142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi S. Björnsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það kom í ljós, þegar kosið var í nefndir í byrjun sumars, að kynjaskipting í nefndum var býsna ójöfn. Eftir að það kom í ljós var farið í það innan þingsins að breyta þessu og hafa stjórnarflokkarnir, bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, gengið mjög langt í því, hafa verið að flytja fólk á milli nefnda til að jafna þetta bil.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni þá eru í Íslandsdeild Evrópuráðs þingsins þrír karlar og ástæðan fyrir því að því var ekki breytt áður en við fórum út er einfaldlega sú að ekki náðist samkomulag milli þeirra þriggja flokka sem eiga fulltrúa í nefndinni, þ.e. Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, um hver þeirra ætti að víkja sínum manni frá og koma konu í nefndina í staðinn. Þetta er mikilvæg nefnd. Flokkarnir þrír leggja mikla áherslu á að ákveðnir aðilar séu í þessari nefnd og er ekkert við það að athuga í sjálfu sér.

Auðvitað hefðum við átt að ná samkomulagi um þetta mál áður en farið var út. Við vissum af þessari reglu rétt áður en við fórum út en hins vegar náðist ekki samkomulag. Það vantar aðila innan þingsins sem tekur á málum af þessu tagi og hefur vald til að taka ákvörðun. Enginn slíkur aðili er til staðar í dag sem þýðir að flokkarnir, þrír í þessu tilfelli, verða sjálfir að ná samkomulagi. Sjálfur lagði ég, áður en við fórum út, mikla áherslu á að slíkt samkomulag næðist en það tókst því miður ekki.

Við sögðum þarna úti að við mundum breyta þessu fyrir septemberlok og það stendur, þessu verður breytt, þannig að það sé alveg á hreinu. — Ég ætla reyndar líka að benda á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist hjá Evrópuráðsþinginu. Þetta gerðist síðast fyrir tveimur árum og hefur gerst nokkrum sinnum áður.

Að lokum vil ég bara benda á að stjórnarflokkarnir hafa verið duglegir við að færa sitt fólk til. Stjórnarandstaðan hefur ekki verið jafn dugleg við að færa sitt fólk til í nefndum. Sem dæmi má nefna að í alþjóðanefndunum er stjórnarandstaðan með sjö karlmenn sem aðalmenn en aðeins fjórar konur. Þeir ættu kannski aðeins að líta í eigin barm í þessu máli.