142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Á fundi með Ban Ki-moon í morgun bar ég upp áhyggjur mínar á því að liðin séu sex ár frá því að Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valfrjálsa bókun hans en hefur ekki fullgilt hann. Ég geri mér grein fyrir því að ákveðin vinna hefur farið fram í því skyni að fullgilda samninginn en hún hefur verið hæg og enn er mikil vinna fyrir höndum. Á námskeiði á Írlandi sem ég sat nú á dögunum um þennan tiltekna samning og innleiðingu hans kom bersýnilega í ljós hve skammt á veg við erum komin í fullgildingarmálum.

Ef horft er til íslenskra rannsókna benda þær til þess að fatlað fólk búi við mikla félagslega einangrun, fátækt, hvers kyns ofbeldi og aðgreiningu. Rannsóknir sýna jafnframt að fatlað fólk er hrætt við að gera kröfur um breytingar eða kvarta af ótta við að vera refsað innan þjónustukerfisins. Það þarf jafnframt að berjast fyrir því að hafa aðkomu að ákvarðanatöku í málum sem varða líf þess.

Ég vil skora á hv. þingmenn sem eru fulltrúar í velferðarnefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd að hefjast handa af krafti við fullgildingu samningsins og ljúka því starfi sem fyrst. Jafnframt legg ég áherslu á að í þeirri vinnu verði haft náið samráð við fatlað fólk sjálft. Í starfi mínu hef ég orðið vör við alvarlega bresti í samráði en með því að bæta úr því tryggjum við betur að þær ákvarðanir sem þingið tekur og þær lagabreytingar sem eiga sér stað séu í samræmi við samninginn og uppfylli frekar skilyrði fyrir fatlað fólk til að geta tekið þátt í samfélaginu, haft áhrif á það og lifað sjálfstæðu lífi.

Við höfum náð langt í mannréttindavernd margra minnihlutahópa á Íslandi sem þýðir að við erum fullfær um að færa okkur til nútímans þegar kemur að réttarstöðu fatlaðs fólks og að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.