142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:20]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Ég heyri ekki betur en hv. þingmaður sé að gera mér upp orð. Ég kannast ekki við að ég sé að tala á annan veg núna en ég hef gert áður. Ég skal alveg trúa hv. þingmanni fyrir því að mig langar til þess að ganga erinda hagsmuna ákveðins hóps í þjóðfélaginu. Það er lágtekjufólk, sjúklingar, það eru þeir sem eiga við einhvers konar erfiðleika að stríða. Ég vil frekar ganga erinda þeirra en hinna sem eru aflögufærir.

Það er misskilningur ef hv. þingmaður hefur skilið orð mín þannig að ég hafi litið svo á eða að ríkisstjórnin hafi litið svo á að lögin sem við erum með til umfjöllunar hafi verið óframkvæmanleg. Ég sagði að tæknilegar útfærslur, eða það var það sem ég vildi segja og tel mig hafa sagt, hafi margoft verið á borði ríkisstjórnarinnar til umræðu hér. Ég hef aldrei sagt að ríkisstjórnin hafi verið á því máli eða ég hafi verið á því máli að lögin væru óframkvæmanleg. Það var alla vega ekki meining mín að segja það og ég skal skoða það í þingtíðindum þegar þar að kemur. Hugsunin er ekki sú, heldur að útfærslur þessa gjalds hafi iðulega verið á borðum ríkisstjórnarinnar, á borðum þingflokkanna og hér í Alþingi.