142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Kirkjan er ein af grunnstoðum samfélagsins. Tæplega 80% Íslendinga tilheyra þjóðkirkjunni. Í áfangaskýrslu starfshóps sem innanríkisráðherra skipaði haustið 2011 til að meta áhrif niðurskurðar sóknargjalda á starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar kom í ljós að niðurskurður á tekjum safnaðanna frá árinu 2008 var á þeim tíma rúmlega helmingi meiri en meðalniðurskurður hjá þeim stofnunum sem heyra undir innanríkisráðuneytið. Niðurstaðan er því sú að sóknargjald sem í ár er skilað til trúfélaganna fyrir hvern einstakling nemur 728 kr. á mánuði en árið 2006 var sóknargjaldið sem skilað var 720 kr.

Á þessu tímabili hefur vísitala neysluverðs hækkað um 61,5%. Það þýðir að trúfélögunum er í ár ætlað að reka starfsemi sína á um það bil 1/3 þeirra rauntekna sem þau höfðu árið 2006. Þessi mikli niðurskurður á sóknargjaldinu hefur leitt til þess, samkvæmt gögnum frá Ríkisendurskoðun, að árið 2010 náðu 92 sóknir ekki endum saman í rekstri sínum og þeim fer fjölgandi.

Starfshópurinn taldi því ljóst að þjóðkirkjan mundi með sama áframhaldi neyðast til að leggja niður mikilvægan hlut af kjarnastarfsemi sinni á allra næstu árum til að forða því að söfnuðirnir í heild kæmust í þrot. Staðan er grafalvarleg og enn þá alvarlegri verður hún þegar að því er gætt að innheimta sóknargjalda í ríkissjóð hefur ekkert lækkað á þessu tímabili heldur þvert á móti hækkað með verðlagi á skatttekjum. Innheimta sóknargjalds var þannig samkvæmt lögum um sóknargjöld 1.005 kr. á mánuði á hvern einstakling á árinu 2012 eða 277 kr. hærra en sú upphæð sem skilað var til trúfélaganna. Það liggur fyrir að ríkið heldur nú eftir tæplega þriðjungi innheimtra sóknargjalda í stað þess að skila þeim til trúfélaganna.

Virðulegi forseti. Það er einlæg von mín að samstaða (Forseti hringir.) verði á Alþingi um að sóknargjaldinu verði skilað óskiptu til safnaðanna og rekstur þeirra tryggður til framtíðar.