142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fá loksins færi til að (Gripið fram í.)tjá mig í þessari umræðu. Ég heyri að einhver vafi leikur á, svo líkir eru þeir orðnir fóstbræður, hv. þm. Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson, hvor er hvað og hvurs er hvað. En ég fagna því að fá að taka til máls í umræðunni því að málið sem við ræðum snýst um mikið grundvallaratriði.

Sú staðreynd að það skuli vera fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar, sem lofaði mörgum miklu og líklega meiru en dæmi eru um í Íslandssögunni til að komast til valda, segir mikla og dapurlega sögu um forgangsröðun í starfi ríkisstjórnarmeirihlutans. Það er grundvallarhugmynd í skynsamlegri hagstjórn að leggja gjöld á ókeypis aðgang að sameiginlegum auðlindum vegna þess að ef svo er ekki gert búum við til skekkjur í hagkerfinu og við höfum af því áratuga reynslu, og reyndar árhundraða reynslu, hvaða áhrif það hefur. Ef menn fá ókeypis aðgang í atvinnurekstri að sameiginlegum gæðum þjóðar skekkir það innbyrðis samkeppnisstöðu atvinnugreina og það dregur úr almennri velsæld því að þjóðin fær ekki arð af sameiginlegri auðlind sinni.

Þess vegna hefur það lengi verið grundvallarstefna jafnaðarmanna að sameiginlegar auðlindir séu í sameiginlegri eigu og þjóðin fái afgjald af sameiginlegum auðlindum sínum. Það hefur verið grundvallarviðmið í allri efnahagslegri málafylgju jafnaðarmanna í áratugi og má alveg fara aftur til, ef ég man rétt, 1930 til að sjá fyrstu frumvörpin um eignarhald almennings á auðlindum í jörðu og virkjunarrétti fallvatna, sem voru síðan lögð fram á Alþingi áratugum saman og voru merkismál jafnaðarmanna alla tíð.

Þegar menn ákveða að fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar sé ákvörðun um að draga úr gjaldtöku fyrir not af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar eru menn þar af leiðandi að segja mikla sögu um forgangsröðun og viðhorf til réttlætis í hinu efnahagslega umhverfi. Í grunninn snýst þetta um spurninguna hvort menn telji mikilvægara að leggja skatta og álögur á fólk eða láta þá sem njóta aðgang að sameiginlegum auðlindum borga fyrir þann aðgang og létta á móti skattbyrðar venjulegs fólks og venjulegra fyrirtækja. Það er sú skakka forgangsröðun sem birtist í frumvarpinu hér sem vekur þess vegna miklar efasemdir og vangaveltur um þá stefnu sem ríkisstjórnin er að taka.

Það er auðvitað hægt að færa ýmis rök fyrir lækkun þess veiðileyfagjalds sem var lagt á í fyrravor. Það er alveg hægt að rökstyðja til dæmis að gjaldið eigi að leggja á með öðrum hætti og það er fræðilega séð hægt að rökstyðja lækkun þess með ýmsum hætti. Það er til dæmis hægt að segja að gjaldtakan sé of mikil, að þanþol greinarinnar sé ekki slíkt að hún standi undir greiðslum gjaldsins, gjaldið sé með öðrum orðum of mikið og taki til sín of mikinn hluta af hagnaði greinarinnar og meira en réttlætanlegt er.

Þá kemur að spurningunni hvort við getum prófað þá staðreynd. Er það kannski þannig? Ég vitna til skrifa hagfræðinganna Jóns Steinssonar og Gauta B. Eggertssonar, sem hafa fært fyrir því rík rök að gjaldtakan sé ekki umfram þanþol greinarinnar. Þvert á móti þyldi greinin meiri gjaldtöku og á móti væri hægt að létta sköttum af fólki. Þetta segja doktorar í hagfræði við merkustu háskóla í Bandaríkjunum, Princeton og Colombia, og færa fyrir því gild efnahagsleg rök.

Ég nefni líka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn — eina af þeim víðfrægu erlendu skammstöfunum sem hafa svo mjög truflað svefn hæstv. forsætisráðherra síðustu daga — sem hefur gert athugasemdir við þá hugmynd að rétt sé að setja lækkun veiðigjalds í forgang. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gengið lengra, hann hefur sagt að þeir hafi kannað gjaldið sérstaklega og komist að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt og hagkvæmt. Það má nefna líka athugasemdir frá OECD. Með öðrum orðum komast greiningaraðilar sem horfa á hið íslenska hagkerfi utan frá ekki að þeirri niðurstöðu að gjaldið sé meira en svo að greinin ráði við það, þ.e. að gjaldið sé ekki umfram þanþol greinarinnar.

Þá má auðvitað gagnrýna gjaldið og vekja upp efasemdir um það vegna þess að það leggist með óréttmætum og ósanngjörnum hætti á ólíka hluta sjávarútvegsins og þá sérstaklega að það leggist þyngra á bolfisksveiðar en réttlætanlegt er. Ég hef samúð með því sjónarmiði. Ég hef farið mikið um landið síðasta árið og hitt útgerðarmenn og fiskvinnslufólk um allt land og auðvitað hefur sitt sýnst hverjum um áhrif gjaldsins á rekstur á hverjum stað.

Síðan má horfa á ummæli Stefáns B. Gunnlaugssonar, lektors við Háskólann á Akureyri, sem ég held að sé virtur í sjávarútveginum og virtur í samfélaginu almennt séð sem mjög skynsamur og hógvær greinandi á þessu sviði. Hann er eini maðurinn sem ég veit til þess að hafi lesið alla rekstrarreikninga allra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í nokkur ár og starfaði hann til dæmis fyrir sáttanefndina margfrægu. Ég fékk hann til verka þegar ég var efnahags- og viðskiptaráðherra til að leggja mat á gjaldþol sjávarútvegsins og hann skilaði mjög mikilvægri skýrslu sem síðan nýttist í frekari vinnu við mótun fiskveiðistjórnarkerfis og gjaldtöku.

Þegar Stefán B. Gunnlaugsson kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið rúm til hækkunar gjaldsins á uppsjávarfisk, eins og gert er ráð fyrir í tillögum hæstv. sjávarútvegsráðherra, en kemst líka að þeirri niðurstöðu að gjaldið á bolfiskinn sé að lækka of mikið finnst mér að okkur beri einnig að taka mark á því. Í fyrsta lagi er hin almenna hagfræðilega greining á því hvort heildargeta greinarinnar til að standa undir gjaldtöku sé í lagi. Við erum með fræga hagfræðinga, sérfræðinga sem segja: Það er ekki þannig að þar sé verið að leggja á of mikið. Svo horfir maður á einstaka hluta greinarinnar og þá liggja líka fyrir álit þeirra innlendu sérfræðinga sem hafa hvað mest kafað í þessa stöðu, horft á rekstrarreikning ólíkra sjávarútvegsfyrirtækja út frá samsetningu afla í hverju og einu tilviki. Stefán B. Gunnlaugsson kemst að þeirri niðurstöðu að verið sé að lækka bolfiskinn um of og bendir á að vegna fjölbreyttra frádráttarreglna í lögunum sem komu veiðigjaldinu á séu svo margar leiðir til þess að telja fram og fá afslátt vegna kvótakaupa að það sé undir hælinn lagt hvort mörg bolfisksfyrirtæki borgi nokkuð sérstakt veiðigjald ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Hann segir þar af leiðandi að þetta sé ekki skynsamleg leið.

Í þriðja lagi er hægt að gagnrýna álagninguna út frá því að hún mismuni útgerðum eftir stærð, hún leggist þyngra á minni útgerðirnar en þær stærri og þá einkanlega í bolfiski. Þar segi ég aftur: Já, það er rétt, það eru sjónarmið sem eru gild. En aðferðin sem er lögð til af hálfu ríkisstjórnarinnar, og meiri hluti nefndarinnar treystir sér einhvern veginn ekki til þess að gera neina breytingu á, felur ekki í sér að koma með neina eðlilega lausn á því vandamáli, sem er í hlutfalli við vandamálið sem verið er að leysa. Þvert á móti er gripið til groddalegri almennrar lækkunar á veiðigjaldinu á bolfisk en ástæða er til þegar skynsamlegri leið er að fara fram með þeim hætti sem minni hluti nefndarinnar leggur til, að koma á rýmra frítekjumarki sem nýtist auðvitað minni útgerðunum og mætir þörfum þeirra.

Þannig er það í þessum þremur grundvallaratriðum sem lúta að veiðigjaldinu og mögulegum ágöllum við álagningu þess: Í fyrsta lagi að meira sé lagt á en greinin í heild þolir, í annan stað að lagt sé meira á bolfiskinn en hann þolir og í þriðja lagi að lagt sé meira á minni útgerðirnar en þær þola. Í öllum tilvikum er niðurstaðan sem lögð er til í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki sú sem er skynsamlegust, ekki sú sem fellur best að almannahagsmunum heldur þveröfugt.

Ég vil í því samhengi ræða aðeins aðrar leiðir. Það er auðvitað gagnrýnivert að við séum alltaf að reyna að finna leiðir til að leggja veiðigjald á með einhverjum viðmiðum sem eru umdeilanleg. Það er óhjákvæmileg afleiðing þess að við erum að reyna að ná utan um það sem heitir umframrenta, auðlindarenta, sem er umfram eðlilega arðsemi í greininni en er erfitt að skilgreina nákvæmlega og það leiðir af eðli greinarinnar og sveiflum í sjávarútvegi að rentan sveiflast eftir gengi greinarinnar. Ef menn gætu sagt að hér væri fitulagið í sjávarútveginum og þeir ætluðu bara að taka það væri það einhver fasti og þá værum við náttúrlega í voðalega þægilegri stöðu til að gera þessa hluti. En það er ekki þannig vegna þess að rentan verður meiri á uppgangstímum og hún verður minni og getur jafnvel horfið á samdráttartímum í sjávarútvegi.

Það er því ákveðið vandamál að fara þá leið að leggja með almennum hætti á þetta gjald. Ég hef alltaf aðhyllst þá leið sem Samfylkingin hefur talað fyrir árum saman, að auðlindarentan sé ákvörðuð í frjálsum viðskiptum á markaði, að það sé ekki stjórnvaldsákvörðun að úrskurða að borga eigi þetta og þetta, heldur sé það þannig að nægjanlegt magn veiðiheimilda sé á markaði á hverjum tíma til þess að það myndist raunverulegt verð með þær heimildir í frjálsum viðskiptum manna á milli til þess að ákvarða í reynd verðið sem greinin er að leggja á veiðiheimildirnar. Þannig að frekar en að allar veiðiheimildir séu alltaf að skipta um hendur sé nægilega mikill hluti á markaði á hverjum tíma til þess að raunhæft úrtak sé til að prófa afrakstursgetu greinarinnar á hverjum tíma.

Sú leið hefur það í för með sér að þegar vel gengur í sjávarútvegi, aðstæður eru góðar, borga fyrirtækin mikið fyrir viðbótaraflaheimildir. Með sama hætti borga þau lítið þegar kreppir að. Þannig væri það tryggt í kerfi sem þessu, án nokkurra vandkvæða og án þess að við þyrftum eitthvað að velta því fyrir okkur hversu hátt krónuhlutfallið ætti að vera á bolfisks- eða uppsjávarveiði, að afgjaldið réðist einfaldlega í frjálsum viðskiptum manna á milli. Þjóðin mundi þannig deila kjörum með sjávarútveginum, sem er grundvallaratriði, að þjóðin og sjávarútvegurinn séu bandamenn, vegna þess að þegar vel gengi í sjávarútveginum nyti þjóðin ríkulega og þegar á bjátaði, því að vitum öll að sjávarútvegur er sveiflukenndur rekstur og það er ekkert gefið í því hvernig afkoma í honum er frá einu ári til annars eða einu árabili til annarra, væri þessi grundvallarhlekkur tryggður áfram sem bindur saman þjóðina og sjávarútveginn um sameiginleg örlög.

Ég hef alltaf verið talsmaður þess að við fyndum betri leið til að leggja gjald sem þetta á og að það gjald væri lagt á, eins og ég segi, á grundvelli frjálsra viðskipta. Auðvitað er hægt að segja: Þetta er ósanngjarnt gagnvart fyrirtækjum sem eiga allar sínar heimildir og hafa átt þær lengi og eiga ekki nein viðskipti með heimildir. En á móti kemur að ef magnið er meira en agnarlítill pottur myndast það sterkur grunnur að það ætti að geta myndast raunveruleg verðmyndun með veiðiheimildir í svona potti og þar með ætti hann að geta ráðið afgjaldi fyrir greinina í heild.

Því er ég að rekja þetta? Því að ég tel að sú niðurstaða sem við erum að leggja upp með í áliti minni hlutans í þessu máli hér setji fram viðunandi málamiðlun meðan við erum ekki með betra kerfi en það að leggja gjaldið á í rauninni með almennum stjórnvaldsákvörðunum. Besta leiðin væri að mínu viti án efa að búa til umgjörð með því að tryggja að fullnægjandi hluti veiðiheimilda væri á markaði til þess að afgjaldið réðist á markaði á hverjum tíma og þar af leiðandi þyrfti minni þrætur um hver væri raunveruleg afrakstursgeta sjávarútvegsins á hverjum tíma.

Eitt langar mig líka að nefna hér sem er hugmyndin um sjávarútveginn vegna þess að okkur talsmönnum hraustlegs veiðigjalds, hraustlegs afgjalds fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum, hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að vera óvinir sjávarútvegsins. Ekkert er fjær mér í hugsun. Ég held að það sé grundvallaratriði fyrir íslenska þjóð að við höfum áfram öflugan sjávarútveg og að við höfum áfram samkeppnishæfan sjávarútveg. Sjávarútvegurinn er í dag burðarstoð íslensks efnahagslífs og verður það um ókomna tíð. Hann hefur getið af sér gríðarlegan ávinning fyrir íslenskt samfélag umfram það sem hefur orðið til í greininni sjálfri. Umgjörð greinarinnar, stærð hennar, kraftur og fjárfestingargeta hefur valdið því að myndast hefur öflugur þekkingariðnaður til hliðar við sjávarútveginn á Íslandi, sem aldrei hefði myndast nema af því að greinin var svona sterk og öflug og hafði mikla fjárfestingargetu.

Endurnýjunarhæfni íslensks sjávarútvegs er mjög merkilegt fyrirbæri. Það er ótrúlegt að horfast í augu við það að þessi grein skuli á árunum í kringum 1990 hafa tapað meiru en helmingnum af þorskaflanum en komist í gegnum þær hremmingar með gríðarlegri endurnýjunarhæfni, mikilli fjárfestingu í nýrri tækni og nýrri þekkingu. Menn gerðu einfaldlega meiri verðmæti úr minna magni, sífellt meira verðmæti úr minna magni. Ég þori ekki að fara með tölurnar hér því að þær enda í þingtíðindum, ekki hverjar þær eru nákvæmlega, en það er ólíku saman að jafna hvað við erum að nýta af hverjum þorski nú eða árið 1990. Mig minnir að hlutfallið hafi verið ekki nema um 40% af hverjum þorski sem við nýttum 1990 og við erum komin langt, langt, langt upp fyrir það núna. Ég þekki ekki einu sinni hlutfallið en það eru dæmi um þorska sem menn eru að vinna í einstökum fyrirtækjum og ná alveg upp í 97%, þannig að það er nokkurn veginn ekki nokkur skapaður hlutur sem út af stendur.

Til að til dæmis þetta kraftaverk hafi verið mögulegt þurfti greinin að búa við tvennt. Hún þurfti að búa við frjálst framsal veiðiheimilda og hún þurfti að geta fjárfest, hún þurfti að búa við arðsamar forsendur. Ég held að það skipti óskaplega miklu fyrir okkur sem þjóð að þetta verði áfram umgjörð íslensks sjávarútvegs, að hann geti áfram verið þessi burðargrein því að alveg eins og hann með fjárfestingargetu sinni upp úr 1990 varð stoð fyrir fjöldamörg þekkingarfyrirtæki sem þá voru að slíta barnsskónum og voru að þróa lausnir fyrir sjávarútveginn, hvort sem það voru hátæknilausnir eins og Marel eða lausnir sem voru meira í almennri þjónustu í veiðarfærum og slíku, getur hann í dag orðið burðarás fyrir svo margt annað, fyrir fyrirtæki sem eru að vinna í líftækni o.s.frv. Tækifærin eru svo óendanlega víða.

Kvótakerfið og frjálst framsal innan þess er að mínu viti grundvallarþáttur í árangri sjávarútvegsins og velsæld íslensks samfélags og ég er fylgjandi hvors tveggja. Ég vil frjálst framsal veiðiheimilda og það er mikilvægt að kvótum sé úthlutað til fyrirsjáanlegs tíma þannig að fyrirtæki geti fjárfest. Það fjárfestir auðvitað enginn í dýrum tækjum ef fullkomin óvissa er um það hversu lengi fólk heldur veiðiheimildunum eða jafnvel ef fólk þarf að sækja sér veiðiheimildirnar á ársfresti á opinn markað og borga óvíst verð frá einum tíma til annars. Það er einmitt grunnurinn sem er fólginn í kvótum, framseljanlegum kvótum sem fyrirtækin vissu að þau höfðu um fyrirsjáanlega framtíð, sem hefur auðvitað valdið því að fyrirtæki hafa getað tekist á við ný tækifæri í greininni og nýtt þau með tæknilausnum sem eru öfundaðar úti um allan heim. Það er alveg sama hvort það er í uppsjávarfisknum á síðustu árum, hvort það er í rækjuvinnslunni eða hvort það er í þeirri þróun í bolfisksvinnslu sem ég var að rekja áðan samhliða minni þorskafla, í öllum þeim greinum hefur orðið tæknistökk sem hefur verið knúið áfram af nánu sambandi innlendra framleiðenda, þ.e. innlendra þjónustufyrirtækja og framleiðenda vélbúnaðar, og svo sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra.

Greiðsla hóflegs auðlindagjalds, hraustlegs auðlindagjalds, er engin andstaða við arðbæran sjávarútveg. Það er mjög mikilvægt að greitt sé hraustlegt auðlindagjald af greininni. Grein sem leggur ekki meira af mörkum en felst raunverulega í umframrentunni í þröngum skilningi verður ekki fyrir neinu tjóni. Um það hafa verið skrifaðar margar fræðigreinar og hugmyndin að baki skilgreiningunni á auðlindarentu felst akkúrat í því að menn gangi ekki of langt í að taka af fyrirtækjunum hinn raunverulega arð af reglulegri starfsemi og taki hann satt að segja alls ekki heldur bara umframhagnaðinn, rentuna sem er umfram það sem starfsemin sjálf byggir upp. Ef þarna tekst rétt til í skilgreiningunni á auðlindarentunni og hún er réttilega tekin og ekki oftekið þá skaðar það ekki uppbyggingu fyrirtækjanna, nema síður sé.

Þarna kemur aftur að því sem ég var að rekja áðan, það þarf að taka rétt, það þarf að ná að ákvarða auðlindarentuna með réttum hætti þannig að ekki sé tekið of mikið. Þess vegna skiptir umræðan sem við eigum hér um fjárhæð veiðigjaldsins og eðli þess auðvitað miklu máli því að það hefur afleiðingar ef menn taka of mikið af í veiðigjöldum og skaða samkeppnishæfni fyrirtækjanna og rekstrarforsendur þeirra.

Ég vil í framhaldi af því vekja aftur máls á og koma aftur að hugmyndinni um forgangsröðunina sem felst í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ég held reyndar að í aðdraganda síðustu kosninga hafi menn almennt ekki gert ráð fyrir því miðað við málflutning stjórnarflokkanna sem þá var hafður í frammi að fyrsta forgangsmál á nýju sumarþingi væri að lækka fjárhæð veiðigjalds eins ríkulega og raun ber vitni, og jafnvel gengið lengra en hógværustu sérfræðingar telja eðlilegt, heldur að fyrstu verk ríkisstjórnarinnar væru líklega að efna eitthvað af þeim digru fyrirheitum sem gefin voru, hin hugumstóru skattalækkunarloforð sjálfstæðismanna eða fyrirheit framsóknarmanna um tafarlausa skuldalækkun strax í sumar, heimilin í forgang, framsókn fyrir heimilin. Alla vega er þetta frumvarp ekki í nokkru samræmi við fyrirheitið um framsókn fyrir heimilin.

Ég held því að fólki hafi brugðið nokkuð í brún þegar það sá frumvarpið og að þetta skyldi vera fyrsta forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar. Við erum í þeirri stöðu að erfitt er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og við þurfum að treysta tekjuöflunargrunn ríkissjóðs.

Þegar síðasta ríkisstjórn tók við blasti við að með innstæðulausum skattalækkunum á árunum fram að hruni var búið að veikja svo tekjuöflunargrunn ríkissjóðs að ekki var hægt að reka ríkissjóð í einu einasta meðalári, hvað þá þegar kom að hruni. Þegar kom að hruni voru tekjurnar sem menn höfðu byggt á frá bankakerfinu náttúrlega horfnar og það þurfti að byggja upp tekjuöflunargrunninn. Það er mjög erfitt að byggja upp tekjuöflunargrunn í kreppu. Ætlarðu að leggja skatt á hagnað fyrirtækjanna frá því í fyrra? Það er löngu búið að eyða honum, það er eins og að virkja vatnið sem rann til ósa í Þjórsá í fyrra. Það er ekki hægt, það er hægt að virkja vatnið sem rennur í dag. Ekki geturðu lagt þunga skatta á almennar launatekjur í miðri kreppu þegar fólk upplifði það vegna þess snilldarfyrirbæris sem íslenska krónan er að kaupmáttur launa rýrnaði um tugi prósenta í einu vetfangi.

Okkur var því mikill vandi á höndum við að byggja upp tekjuöflunarkerfið. Það var búið að rýra það svo skipulega árum saman að meira að segja í efnahagsspám fjármálaráðuneytisins sjálfs árið 2006 er gert ráð fyrir því að þegar framkvæmdum ljúki á Kárahnjúkum árið 2008 verði halli á ríkissjóði. Með öðrum orðum var búið að veikja svoleiðis tekjuöflunargrunn ríkissjóðs að ekki var hægt að reka ríkissjóð hallalausan í meðalári. Það þurfti viðvarandi ofþenslu, botnlaust innflæði erlends lánsfjár og stöðutökur erlendra spekúlanta til þess að halda hinu götótta fleyi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á floti á kjörtímabilinu 2003–2007.

Þegar við tökum síðan við ríkissjóði, sem hefur ekki bara orðið fyrir miklum heimatilbúnum búsifjum vegna ófjármagnanlegra skattalækkana sem engin innstæða var fyrir heldur líka vegna þess að stórir gjaldendur opinberra gjalda eins og bankarnir voru komnir í þrot og borguðu þá náttúrlega engin opinber gjöld, var okkur vandi á höndum, eins og fyrr segir. Eitt af fyrstu verkefnunum sem við horfðum á til að styrkja tekjuöflunargrunn ríkissjóðs var að efla tekjurnar sem við gætum fengið af nýtingu auðlinda. Það var ekki einungis efnahagslega skynsamlegt að leggja gjöld á til dæmis nýtingu orkuauðlinda og nýtingu sjávarauðlindarinnar heldur var það einfaldlega líka rökrétt út frá eignatilfærslunni sem hafði orðið í hruninu þar sem heimilin áttu í vök að verjast, efnahagsreikningur þeirra hafði versnað mjög vegna skuldsetningar þeirra sem hafði hækkað upp úr öllu valdi á sama tíma og blessuð krónan varð verðminni og verðminni. Á sama tíma fólust auðvitað í gengisfellingunni og þessum hamförum öllum — sem Framsóknarflokkurinn kallar reyndar í stjórnarsáttmálanum verðbólguskot og þykir mér það hófleg nafngift — gríðarlegar tilfærslur á verðmætum frá heimilageiranum í samfélaginu til samkeppnis- og útflutningsgreina. Það voru því ekki bara hagræn rök fyrir því að auka arð okkar af sameiginlegum auðlindum, orkuauðlindum, sjávarauðlindum og öllum öðrum auðlindum, heldur var það líka réttlátur tilflutningur á byrðum innan samfélagsins að reyna sem kostur var að létta byrðum af heimilum og fella byrðarnar frekar á útflutnings- og samkeppnisgreinar sem voru í miklu, miklu betri færum til að standa undir þeim.

Þetta sést náttúrlega afskaplega vel þegar maður ber saman afkomu einstakra atvinnugreina í atvinnugreinagreiningum Hagstofunnar hversu verslunin hefur átt undir högg að sækja frá hruni og hversu framlegðin í sjávarútvegi hefur verið gríðarlega góð. En það er eins og annað í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að það rekur sig hvert á annars horn. Ríkisstjórnin er sammála þeirri stefnumörkun sem við réðumst í 2009, að létta heimilunum byrðarnar sem kostur er og vill meira að segja ganga lengra og leiðrétta með almennum hætti verðbólguskotið frá 2008 og afleiðingar þess, en hún er alls ekki tilbúin að ætla samfélaginu neinn hlut af þeim gríðarlega ávinningi af gengisfellingunni sem sumir aðilar í samfélaginu höfðu. Þvert á móti kemur ríkisstjórnin fyrst hér inn og lækkar fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu sem þó var búið að gefa árs fyrirvara á og væntanlega flest fyrirtæki búin að fella þá hóflegu hækkun úr 7% virðisaukaskatti upp í 14% inn í sína katalóga og verð sitt gagnvart kaupendum. Ríkisstjórnin kom ekki einungis með það inn heldur kemur hún síðan líka með þennan sérkennilega gjafapakka í veiðigjaldinu.

Ég vil segja að það er ómögulegt að átta sig á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ef það er þannig að tjónið af verðbólguskoti er samfélagslegt tjón mundi ég halda að gróði af verðbólguskoti ætti að vera samfélagsleg eign. Fyrir því eru mörg dæmi í íslenskri hagsögu. Á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar voru settir á sérstakir dýrtíðarskattar, dýrtíðargjöld, með ýmsum hætti til þess að ná utan um hagnað þeirra sem voru að græða á verðbólgunni, þannig að það eru meira að segja fordæmi fyrir slíku. En ríkisstjórnin kemur hér á sama tíma og hún segist ætla að hjálpa heimilum sem urðu fyrir tjóni vegna verðbólgu, hún setti það reyndar í nefnd og allt óvíst um efndir þeirra fyrirheita, með gullbróderaðan gjafapakka handa þeim sem græddu á sömu verðbólgu.

Af hverju í ósköpunum ætlar ríkisstjórnin að ríkisvæða tjónið af verðbólgunni en gefa þeim sem græddu á verðbólgunni aukagjafir úr ríkissjóði? Hver á að borga fyrir þessa veislu til handa vildarvinum sem ríkisstjórnin er að efna til? Það er greinilega engin heildarsýn sem heldur í þessum tillögum. Ég mundi segja að það að hvika núna — meðan menn eru ekki enn þá búnir að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og eru satt að segja að færast fjær því markmiði vegna þeirra miklu lausataka sem nú eru í stjórn ríkisfjármála og þess að ráðherrar eru uppteknari við að afsala ríkinu tekjum en að reyna að afla tekna eða skera niður útgjöld — ég hefði haldið að menn ættu að passa sérstaklega fordæmisgildi þess að hræra að óþörfu í nýjum tekjustofnum fyrir almenning eins og álagning gjalda fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum er sannarlega.

Það fylgja því hagræn rök að byggja upp slíka tekjustofna. Við sjáum til dæmis hverju ný stefna Landsvirkjunar um aukinn arð af orkusölu skilar í sjálfu sér varðandi framtíðarhorfur um hag þjóðarinnar af þessu fyrirtæki. Ef okkur tekst að forðast að éta útsæðið, forðast að gefa aðganginn að auðlindum okkar.

Ég hef stundum sagt að stærsti ávinningur þeirrar ríkisstjórnar sem sat á síðasta kjörtímabili var að við skyldum ná þeim mikla árangri sem við náðum í glímunni við ríkisfjármálin án þess að fara þá leið sem allar aðrar þjóðir sem hafa náð skjótum árangri við slíkar aðstæður hafa beitt, sem er að gefa aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Við gerðum það ekki, þvert á móti höfum við verið að auka arðinn af auðlindum þjóðarinnar og ætlað þjóðinni ríkara afgjald af auðlindunum en áður. Það er þess vegna sem ég hef áhyggjur af því ef verið er að hverfa frá þeirri stefnu. Hún er nefnilega ekki bara efnahagslega mikilvæg, hún er mikilvæg forsenda réttrar og góðrar hagrænnar þróunar. Hún er forsenda jafnra samkeppnisaðstæðna milli atvinnugreina en hún er líka forsenda fyrir félagslegt réttlæti í landinu, að þjóðin viti að við fáum arð af auðlindum okkar og hún mun auðvitað styðja við tilraunir til að loka fjárlagagatinu.

Ríkisstjórnin verður náttúrlega að átta sig á því, þó að hún hafi ekki sýnt mikinn áhuga á því að loka þessu fjárlagagati enn þá, að ríkisstjórn sem ætlar að mæta þörfum íslenskrar þjóðar á svona óvissutímum verður að sýna aga í ríkisfjármálum. Það mun þessi ríkisstjórn þurfa að læra fyrr eða seinna ef ekki á að fara illa fyrir henni.