142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hvet þingmanninn eindregið til að gera það. Menn eiga að koma hreint fram. Það hefur hv. þingmaður gert. Hins vegar finnst mér skorta mikið á að upplýst sé nánar um styrki sem gengið hafa til flokkanna, stjórnarflokkanna, frá öflugum útgerðarfyrirtækjum til að fjármagna kosningabaráttu þeirra og styðja hugsanlega einstaka þingmenn. Ég frábið mér þá skinhelgi sem fram kemur þegar rætt er um hagsmunatengsl.

Hagsmunatengslin eru þessi og hv. þingmaður var að benda þinginu á það að þau væru fyrir hendi, að hann ræki hagsmuni útgerðarinnar. Það er bara skýrt á sama hátt og við önnur reynum að reka aðra hagsmuni, en við látum ekki greiða okkur til þess. Þegar stórfyrirtæki í landinu eru farin að stjórna stjórnmálum á Alþingi er hægt að nota það orð sem ég viðhafði fyrr í kvöld, auðvald. Þá hefur auðurinn vald inn í þennan sal og það er ekki gott.