142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil segja vegna síðustu orða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að Alþingi hefur haft ágæt tækifæri til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi. Við börðumst hér allt síðasta kjörtímabil fyrir því að setja nýja stjórnarskrá sem gerði ráð fyrir því að leggja landsdóm niður. Ég held að það færi best á því að menn ljúki þeim leiðangri því að þessi verkefni eiga auðvitað heima hjá almennum dómstólum. En um leið verða menn að hafa í huga að fjórir af fimm hæstaréttardómurum eða meiri hluti þeirra hæstaréttardómara sem sat í landsdómi komst að þeirri niðurstöðu að dæma skyldi fyrir brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Það er hin efnislega niðurstaða sem málið fékk fyrir dómi.

Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs vegna þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tók upp hér í upphafi umræðunnar og varðar þingsetningardag í september og fregnir sem voru í umræðu í gærkvöldi um að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að leggja fram fjárlög á tilsettum tíma, á þeim degi sem tilskilið er í þingskapalögum.

Ég held að þetta valdi ákveðnum áhyggjum. Það hefur skipt okkur gríðarlega miklu máli að leitast við að eyða sem mestri óvissu um ríkisfjármál og efnahagsmál hér á Íslandi, halda sem best utan um þau og hafa reglufestu í þeim efnum og ég held að oft hefði mátt gera betur. Ég held að við eigum ekki að gera þetta að flokkspólitískum atriðum en ég held að það sé áhyggjuefni að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki treysta sér til að fara að þingskapalögum og koma hér inn með fjárlög á réttum tíma.

Þetta vekur líka áhyggjur um að ýmsar ákvarðanir sem hafa verið teknar nú á sumarþingi um að falla frá miklum tekjum og stofna til nýrra útgjalda, án þess að hafa hugmynd um hvað eigi að koma í staðinn, séu að koma aftan að stjórnarmeirihlutanum. Nú sé hann búinn að koma sér (Forseti hringir.) í þá stöðu að hann geti ekki lokað fjárlögunum af því að hann hefur farið (Forseti hringir.) svo geyst fram að hann hugsaði ekki (Forseti hringir.) fyrir tekjum eða niðurskurði á móti þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið.