142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Enn á ný kemur hv. þm. Katrín Jakobsdóttir mér á óvart með orðsnilld sinni. Hún skilgreinir auðvitað stöðu þessa máls með hárréttum hætti. Hún er að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið upp stéttabaráttu fyrir hönd stórútgerðarinnar. Ég er henni algjörlega sammála um það. Að öðru leyti vildi ég að ég gæti komið hér til þess að þakka henni kærlega fyrir skýr svör en oft hefur hv. þingmaður þó tekið skýrar til orða en einmitt núna. Það er hins vegar algjörlega klárt að minn formaður, og reyndar aðrir þeir sem stýra liði stjórnarandstöðunnar, munu þurfa að aka þungu hlassi á mig til þess að ég fallist á málið. Ég er nefnilega algjörlega sammála því sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði áðan að þetta væri efnahagslegt feigðarflan sem ríkisstjórnin hefur att sjálfri sér út í með framlagningu þessa frumvarps. Það sviptir burt hálfum fjórða milljarði króna á þessu ári, úr heldur naumt skömmtuðum fjármunum ríkisins, og sex og hálfum á næsta ári. Það er auðvitað algjörlega ljóst að þetta skapar ríkisstjórninni mikla erfiðleika. Hún veit ekki hvernig í ósköpunum hún á að koma saman fjárlögum og hún veit ekki hvernig hún á að ná saman tekjufrumvörpum til að vega upp á móti þessu.

Ég mundi telja fyrir mína hönd og pólitískra venslamanna minna að það væri að bíta höfuðið af skömminni og kóróna hana síðan að fallast á að við rífum þessa herramenn og hefðarfrýr upp úr því díki sem þau hafa sjálf komið sér ofan í, að samþykkja sérstakt ákvæði í þingskapalög til bráðabirgða til þess að koma þeim undan því hlassi sem þau hafa sjálf steypt yfir sig. Ég segi það enn og aftur að það mun þurfa að beita mig tiltölulega miklu harðræði til þess að ég fallist á það.