142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir að forseti skyldi gefa mér leyfi til að stíga í ræðustól þrátt fyrir að ég klæðist buxum sem gætu talist gallabuxur. Ég mun að sjálfsögðu góðfúslega hlíta þeim tilmælum sem til mín hefur verið beint um að fara heim og skipta um og mun gera það strax að þessari ræðu lokinni, enda er mér ekkert eins hugleikið og virðing hins háa Alþingis.

Íslenska skólakerfið hefur lengi valdið mér áhyggjum. Skólakerfið er lykillinn að því að fólkið okkar og þjóðin séu samkeppnisfær, og menntun er grundvöllur þess að velgengni Íslands megi ná í samfélagi þjóðanna. Nýlega var kynnt ný skýrsla frá OECD sem ýtir enn undir áhyggjur þessar en íslenskir nemendur útskrifast elstir úr háskóla og næstelstir úr menntaskóla innan OECD-ríkjanna. Ísland er eina OECD-ríkið sem ver meiri fjármunum á hvern grunnskólanema en hvern háskólanema.

Hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson hefur sýnt eftir að hann tók við embætti að hann hefur mikinn metnað fyrir hönd íslenska menntakerfisins og er opinn fyrir nýrri hugsun. Ég er ánægð með það og tel að nú sé lag. Að mínum dómi er allt undir, grunnskólinn, framhaldsskólinn og öll æðri menntun, ekki bara í dæmigerðum háskólagreinum heldur tel ég æðri menntun ekki síður vera í iðnskólum, sjómannaskólum og fiskvinnsluskólum.

Að lokum langar mig að vitna í grein eftir ungan námsmann, Ísak Rúnarsson, sem hann skrifaði á visir.is árið 2012, með leyfi forseta:

„Á löngum skóladögum undanfarin ár hef ég hugleitt hvað ég sé eiginlega að gera í skóla. Ég hef íhugað að hætta; íslenskutímar eru andlausir, samt hef ég gaman af bókmenntum; raungreinatímar eru vélrænir, samt finnst mér gaman að vita meira um verkan hluta í heiminum; erlend tungumál staglið uppmálað, samt finnst mér fátt skemmtilegra en að tala við útlendinga. Ég er heldur ekki sá eini sem líður svona því rannsóknir sýna að árið 2010 fannst um 30% drengja og 17% stúlkna (Forseti hringir.) leiðinlegt í skólanum.“