142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að við krefjum formenn stjórnarflokkanna svara. (Gripið fram í.)Mér finnst eðlilegt að þeir verði krafðir svara hér í þingsalnum því að alveg ljóst er að þetta er mál sem þarf að ræða á þinginu ef fara á að breyta þingskapalögum til að fresta þingsetningu til þess að geta lagt fram fjárlög síðar. Ég á því von á að málið verði til umræðu í kjölfar þeirra fregna sem voru í fjölmiðlum í kvöld um þau mál og það er bara fullkomlega eðlilegt. (Gripið fram í.)Og upplýst úr ræðustóli af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson hér úr sal.

Af því að hv. þingmaður nefndi þær tölur sem eru gefnar upp í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis vil ég líka benda á, sem kom raunar fram í ræðu minni og mér finnst full ástæða til að endurtaka, að bara miðað við aflaaukningu og afkomu útgerðarinnar eins og hún lítur út núna getum við jafnvel átt von á því að þær tölur séu í hærri. Það eru því í raun og veru meiri fjármunir sem samfélagið er að missa yfir í hagnað útgerðarmanna sem rennur til úgerðarmanna verði þetta frumvarp að lögum.

Ég er sammála ágætri greiningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að segja megi að þetta sé liður í stéttabaráttu ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst með hvaða stétt ríkisstjórnin stendur, það sést á þessu frumvarpi. Stétt útgerðarmanna er þar fremst í flokki þannig að þeir eiga sér væntanlega einhverja bandamenn í breska Íhaldsflokknum sem hefur háð grimma stéttabaráttu í öllum aðgerðum sínum til að takast á við kreppuna og hafa allar aðgerðir þeirra miðast nákvæmlega við að gæta að vissum stéttum umfram aðrar.