142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í þessum lið, störf þingsins, var rætt um þá hneykslun sem nefnd skipuð körlum olli á Evrópuráðsþinginu. Mig langar að ræða það hneyksli að þing Evrópuráðsins hafi þurft að sýna í orði hneykslun á Alþingi Íslendinga þegar það sama þing samþykkir ályktun þar sem sagt er að lýðræði og réttarríkið krefjist þess að stjórnmálamenn séu verndaðir fyrir því að vera ákærðir vegna pólitískra ákvarðana — og er hér verið að vísa til landsdóms.

Virðulegur forseti. Alþingi Íslendinga hlýtur með einhverjum hætti að þurfa að taka á og velta fyrir sér þessari ályktun Evrópuráðsins og bregðast við henni formlega.

Það hefur líka komið fram, í umræðu um þessa ályktun, að enginn er að velta því upp að ráðherraábyrgð eigi ekki að vera rík og að ráðherra sé ekki hægt að sækja til saka fremji þeir afglöp í starfi eða refsivert athæfi. En það eiga ekki að vera þingmenn sem ákæra pólitíska samherja eða pólitíska andstæðinga vegna gjörða þeirra.

Virðulegur forseti. Nú heyrist að lagaleg stoð hafi verið fyrir ákærunni, lagaleg stoð Alþingis fyrir ákærunni. Ef svo hefur verið, að lagastoð hafi verið fyrir ákærunni, hljóta þeir þingmenn sem ekki greiddu atkvæði með því að ákært yrði (Forseti hringir.) að hafa brotið lög. Ég held að þessa umræðu, um að lagastoð hafi verið fyrir ákærunni, (Forseti hringir.) þurfi Alþingi Íslendinga líka að taka. Það er heldur ekki hægt að sitja undir því að hafa brotið lög af því að (Forseti hringir.) menn voru ekki sammála ákæru á hendur pólitískum samherjum og andstæðingum.