142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir þetta svar. Eins og þingmaðurinn gat um má kannski segja að í grundvallaratriðum hafi þjóðin sagt skoðun sína í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október um þau grundvallarálitamál sem það frumvarp sem er til umræðu fjallar í raun og veru um eða tekur á. Þingmaðurinn vísaði enn fremur til þess og hvatti í raun forseta lýðveldisins til að beita ákvæðum 26. gr. stjórnarskrárinnar og synja frumvarpinu staðfestingar til að tryggja að verði það að lögum hér í þingsal gangi það til þjóðarinnar. Hún vakti máls á því eða óskaði eftir því að forsetinn gerði þjóð og þingi grein fyrir ferðum sínum, ef svo má segja. Í sumum löndum tíðkast að birta alltaf sérstakar fréttatilkynningar um það þegar þjóðhöfðingjar fara úr landi og koma úr landi, hverjir fylgja þeim á flugvöllinn, taka á móti þeim o.s.frv. Kannski þyrftum við að taka upp þann sið hér. Í öllu falli má líka velta fyrir sér hvort hægt sé að fara aðra leið til að tryggja að þetta mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er einfaldlega sú leið sem stundum hefur verið gerð tillaga um á Alþingi, að binda gildistöku laganna við að meiri hluti þjóðarinnar eða meiri hluti gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu samþykki þau, sem hægt væri að efna til á grundvelli laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi skoðun á því að sú leið yrði hugsanlega farin. Það kemur ekki í veg fyrir að 26. gr. stjórnarskrárinnar sé nýtt í sjálfu sér, en mundi þingmanninum hugnast að binda gildistökuákvæði þess frumvarps sem er til umfjöllunar við eitthvert slíkt ferli?