142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (frh.):

Forseti. Mér finnst ákaflega mikilvægt að forseti lýðveldisins láti þingmenn vita hvenær hann hyggst dvelja á landinu. Ástæðan fyrir því að mér finnst það mikilvægt er sú að 70% þjóðarinnar hafa sagst vilja hafa þetta frumvarp óbreytt, eða það sem kjarni málsins snýst um, að þeir 6 milljarðar sem átti að nota í okkar sameiginlegu sjóði verði notaðir í þá. Mér finnst það vera mikið tilefni fyrir forsetann sem hefur verið mikill maður beins lýðræðis og viljað hlusta á þjóðina. Og þegar gjáin er orðin þetta mikil finnst mér að honum beri að upplýsa hvenær hann hyggst vera á landinu. Valdið á Íslandi liggur þannig að ef forseti er ekki á landinu þá er það hjá aðilum sem tilheyra þeim sama meiri hluta og vill koma þessum lögum í gegn. Það væri mjög gagnlegt að fá hreinskiptin svör um það hvort forseti lýðveldisins ætlar sér að hlusta á þetta mikla ákall þjóðarinnar.

Í máli mínu hefur komið fram að ég er mikill talsmaður beins lýðræðis og ástæðan fyrir því er sú að við höfum búið um mjög langa hríð við þetta stjórnarfar lýðræðisríkja, þar sem kjörnir fulltrúar eru og fjöldi þeirra vex ekki í sama hlutfalli og umbjóðendur þeirra. Fyrir vikið hefur skapast einhvers konar pólitísk, það sem stundum er kallað yfirstétt, mér finnst það kannski ekki rétta orðið en það hefur orðið einhvers konar gjá á milli þinganna, þjóðþinganna og þjóðanna.

Fólk upplifir líka mjög sterkt að kerfin sem voru hönnuð fyrir allt önnur samfélög virka ekki lengur. Þess vegna er fólk á torgum úti um allan heim að kalla eftir betra aðgengi að lýðræði því að fólk almennt séð gerir sér grein fyrir því hvað það er dýrmætt að fá að hafa einhvers konar aðkomu að ákvörðunarferli fulltrúa sinna. Nú er það miklu erfiðara fyrir almenning að komast að hverjum fulltrúa og að hafa áhrif á stjórnmálaflokkana.

Stjórnmálaflokkar nú til dags eru farnir að minna mig æðimikið á — þeir eru mjög svipað uppbyggðir og trúarsamtök. Það passar ekki við þá lýðræðislegu vakningu sem hefur átt sér stað. Þess vegna er mér mjög mikið í mun að við höldum áfram á þeirri merkilegu vegferð sem við höfum verið hér á Íslandi. Sú merkilega vegferð hefur fært okkur fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur en ég hafði nokkurn tíma tekið þátt í fyrir hrun og mér finnst það vera ein af jákvæðu hliðum hrunsins. Þó að margir eigi erfitt með að sjá hvað hefur margt merkilegt gerst á Íslandi þá höfum við náð því að fara ansi langt í þeim tilraunum með lýðræðið, hvernig við getum látið lýðræðið virka betur. Ég verð að segja fyrir mig sem fulltrúi fólks að mér finnst mjög gott að fá aðhald utan frá. Hérna erum við að fá mjög gott aðhald frá samfélaginu. Við erum að fá mjög skýr skilaboð og einlæga ósk. Mér finnst einhvern veginn að þingið eigi að bregðast við þeirri ósk út af því að ég upplifði það mjög sterkt á hinu kjörtímabilinu mínu að ríkisstjórnin sem þá var við völd varð oft ekki við slíku ákalli. Þeir sem eru núna í meiri hlutanum höfðu ekki orðið við því ákalli þegar þeir voru við völd en ég vonast til að við getum fundið einhverja leið. Kannski þurfum við ekki það millistykki sem forseti vor er, forseti lýðveldisins. Kannski getur þingið tekið þá ákvörðun að þetta sé þannig mál og þannig ákall — það skýrar leiðbeiningar hafa komið, við höfum fengið lánaða það skýra dómgreind frá almenningi — að við getum hreinlega sett þetta beint í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ákveðið að verða við óskum almennings.

Mér finnst það eiginlega vera svolítil skylda okkar og ég vonaðist til þess að nýja stjórnin mundi verða svolítið í takt við það sem hún lagði ríka áherslu á þegar hin ríkisstjórnin var við völd. Mér finnst það vera svolítið sorglegt að þegar fólk er komið með tækifærin til að sýna í verki að það meini það sem það segir þegar það er í minni hluta eða svokallaðri stjórnarandstöðu, þá geri fólk það ekki. Ég skora því á ríkisstjórnina að sýna þjóðinni þá virðingu. 70% er mjög stór hluti þjóðarinnar og eru líka kjósendur þessara flokka fyrir utan það að ríkisstjórn kennir sig jafnan við það að vinna í þágu allra landsmanna.

Meðan kvöldmatarhlé var þurfti ég að rjúka af bæ og fara með son minn í annan bæjarhluta, hljóp inn til mín og fann ljóð. Þegar ég er spurð á erlendri grundu hvað ég geri kalla ég mig einatt „poetician“ en ekki „politician“. Mér finnst ljóð oft segja miklu meira en mörg orð. Fyrsta ljóðið sem ég datt inn á eftir Örn Arnarson finnst mér passa býsna vel við þessa umræðu. Það heitir, með leyfi forseta, Legg í lófa.

Herðalotinn, hæruskotinn

húkir undir vegg,

starir blindum bænaraugum

blæs í úfið skegg,

terrir ellitærða hendi

töturdúðum frá:

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Ör af kæti, fim á fæti

flýtir æskan sér,

ætlar að grípa geislabrot,

sem glampa þar og hér.

Ellin hrum og yndissnauð

er aðeins sinustrá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Tízkulóa og tildurrófa

tifa um borgarstig.

Skraut-Oddi og Glæsi-Gísl

í gluggum spegla sig.

Aldrei munu örðug lífskjör

af þeim skartið má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Bumbufeitur, búlduleitur

burgeis stígur gleitt.

Hann á skip og skrautbygging

og skuldar engum neitt.

Aldrei verður hann einstæðingur,

auðnumaðurinn sá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá,

að þeir gefa manna minnst,

sem mikið berast á.

Fátækur af fátækt sinni

fórnar því, sem má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Það er merkilegt hvað lítið hefur breyst í samfélagi okkar. Þeir sem eiga mest gefa oft og einatt minnst og það finnst mér sorglegt.

Við vitum að það sem við erum að kalla eftir hér og umræðan sem við höfum frammi, þau okkar sem viljum að eitthvað komi af arðinum af sameiginlegri auðlind okkar í ríkiskassann, við erum ekki að fara fram á mikið. Ég verð að segja að það hljómar kannski kaldhæðnislega eða kaldlynt réttara sagt að ef maður rekur fyrirtæki ekki nægilega vel til að geta haft arð af því þá er eitthvað að. Faðir minn heitinn, skipstjórinn og útgerðarmaðurinn frá Þorlákshöfn hafði þann sið á að hann tók aldrei lán, aldrei. Hann byggði húsið sitt fyrir sparifé og það var stærsta húsið í Þorlákshöfn. Hann staðgreiddi alltaf og borgaði alltaf sjómönnunum sínum áður en hann borgaði sér. Ég ber mikla virðingu fyrir slíkum útgerðarmönnum. Þetta er eitthvað sem ég hef sem betur fer fengið sem grunn í líf mitt. En kannski er það einstrengingslegt að ætlast til þess að þeir sem fá mikinn arð af auðlind sem er sameiginleg okkur taki þátt í því.

Við vitum öll að það er mjög misjafnt hvernig ástandið hefur verið hjá fyrirtækjum og mörg hafa verið rekin mjög vel. En það er engin lína af fyrirtækjum á landinu sem er þannig að þau séu öll rekin vel. Mikið er um að fólk eyði meiru en það á en það er ekki gert endilega út af því að það viti ekki hvað það er að gera. Miklir ævintýramenn eru í öllum starfsstéttum og það á líka við um útgerðarmenn og þeir eru misjafnir eins og í öðrum starfsstéttum, alveg eins og hér á þingi. Það er mjög misjafnt fé hér inni en fólk hefur sem betur fer ólíka hæfileika og ólíka þekkingu og það er vel á stofnun sem á einhvern veginn að endurspegla samfélagið. Sem betur fer eru ekki bara lögfræðingar á Alþingi, bara kennarar eða bara skáld. Það er gott að hér sé fjölbreyttur hópur.

Að lokum vil ég minna á að hér varð alvöruhrun. Það varð alvöruhrun, þriðja stærsta fjármálahrun heimsins og það má líkja því við kraftaverk að við erum ekki í verri stöðu. Það má þakka fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að hafa staðið vörð um þá sem minnst mega sín í samfélaginu. En núna er það svo að þau loforð um að rétta til dæmis hlut ellilífeyrisþega og öryrkja eru ansi rýr. Ég hef talað við fólk sem fær 2–3 þús. kr. aukningu á tekjum sínum. Er það leiðréttingin? Er það þannig að ríkiskassinn getur ekki staðið við loforðaflauminn af því að 6 milljarða kr. gat er í fjárlögum? Ætlum við að sætta okkur við þetta? Nei.

Ég skora á forseta lýðveldisins að gera okkur það ljóst, lýðnum sínum, hvenær hann verður á landinu þannig að hann geti haldið áfram að vera talsmaður beins lýðræðis og talsmaður þess að þegar þjóðin kallar eftir því að fá að taka þátt í ákvarðanatöku er hana varðar fái kost á því. Ég sé mig knúna til að ræða mikið um þessi mál í þingsalnum þar til ég veit hvenær forseti lýðveldisins ákveður að sýna okkur þá virðingu, bæði þjóðinni og þinginu, að upplýsa hvort hann verði á landinu þegar á að skrifa undir þessi lög því að það er þannig í okkar pólitíska strúktur að meirihlutavaldið sér um undirskriftirnar ef forseti landsins er ekki hér.

Að lokum langar mig að minna á að ekkert mál er svo flókið að þjóðin geti ekki sett sig inn í það, ekki neitt. Þetta mál er, eins og forseti lýðveldisins sagði, einstaklega vel til þess fallið að þjóðin fái að kjósa um það.