142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, sem sat í stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili, sem sat í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, hvort þau áminningaratriði hafi verið rædd í ríkisstjórninni sem komu frá svokallaðri veiðigjaldsnefnd í desember og aftur í mars, þ.e. að þau lög sem við samþykktum hér á Alþingi hvað þetta varðar væru af okkar hálfu svo illa úr garði gerð að ekki væri hægt að leggja á veiðileyfagjald frá og með næsta fiskveiðistjórnarári 1. september næstkomandi.

Í öðru lagi þykir mér harla skrýtið að þingmaðurinn skuli fara hér mikinn og tala eins og ríkissjóður hafi engar aðrar tekjur en virðisaukaskatt á gistináttaþjónustu og veiðileyfagjöld til að standa undir almannaþjónustu, eins og það sé brúin í því sem við höfum verið að gera undanfarin ár. Mér þótti hins vegar ekkert skrýtið orðfæri hv. þingmanns sem stendur nú sem stjórnarandstöðuþingmaður og tekur upp að nýju orðfærið „auðvald versus alþýða“.