142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hafa verður í huga að ályktun Evrópuráðsþingsins er ekki um landsdómsmálið og var ekki um landsdómsmálið. Hún er einfaldlega um það að stjórnmálamenn skuli ekki sæta ákærum frá öðrum stjórnmálamönnum. Það er meginprinsippið og því er ég sammála. Það má auðvitað draga ályktanir af þessari ályktun um landsdómsmálið en það rifjast upp fyrir mér, þegar ég geri það, hversu átakanlegur tími þetta var hér í þinginu og hversu slæm hugmynd þetta var þegar upp var staðið — ekki bara hvort ákærurnar hefðu staðist eða lagatæknilega hefði verið rétt að málum staðið heldur hvaða áhrif þetta hafði á starfsandann hér í þinginu og þau sár sem eftir eru í okkar pólitíska samfélagi vegna þessa máls. Það er verkefni þessa þings að lagfæra. Það minnir okkur á að í gangi eru endurbætur og breytingar á stjórnarskránni sem við verðum að halda áfram. Þetta ákvæði er bara eitt af mörgum sem stenst ekki skoðun og þarfnast endurnýjunar við.

Ég hnaut um það í orðalagi hæstv. fjármálaráðherra, og formanns Sjálfstæðisflokksins, á dögunum, þegar hann fjallaði um þetta mál, að sjálfstæðismönnum hefði ekki þótt rétt að þeir sem vildu beita lögunum mundu taka þátt í að breyta þeim. Ég tel þetta varhugavert sjónarmið. Ég held að þetta hljóti að vera samstarfsverkefni allra þingmanna hér á Alþingi og það sé ótækt að láta þann ákæruanda sem vofði yfir þessu máli öllu halda áfram að yfirskyggja það í framhaldinu. Þetta sýnir að verkefnið er brýnt og minnir okkur á að við þurfum að halda áfram með stjórnarskrárumbæturnar og reyna að gera það í eins mikilli sátt og mögulegt er. Og við þurfum líka að haga störfum hér á þingi þannig að til sáttar horfi.