142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það bara sem ég sagði áðan að forseti Íslands mun aldrei hlaupa undan slíkri áskorun eins og þeirri sem kynni að felast í þeim 35 þúsund undirskriftum sem safnast hafa til að mótmæla þessu frumvarpi. Hann mun gera það sem honum finnst rétt. Þannig þekki ég nú þann karl sem þar hefur setið mjög lengi.

Ég hef hins vegar velt því fyrir mér með hvaða hætti hægt væri að fara þá leið sem hv. þingmaður reifaði í ræðu sinni og við höfum spjallað örlítið um. Ástæðan er sú að ég hef mörgum sinnum — í fyrsta sinn skömmu eftir að ég settist á þing árið 1991 flutti ég tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðslur yrðu teknar upp sem ákvæði í stjórnarskrá. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar. Menn þurfa ekki að vera píratar til þess að telja að fólkið eigi að hafa farveg til að geta hrundið svona atburðarás af stað sem leiðir til þess að vilji þess er staðfestur.

Í þessu tilviki er það hins vegar dálítið erfitt og ég skal viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að ég hef velt þessu fyrir mér. Það er fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan leggi fram slíkar tillögur til að undirstrika vilja sinn, þ.e. það sé þjóðin sem ákveði það. Í þessu tilviki er það erfiðara en oft áður. Ástæðan er sú að ef lögunum er ekki breytt, vegna þess að það eru ákveðnir annmarkar á þeim þá verður mjög erfitt að leggja á veiðigjald á næsta ári. Það er ástæðan fyrir því að stjórnarandstaðan, með stuðningi Pírata, hefur lagt fram tiltölulega einfaldar breytingartillögur þar sem fyrsta breytingartillagan gerir það kleift að vinna bug á þeim annmörkum sem er að finna á núverandi lögum, því að þeir eru vissulega til staðar. Þau lög eru ekki fullkomin. Ég vil líka segja að það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki alvont. Það er ýmislegt gott í því líka, eins og t.d. hækkunin á sérstaka veiðigjaldinu gagnvart uppsjávarútgerðunum.

Niðurlag ræðu minnar verður þá að skora á hina góðu hausa píratanna að leggja sig í bleyti og koma fram með tæknilega lausn á málinu. Ég mun styðja (Forseti hringir.) góða tillögu.