142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil fjalla aðeins um það mál sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði að umtalsefni og er ályktun frá Evrópuráðsþinginu vegna landsdómsmálsins og ásakanir sem hafa komið fram í fjölmiðlum í kjölfar þess á hendur fyrrverandi hv. þm. Þuríði Backman sem ég tel afar ómaklegar.

Mér finnst rétt að því sé haldið til haga að hér erum við í raun að ræða um tvö aðskilin mál. Annars vegar um það fyrirkomulag sem hér hefur verið í lögum um langt skeið og má kalla barn síns tíma og er um landsdóm og hvernig hann er skipaður. Ég get tekið heils hugar undir að það er löngu tímabært og hefði átt að vera búið að gera fyrir mörgum árum að fella niður það fyrirkomulag. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar að það var tilefni til þess meðal annars í stjórnarskrárvinnunni á síðasta kjörtímabili, sem því miður náði ekki fram að ganga.

Hins vegar er spurningin um hvort rétt hafi verið staðið að málum í samræmi við þau lög sem eru í gildi í landinu þegar þetta mál var til umfjöllunar í þinginu í kjölfar ítarlegrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sú nefnd komst að tiltekinni niðurstöðu um ábyrgð ákveðinna ráðherra gagnvart ráðherraábyrgðarlögunum. Til viðbótar eru niðurstöður þingmannanefndar sem kosin var á þinginu til að fjalla um það mál og síðan að sjálfsögðu niðurstöður landsdóms sjálfs sem féllst ekki á frávísunarkröfu í málinu og sakfelldi í einu ákæruatriðinu.

Landsdómur, sem starfar samkvæmt gildandi lögum, komst að því að ákæran af hálfu Alþingis væri tæk fyrir landsdómi og tók efnislega afstöðu til hennar. Ég skil mætavel að ef málinu hefði verið vísað frá landsdómi eða sýknað hefði verið í öllum atriðum gætu menn haft uppi þá gagnrýni sem þeir hafa haft á málsmeðferð Alþingis, en ég tel hana ekki maklega miðað við þá niðurstöðu sem landsdómur (Forseti hringir.) sjálfur komst að að gildandi lögum í landinu.