142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[22:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir skilur ekki margt eftir til að spyrja að í raun og veru en mig langaði bara — vegna þess að þingmenn hinna svokölluðu vinstri flokka spyrja aftur og aftur, hvaðan þessir peningar koma, hvað verði skorið niður.

Ég vil bara ítreka að það þarf ekkert að skera niður, það er ekkert mál að gefa öllum ókeypis peninga ef maður fær þá einfaldlega lánaða. Þá er eina spurningin hversu mikið meira munu komandi kynslóðir fá að borga fyrir það. Það er svo sem enginn ágreiningur um það, þetta er bara eitthvað sem mér finnst mikilvægt að rifja upp aftur. Þetta er ekki spurning um hægrið, að lækka skatta, eða vinstrið, að auka útgjöld. Í stærra samhengi snýst þetta líka um að halda jafnvægi í ríkissjóði til lengri tíma, burtséð frá því hvort við erum til hægri eða vinstri og hvort sem við erum að hækka skatta eða auka útgjöld eða hvað það er.

Einnig hefur verið vikið að því í þessum umræðum áður að svokallaður hugmyndafræðilegur ágreiningur — aftur varðandi þetta vinstri hægri dæmi allt saman, sem á sér kannski einhverja réttlætingu, þó að mínu mati frekar mikið ýkta — vegna þess að þegar kemur að eignarrétti, sem ég held að allir hérna trúi á, þá er gamla spurningin um kvótakerfið einmitt spurning um eignarrétt einstaklingsins á móti eignarrétti þjóðar. Það er sama spurningin og á milli einstaklingsfrelsis og lýðræðis, eignarréttur yfir náttúruauðlindum er í raun bara eignarréttur á öðrum skala á öðrum stað.

Mig langaði að spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur aðeins meira út í þetta þar sem þetta er kallað veiðigjald. Nú vitum við öll að þetta er viðurkenning á því að þjóðin eigi auðlindina. En mætti þetta ekki alveg eins heita auðlindagjald ef markmiðið er að setja þetta gjald á fleiri auðlindir?