgangi hjá þessari nýju ríkisstjórn að afnema vilja þjóðarinnar, afnema vilja þjóðarinnar á þennan hátt. Ég varð satt best að segja svolítið móðguð fyrir hönd þess vilja sem svo eindregið hafði verið settur fram.

Síðan vill svo ánægjulega til að einstaklingar úti í samfélaginu setja af stað undirskriftasöfnun til þess að skapa á eindreginn og skýran hátt vettvang fyrir þjóðina til að sýna hver hennar vilji er og til að sýna að við höfum ekki gleymt neinu. Við höfum nefnilega fengið að bragða á beina lýðræðinu og nú verður ekkert aftur snúið. Við, almenningur í landinu, viljum fá að taka þátt í ákvarðanatöku hér, því að þessi vinnustaður á ekkert að vera aftengdur samfélaginu. Við erum hér í samfélagsþjónustu, því megum við aldrei gleyma, við erum hér sem millistykki til þjóðarinnar.

Nú erum við að fá ofboðslega skýr skilaboð frá almenningi, á milli 34 og 35 þúsund hafa sett nafn sitt við undirskriftasöfnun um að þessum lögum verði ekki breytt. Það sem fólk er að segja okkur er: Við viljum þessa 6 milljarða í okkar sameiginlegu sjóði. Það er það sem verið er að segja, við skulum ekkert flækja málið.

Fólk er að segja: Við viljum fá hlut af arðinum til að setja í okkar sameiginlegu sjóði. Það er ekki eins og fólk sé að biðja um þessa aura til að kaupa sér fjórhjól eða hjólhýsi. Nei, við erum nefnilega með þannig ástand í samfélaginu að heilbrigðiskerfið þolir ekki meiri niðurskurð og það þolir ekki að ekki sé gefið í. Það er orðið svo veikbyggt, því að alveg sama hvað fólk segir, hér varð gríðarlega mikið hrun. Það varð svo rosalega mikið hrun hérna að um var að ræða þriðja mesta hrun í heimssögunni og sumir vilja bara kalla það „svokallað“. Þess vegna eru innviðir samfélags okkar svo veikir að þeir þurfa enn frekar en nokkru sinni — og þetta ætti að vera einfalt mál, þetta er ekkert flókið fyrir þessa ríkisstjórn að skilja, að með því að setja 6 milljarða kr. gat í fjárlögin hlýtur eitthvað að bresta. Það er það sem almenningur er að segja. Það er það sem þessi 70% þjóðarinnar sögðu: Við viljum að þessir 6 milljarðar komi í ríkiskassann. Það er ekki svo að þessir 6 milljarðar séu einhvers staðar annars staðar til. Við erum mjög skuldug. Við erum til dæmis að borga ofboðslega mikið úr okkar sameiginlegu sjóðum í vexti af erlendum lánum.

Þó að ég sé ekki mikill aðdáandi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vill svo til að ég fæ tækifæri til að hitta fólkið sem er í íslensku sendinefndinni reglulega þegar það kemur hingað. Ég hef átt því láni að fagna að vera alltaf hlutlausi aðilinn út af því að ég skilgreini mig ekki beint sem andstöðuþingmann heldur miklu frekar sem samstöðuþingmann með málefnum sem skipta máli og andstöðuþingmann þegar mér finnst að verið sé að brjóta gegn því sem mér finnst skýr vilji vera fyrir hjá þjóðinni. Ekki það að ég er enginn sérstakur talsmaður þjóðarinnar, hún er ekkert á bak við mig, ég er bara að reyna að endurspegla það sem hún kallar eftir eins og í þessu máli.

Nú, ég hef setið dálítið marga fundi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeir hafa verið athyglisverðir og það fólk hefur stundum þurft að þola mikið harðræði af minni hendi þegar ég minni þau á Grikkland þegar þau tala um Ísland sem óskabarn sitt. Það var svolítið sérstakt að heyra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lýsa yfir gríðarlega miklum áhyggjum af stefnu þessarar ríkisstjórnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áhyggjur af því að þarna sé verið að setja rosalega stórt gat í áætluð fjárlög og á sama tíma á að leiðrétta skuldir húseigenda um 20% á línuna. Ég held að það hljóti bara að vera einhverjir galdramenn í þessari ríkisstjórn.

Ég horfði einu sinni á mjög pólitíska mynd sem hét Galdrakarlinn frá Oz. Þar kom fram að hinn gríðarlega mikli og svakalega öflugi galdrakarl var bara lítill karl inni í einhverjum brelluklefa, og ég vona að það verði ekki veruleikinn með þau mál sem við glímum við í dag.

Ég og minn ágæti þingflokkur, Pírataflokkurinn, höfum verið að eltast við einn þjóðhöfðingja núna í viku til að fá að vita hvenær hann ætlar að vera á landinu. Þetta er hinn ágæti forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson. Það hvílir mikil leynd yfir því hvenær hann er á landinu vegna öryggissjónarmiða og því fæst ekki svar við því hvort hann verði á landinu þegar honum ber að undirrita umrætt frumvarp. Mér finnst það svolítið merkilegt, ég hefði talið eðlilegt fyrir okkar ástkæra forseta að upplýsa bæði þjóðina og þingmenn um það hvenær hann er á landinu til að gegna skyldum sínum. Hann er jú forseti lýðveldisins Íslands og skyldur hans hljóta fyrst og fremst að vera gagnvart okkur.

Nú hefur borist ákall til forsetans og hann hefur verið mjög duglegur að hlusta á þjóðina þegar hann skynjar að gjá er orðin á milli þings og þjóðar. Honum væri í lófa lagið, okkar ágæta forseta, að sýna þinginu og þjóðinni þann virðingarvott að upplýsa okkur um það hvenær hann verður hér og hvort hann verði fjarstaddur þegar þessi lög þarfnast undirritunar. En samkvæmt upplýsingum frá hans ágæta aðstoðarmanni kveða starfsreglur á um að enginn megi vita hvenær forsetinn er á landinu, mjög sérstakt. Ég heyrði þetta símtal í dag og varð mjög hissa. Það er því ágætt að þingheimur og fleiri viti að þegar forsetinn ferðast þá má enginn vita hvar hann verður á næstu dögum, það þykir mér eiginlega ótækt.

Mig langaði líka að nefna þessa auðlindarentu sem við erum að tala um. Sumir kalla þetta skatt, en ég mundi ekki vilja tala um þetta sem skatt, ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað á þann veg. Þetta eru peningar sem koma af hreinum arði, það er ekki eins og verið sé að kreista og blóðmjólka fólk. Ef verið er að blóðmjólka einhverja útgerðarmenn þá þarf að sjálfsögðu að laga það. En gleymum því ekki hvað það var sem þjóðin var að kalla eftir, svo að ég endurtaki það: Þjóðin var að kalla eftir því að fá þessa 6 milljarða í notkun í okkar sameiginlegu sjóði, það er ekkert öðruvísi. Ef illa gengur að fá upplýsingar frá einni stofnun til annarrar þá leysum við það bara. Til þess erum við hér, til þess að leysa málin.

Það eru líka fleiri fyrirtæki sem mætti skoða, fyrirtæki sem nýta okkar góðu auðlindir eins og til dæmis orkuna. Það vantar töluvert mikið upp á að þjóðin fái að njóta þess arðs sem þau fyrirtæki fá í sinn hlut og dálítið merkilegt hve lítið hefur farið fyrir því að ræða um það hér og hvernig við gætum lært af mistökum fyrri tíma með það, samningarnir sem voru gerðir við þessi risastóru alþjóðlegu álfyrirtæki eru að sjálfsögðu hneisa. Lengi vel var því haldið leyndu hvernig þeim samningum var háttað en sem betur fer búum við svo vel að til eru aðilar hérlendis sem þora að upplýsa almenning um það sem hann á rétt á að vita.

Þá hefur jafnframt verið talað töluvert um að mikið skorti á gagnsæi í þessum málum og líka á umræðu um þessi mál á mannamáli. Ég held — og ég held það ekki, ég er sannfærð um það — að með því að taka þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu munum við fá nákvæmlega þá umræðu sem okkur skortir svo mjög og þær upplýsingar og þá orðræðu til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvernig þessum málum er best háttað.

Ég er svolítið skrýtin og fylgdist oft með þinginu áður en ég ákvað að gerast þingmaður eða fara í samfélagsþjónustu um stund. Ég man að þegar farið var að tala um kvótamál og slíkt þá bara sofnaði eitthvað inni í mér, þetta var svo ömurlega leiðinleg umræða, ég verð bara að segja það. Hún var einhvern veginn á þannig tungumáli að ef maður ætlaði að reyna að ræða um þetta við vini sína þá var eins og maður væri að tala um sjálfsvíg, það var nú bara þannig. Ég hvet því þingmenn, út af því að við tölum svo mikið um þessi mál hér í þingsölum, til að fara og finna lýsingar og myndlíkingar sem stuðla að því að almenningur geti skilið þetta og tekið þetta til sín — þetta eru eiginlega alltaf karlar sem tala um þetta, af alveg gríðarlega mikilli þekkingu um botnfisk og uppsjávarfisk og allt þetta. En við þyrftum að reyna að setja þetta í, það kannski hljómar dálítið asnalega, aðeins skáldlegri búning þannig að þetta verði umræða sem fólk getur sett sig inn í.

Ég lenti oft í því þegar ég var að ræða um málefni er varða netið og allt það sem þar fer fram — fyrst þegar ég var að tala um þetta, þegar ég var að byrja að vinna á netinu í gamla daga, 1995, fyrst íslenskra kvenna, og talaði svona nördísku — að fólk bara slökkti alveg eins og ég geri þegar farið er að tala um kvótamálin, fiskveiðistjórnarkerfið o.s.frv. Það var ekki fyrr en ég fór að geta sett þetta í samhengi við hið daglega líf og það sem snertir við fólki að fólk fór að hlusta. Þetta skiptir mjög miklu máli út af því að þetta er burðarbitinn í samfélagi okkar.

Mér finnst líka dálítið óþægilegt þegar þingmenn hafa stigið í þessa pontu og haldið því fram að þeir sem gagnrýna þetta fyrirkomulag séu hatursmenn sjómanna. Hvers konar — ég er bara svo móðguð yfir þessu. Ég er alin upp í sjávarplássi og faðir minn heitinn var skipstjóri. Það vildi svo til að hann var útgerðarmaður áður en kvótakerfið kom á. Ég er alin upp í samfélagi sjómanna og fiskverkenda. Ég ber mikla virðingu fyrir og hef mikinn skilning á þeim veruleika sem þetta fólk býr við, því að þetta fólk er ég. Faðir minn heitinn var meira að segja aflakóngur og fékk bikar, svona aflakóngsbikar, þegar ég var krakki. Hann hefði örugglega ekki orðið það undir kvótakerfinu, í þá daga voru skipin og bátarnir þannig að þau rétt náðu í land, það var svo mikill afli í þeim. Það var á þeim tíma. Ég er sannfærð um að ef faðir minn hefði vitað hvernig trollin fóru með sjávarbotninn hefði hann ekki gerst sekur um þau skemmdarverk sem sáust þegar farið var að mynda sjávarbotninn — skemmdarverkin sem faðir minn var meðal annarra ábyrgur fyrir, þó að hann hefði ekki stóra útgerð, það var bara eitt skip.

Mér finnst ekki hægt að við drögum þessa umræðu út í það að búa til einhverja gjá á milli fólks. Það er svo dæmigert í þessum þingsal að alltaf er verið að reyna að búa til einhverjar fylkingar, sem eru hvor á móti annarri, landsbyggðin og 101, Hveragerði og Selfoss. Þingmenn sem vilja breytingar á veiðigjaldinu, kvótakerfinu og fiskveiðistjórnarkerfinu eru allt í einu á móti útgerðarfólki og sjómönnum. Það er bara ekki þannig.

Mér finnst vænt um sjávarbyggðir. Þó að mér hafi ekki þótt rosalega gaman að alast upp í Þorlákshöfn finnst mér vænt um þennan hluta menningar okkar og mér hefur fundist vont að sjá hvernig farið hefur verið með þessi þorp þegar kvótinn hverfur úr þorpunum. Það er ekki fallegt. (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Forseti vill spyrja hv. ræðumann — og þykir leitt að þurfa að trufla hana í ræðu, ég sé að 15 mínútur eru eftir af ræðutímanum — hvort hún eigi mikið eftir. Boðuð hefur verið atkvæðagreiðsla og ég mundi vilja mælast til þess við hv. þingmann að hún gerði hlé á ræðu sinni.)

Hæstv. forseti. Hvenær er atkvæðagreiðslan?

(Forseti (KLM): Hún hefur verið boðuð núna kl. 18.45.)

Það er alveg sjálfsagt að ég geri hlé á ræðu minni. Ég var reyndar svo ánægð með hve margir voru í þingsalnum að ég á svolítið bágt með það, en ég skal verða við ósk forseta og gera hlé á máli mínu.

(Forseti (KLM): Forseti þakkar fyrir það. Nú verður hringt til atkvæðagreiðslu og þingmaðurinn getur haldið áfram ræðu sinni þegar þingfundur hefst á ný.)