142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það sem ég vil fara aðeins fyrst yfir í tengslum við 2. umr. þessa frumvarps um breytingar á lögum um veiðigjöld er hugmyndafræðin sem að baki liggur og forsaga málsins í þeim skilningi að veiðigjöld sem hafa verið lögð á í nokkrum mæli, hafa takmörkun að vísu, um alllangt árabil studdust við eina grein í lögum um stjórn fiskveiða. Þegar ráðist var í heildarendurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála á öndverðu ári 2012 varð niðurstaðan fljótlega að stefna að því að búa um þá gjaldtöku í sérstökum lögum, færa það út úr lögum um stjórn fiskveiða og til varð frumvarp til laga um veiðigjöld sem var svo lögfest á Alþingi á því ári.

Lögin eru í grunninn þannig uppbyggð að um er að ræða almennt gjald sem allir aðilar sem fá úthlutað veiðiréttindum greiða. Það er hóflegt og við það miðað að í öllu venjulegu árferði ráði öll sjávarútvegsfyrirtæki sem eru í rekstri og hafa aðgang að auðlindinni auðveldlega við það gjald. Það tekur líka visst mið af því að tekjur af gjaldinu mæti þeim kostnaði sem þjónusta við atvinnugreinina, rannsóknir og ýmis stjórnsýsla ber með sér. Þetta er hið almenna gjald og samkvæmt frumvarpinu stendur það óbreytt nú milli fiskveiðiára.

Hinn meginhluti laganna um veiðigjöld eru ákvæðin um sérstakt veiðigjald, viðbótargjald, sem er háð afkomu greinarinnar og á með næmum hætti að lesa framlegðina eins og hún er á hverjum tíma og taka breytingum til lækkunar eða hækkunar eftir því hvernig árferðið er í sjávarútveginum. Og það byggir sérstaklega á þeirri hugmyndafræði að við vissar aðstæður myndast mikil umframframlegð eða auðlindarenta vegna hins verðmæta aðgangs sem fyrirtækjunum er veittur að takmarkaðri auðlind í sameign þjóðarinnar.

Í sjálfu sér bind ég vonir við og veit ekki til að djúpstæður ágreiningur sé um slíkt fyrirkomulag. Ég er algerlega sannfærður um það sjálfur að þetta er skynsamleg nálgun, að byggja á annars vegar almennu gjaldi sem eigi að geta haldist óbreytt í öllu venjulegu árferði. Það var að minnsta kosti við núverandi aðstæður langsótt að sjá það fyrir sér að greinin hafi ekki alltaf afkomu til að bera það og þá ekki óskynsamlegt að horfa kannski til upphæðarinnar með hliðsjón af þeim kostnaði sem þjónusta, rannsóknir og ýmis stjórnsýsla sem tengist greininni hefur í för með sér og hið opinbera ber.

Sérstaka veiðigjaldið er síðan innleiðing þeirrar hugmyndafræði í löggjöf sem orðin er býsna þróuð og við þekkjum fordæmi fyrir víða að, í of litlum mæli að vísu enn á Íslandi, að þegar um takmarkaðar verðmætar náttúruauðlindir er að ræða þá myndar aðgangurinn að þeim oft forsendur til mikillar viðbótarframlegðar, auðlindarentu. Þetta er náttúrlega þekktast úr olíu- og/eða jarðefnaiðnaðinum þar sem kolvetni í jörðu gefa af sér mikinn arð. Yfirleitt eru þær auðlindir í sameiginlegri eigu, ég tala nú ekki um á landgrunni ríkja, og þá er held ég ekkert um það deilt að eðlilegt sé að eigandinn, þjóðin eða ríkið, láti ekki einkaaðila eina um að sópa upp þeim arði og hafa af því ótæpilegan gróða.

Þjóðir hafa auðvitað farið mismunandi leiðir í þessum efnum og gert sér mismikinn mat úr slíkum verðmætum náttúruauðlindum. Við þurfum ekki að fara lengra en yfir sundið til hinna Norðurlandanna til að sjá býsna ólíka nálgun þar sem annars vegar Noregur mótaði sér þá aðferðafræði, og hafði reyndar gert áður í sambandi við vatnsafl og fleiri slíkar verðmætar auðlindir, að norska þjóðin skyldi að sjálfsögðu hafa arðinn af olíu- og gasauðlindunum á norska landgrunninu. Þeir stofnuðu um landgrunnsréttindin sjálf sérstakt félag, olíugrunninn, og þeir stofnuðu ríkisolíufélag til að vera síðan þátttakandi í nýtingu auðlindarinnar og innleiddu í lög ákvæði um að stærstur hluti viðbótarauðlindarentunnar er í raun tekin árlega til norska ríkisins. Þegar olíuverð hefur farið upp úr öllum hæðum geri ég ekki ráð fyrir að menn ætlist til annars en ríkið taki þann viðbótargróða til sín. Það hefur norska ríkið sannarlega gert og hefur verið blómlegur búskapur þar á búinu undanfarin ár á tímum þegar olíufatið er á 100–110 dollara, þarf ekki annað en kíkja aðeins á norska ríkisreikninginn eða norsku fjárlögin til að sjá það.

Hinum megin við Norðursjóinn fóru Danir dálítið aðra leið. Vissulega taka þeir skatta af leyfunum en þeir stofnuðu ekki opinbert félag, afhentu stórfyrirtækinu AP Möller réttindin sem hefur haft gott upp úr sér og var gerð á því rannsókn einhvern tíma að danska ríkið hefði orðið af ómældum fjárhæðum vegna þess að Danir fóru þá leið að afhenda einkaaðila vinnsluréttindin borið saman við ef þeir hefðu farið hliðstæðar leiðir og Norðmenn.

Í raun erum við að gera það sama varðandi okkar eina stærstu og verðmætustu einstöku auðlind þar sem eru fiskimiðin við landið að innleiða þá skipan mála að þegar mikil umframrenta myndast, sem sprettur af því að menn fá aðgang að þessari verðmætu auðlind, eigi þjóðin hlutdeild í henni. Þá er eftir útfærslan og að finna hvar hófleg mörk liggja í þeim efnum. Talað hefur verið mikið um ofurskattlagningu og allt of há veiðigjöld og um það allt saman mætti býsna margt segja. Afkoma sjávarútvegsins er sem betur fer mjög góð. Hún tók auðvitað stakkaskiptum hvað varðar tekjustreymið þegar gengi krónunnar féll um 40–50%. Vissulega voru mörg fyrirtækin með skuldir á móti í erlendri mynt þannig að efnahagsreikningur þeirra allra leit ekki glæsilega út. Þau voru allt of skuldsett við hrunið og sátu uppi með neikvæðan höfuðstól að meðaltali, fyrirtæki í sjávarútvegi upp á eina 60 milljarða kr. í árslok 2008. En þau voru fljót að rétta úr kútnum og sum þeirra fengu einhverja fyrirgreiðslu í formi fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá lánardrottnum sínum en þó ekki mörg, enda reyndust þau ekki þurfa á því að halda. Í ótrúlega miklum mæli réðu fyrirtækin sjálf strax við afborganir af þeim skuldum, og það sem meira er þá borguðu þau mjög hratt niður. Því veldur að skilyrðin hafa verið afbrigðilega hagstæð að segja má lengst af þessa tíma. Gengi krónunnar var mjög lágt skráð, verð á mörkuðum héldust mjög há og gera sumpart enn eins og í uppsjávarveiðum, bæði á frystum afurðum, mjöli og lýsi. Það er fyrst nú á síðustu einu, tveimur missirum sem verð hafa farið að gefa eftir svo að marki sé einkum í tilteknum tegundum botnfisks á saltfisksmörkuðunum við Miðjarðarhafið, sérstaklega hvað varðar stóra fiskinn og einnig hefur þess gætt í nokkrum mæli á öðrum botnfisksmörkuðum. Það er þó ekki verra en það að verðvísitala sjávarútvegs fyrir bolfisk hefur lækkað um 5–6% frá 2011.

Í frumvarpinu eru rakin dæmi um þá batnandi stöðu sjávarútvegsins en þar er horft á skuldahliðina og tafla er í greinargerð frumvarpsins um það hvernig skuldir sjávarútvegsins hafi lækkað byggt á upplýsingum frá Hagstofu úr 523 milljörðum í árslok 2008 í 443 milljarða í árslok 2011. En líka má horfa á hina hliðina þar sem er eigið fé sjávarútvegsins og þar lætur nærri að sveiflan sé um 250 milljarðar, úr 60 milljarða neikvæðum höfuðstól í að nálgast 200 milljarða í jákvæðan höfuðstól síðast þegar ég gáði að því, einnig byggt á gögnum Hagstofu og greiningum fleiri aðila.

Þetta er náttúrlega mjög gott og var kærkomið að sjávarútvegurinn styrkti svona stöðu sína. Hann þurfti á því að halda miðað við útlitið á honum í árslok 2008. Var hann þó ekki að borga veiðigjöldin fram að þeim tíma, ekki voru það þau sem íþyngdu honum en vissulega var gengisskráningin útflutningsstarfseminni óhagstæð. Það var hluti af ruglinu sem í gangi var á útrásarárunum að gengisskráningin tók ekki mið af þörfum okkar hefðbundnu útflutningsatvinnugreina, enda var það annað sem henni réði, innstreymi erlends áhættufjármagns og bólan í hagkerfinu og allt það sem við þekkjum. En sveiflan er stór í hina áttina og framlegðartölur úr sjávarútveginum sem við sjáum núna þessi árin upp á um 80 milljarða kr. í fjármunamyndun í greininni er auðvitað ævintýri. Það er Íslandsmet, það er engum blöðum um það að fletta að sjávarútvegurinn hefur núna ár eftir ár slegið Íslandsmet í framlegð. Það skýrir að sjálfsögðu þá miklu sveiflu í sterkari stöðu hans efnahagslega.

Þetta eru miklu hærri framlegðartölur en menn gerðu ráð fyrir alveg svo seint sem á árunum 2009–2010 og 2010–2011, hinir vísustu spekingar sem svo telja sig vera, eins og Deloitte gerði ráð fyrir að framlegðin í sjávarútvegi yrði kannski 40–45 milljarðar á þeim árum en hún fór í 70, 75 og síðan 80 milljarða. Þó að við drögum frá þessum framlegðartölum 13 eða 15 milljarða í veiðigjöld þá stendur samt eftir meiri framlegð en eiginlega nokkurn tíma fyrr í sögunni. Það yrði eftir sem áður skilin eftir meiri fjármunamyndun í greininni en hún hefur eiginlega nokkurn tíma fyrr eða síðar búið við. Þetta eru staðreyndir, það þarf nú ekkert að rífast um þetta, er það? Þetta er allt saman svo rækilega skjalfest að ekki þarf um að deila.

Þegar kemur hins vegar að því að rökstyðja efni frumvarpsins verður fátt um svör. Kannski ætti ég fyrst að nefna það að mikið hefur verið talað, sérstaklega af hálfu stjórnarliða, jafnvel hæstv. ráðherra, um vandkvæðin við að framkvæma gildandi lög um veiðigjöld og höfð voru uppi stór orð um það að þau séu algerlega ónothæf og það hafi legið fyrir síðan um áramót og guð má vita hvað. Ekkert af þessu er rétt. Í grunninn eru það ekki lögin um veiðigjöld sem eru vandamálið heldur girðingar milli opinberra stofnana sem neita að afhenda eða taka við gögnum hver frá annarri. Ég hef farið nokkuð rækilega yfir þetta. Ég prentaði út öll bréf og gögn sem mér sýndist að atvinnuveganefnd hefði fengið og las mig svolítið í gegnum þau og tel mig hafa komist sæmilega til botns í því hvar vandinn liggur. Mér var að sjálfsögðu vel kunnugt um það að um áramótin og á fyrstu mánuðum þessa árs var veiðigjaldsnefnd að leita eftir því að fá sundurgreindari upplýsingar um tiltekna hluti. Það var aðallega tvennt sem þar var á ferðinni. Það fyrra var og skiljanlega að til að hægt væri að aðgreina með réttum hætti og leggja á sérstök veiðigjöld annars vegar á uppsjávarveiðar og vinnslu og hins vegar botnfisksveiðar og vinnslu þurfti að greina þetta tvennt að. Þar vafðist fyrir mönnum að hluti uppsjávartegundanna er að sjálfsögðu unninn á sjó og það er augljóst að það hefði skekkt niðurstöðurnar ef framlegðin úr þeirri vinnslu teldist óskipt til fiskvinnslu og lenti á bolfiskshlutanum sem andlag gjalds. Þess vegna þurfti að aðgreina þetta og það hefur verið gert. Hagstofan er búin að gera það og þau gögn liggja nú fyrir. Nú er til algerlega klár aðgreining á framlegðinni í uppsjávarveiðum, framlegðinni í uppsjávarvinnslu og framlegðinni í þeim hluta útvegsins sem er vinnsla uppsjávartegunda á sjó og hún blandast ekki lengur saman við hitt. En þetta þurfti að vinna, það er rétt, það liggur núna fyrir.

Hinn hnúturinn sneri að því að það þurfti að fá sundurliðaðar upplýsingar og aðgreiningu í sömu þá flokka á stofnverði rekstrarfjármuna og það þarf síðan að uppreikna, vegna þess að það er uppreiknað stofnverð rekstrarfjármunanna sem gengur inn í grunninn og dregst frá áður en andlag sérstaka veiðigjaldsins er fundið. Nú ber svo við að þau gögn liggja líka fyrir. Ríkisskattstjóri er búinn að vinna þau gögn enda hefur verið fundað linnulaust og bréfað milli þessara aðila alveg frá því upp úr áramótum til að koma þessu öllu á koppinn. Þetta liggur fyrir, ég veit ekki annað. Ég vil þá að mér sé andmælt ef aðrir telja sig vita betur. En það strandar á því að ríkisskattstjóri segist ekki afhenda þessi gögn nema hann fái um það beiðni frá aðila sem er til þess bær að lögum að taka við þeim.

Að vísu er það svo að ríkisskattstjóri sendir Hagstofunni viðamikil gögn árlega sem Hagstofan notar í störfum sínum og til hagsýslugerðar o.s.frv. En hvað gerist þegar ráðuneytið og ríkisskattstjóri eru búin að bréfa þetta allt saman og ríkisskattstjóri skrifar Hagstofunni og biður Hagstofuna um að biðja sig um gögnin þannig að þetta verði nú leyst? Það bréf gengur á milli 28. maí. Þá svarar Hagstofan og segir einfaldlega nei. Við viljum ekki biðja um þau gögn. Við erum hagsýslustofnun og lítum ekki svo á að okkur sé skylt að standa í þessu. Og þar strandar málið, þannig liggur það og á þessu þarf að taka, það er alveg rétt. Það er miklu betra að fá gögnin sundurliðuð og greind frá skattinum heldur en þurfa að áætla það. Það er alveg augljóst, ég viðurkenni það. Þá er einfalt mál að taka á því. Þá er að setja það í lög að slík gögn skuli ganga á milli aðila. Það má búa um trúnað eftir því sem þarf, til dæmis hvað varðar nefndarmenn í veiðigjaldsnefnd. Það þarf að sjálfsögðu ekki varðandi starfsmenn ríkisskattstjóra og Hagstofunnar því að þeir eru bundnir af trúnaði hvort sem er. Það þarf að ganga frá því skýrt og skilmerkilega að ríkisskattstjóri eða skatturinn vinni þau gögn sem hann er búinn að gera eða eftir atvikum önnur sem til þarf og að honum beri að senda það Hagstofunni og Hagstofunni beri að taka við þeim. Ef menn telja ekki hægt að hafa Hagstofuna inni í þessum málum verður að láta annan aðila annast um þessa framkvæmd. Þá verður það bara að vera ríkisskattstjóri og veiðigjaldsnefndin beint. En það eðlilega væri auðvitað að það væri Hagstofan einfaldlega vegna þess að hún fær hvort sem er nánast allar þær upplýsingar árlega frá skattinum, nema hvað, það eru mikilvæg gögn að fá raunveruleg framtöl fyrirtækjanna til hagsýslugerðar, og það er notað til að leiðrétta ýmislegt eftir á sem byggir á áætlunum þegar hin raunverulegu gögn koma en hún fær þau ekki svona sundurgreind, enda hefur þess ekki þurft vegna hinnar almennu hagsýslugerðar.

Þetta eru nú öll ósköpin sem strandar á eftir því sem ég kemst næst hafandi skoðað þetta eins vel og ég hef getað miðað við gögnin sem ég hef í höndunum. Það er allt og sumt, það eru öll ósköpin sem hafa verið gerð hér að stórkostlegu máli.

Varðandi frumvarp hæstv. ríkisstjórnar sem ber svo við að er komið á borð okkar þingmanna, það ekki mikið að vöxtum hvað varðar pappír og málslengd en það er auðvitað mjög stórt því að það felur í sér umtalsvert tekjutap fyrir ríkið frá fyrirliggjandi áætlunum og verulega sveiflu í álagningu sérstakra veiðigjalda annars vegar á botnfisk og hins vegar á uppsjávarveiðar. Og munar nú um minna en sem þarna er lagt til, þ.e. að sérstaka veiðigjaldið á botnfisk lækki í 7,38 kr. úr þeim 23,20 kr. sem það er á yfirstandandi ári, ef ég man rétt, en hækki hins vegar á uppsjávarveiðum um tæpar 11 kr., í 38,25 kr. Ég var auðvitað spenntur að sjá útreikningana þegar ég fékk frumvarpið fyrst í hendur, ég var spenntur að sjá töflurnar, ég var spenntur að sjá nálgunina við það að þetta væri eitthvert tiltekið hlutfall af umframrentunni eða fjármunamynduninni í greininni. Það hljóta að liggja að baki allviðamiklir útreikningar á því sem yrðu sýndir í frumvarpinu, að þetta væri þá hin rétta tala fyrir botnfiskinn og hitt fyrir uppsjávarfiskinn. Ég las síðan í gegnum greinargerðina og ég fann eina setningu. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Umtalsverð lækkun álagningar á botnfisksveiðar miðað við yfirstandandi fiskveiðiár speglar m.a. lækkun á verði þorsks á mörkuðum en hækkun á álagningu á uppsjávarveiðar ræðst af bættri afkomu uppsjávarveiðifyrirtækja.“

Hvað nákvæmlega átt er við með orðinu „speglar“ veit ég ekki. Er það einhver 100% speglun eða hvernig ber að skilja það? Ég veit það ekki. Þetta er ekki nákvæmt og ekki venjulegt hagfræðilegt orðalag, rekstrarlegt eða viðskiptalegt.

Ég beið þar af leiðandi mjög spenntur eftir nefndaráliti meiri hlutans og ég geri ráð fyrir að fleiri þingmenn hafi gert það sem höfðu ekki meira í höndunum en þessa einu fátæklegu setningu til rökstuðnings þessum tillögum, þessum niðurstöðum sem meiri hlutinn leggur til eða hæstv. ráðherra í frumvarpi sínu. Það hlyti þá að koma í nefndaráliti meiri hlutans mjög rækilegur rökstuðningur og útlistun á því að þarna hefðu menn höndlað sannleikann, það væri hið eina rétta. Skoðum það. Hvað kemur í nefndarálitinu sem er heldur ekki mikið að vöxtum? Þar fann ég setningu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið“ — nefndarálitið vísar í frumvarpið — „endurspeglar lækkun álagningar á botnfisksveiðar, miðað við álagningu yfirstandandi fiskveiðiárs, m.a. lækkun á verði þorsks á mörkuðum.“

Meðal annars. Þarna er að vísu sagt endurspeglar en ekki speglar. Hvort að það hefur beinlínis merkingarmun að tala um „speglar“ í öðru tilvikinu en „endurspeglar“ í hinu, það veit ég ekki. Hækkun á álagningu á uppsjávarveiðum endurspeglar hins vegar bætta afkomu uppsjávarfyrirtækja.

Síðar í álitinu kemst meiri hlutinn að þeirri niðurstöðu eins og þar segir, með leyfi forseta:

„Mat meiri hlutans er að leið ráðherrans muni auka jafnræði milli uppsjávarveiða og botnfisksveiða frá því sem er samkvæmt gildandi lögum.“

Og í framhaldinu:

„Í ljósi allra kringumstæðna sér meiri hlutinn ekki betur en að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu sé skynsamleg.“

Þar með endar þessi saga, þar með endar rökstuðningurinn. Engir útreikningar, engar töflur, ekkert sýnt á spilin hvað menn áætla til dæmis að hár hluti framlegðarinnar gangi í sérstök veiðigjöld í hvorri grein um sig. Nú getur verið að nefndin hafi einhvers staðar í bakskjölum eitthvað slíkt í höndunum. En af hverju eru þá ekki birtir og sýndir einhverjir útreikningar? Af hverju reyna menn ekki að rökstyðja og undirbyggja mál sitt? Eigum við að taka það gilt að byggt sé einungis á huglægu mati? Það er erfitt að ætla annað þegar engir útreikningar eru fram færðir. Ég gef ekki mikið fyrir þetta vegna þess að engin leið er að fá þá útkomu af því að skoða breytingarnar á afkomu þessara tveggja greina sjávarútvegsins, ef við tökum það svo, að svona gríðarlegur munur eigi að vera á sérstöku veiðigjöldunum. Það er vissulega rétt að þróunin teiknar í þá átt að verulega dragi í sundur. Því mótmælir enginn samanber það að verðið, sé talað í uppsjávarveiðum, hefur hækkað um fjórðung eða svo frá 2011 en lækkað í botnfisksveiðum, en munurinn er ekki svona mikill.

Menn verða að átta sig á því að hér er lagður til miklu, miklu meiri munur en maður hefði getað ímyndað sér að yrði ef við horfum bara á hlutföllin eins og þau voru í ár og eins og þau þá verða núna, þá nær sérstaka veiðigjaldið á botnfiskinum því ekki einu sinni að vera 1/5 af sérstaka veiðigjaldinu á uppsjávarveiðum. Getur það staðist? Það held ég ekki. Ég mótmæli þeim forsendum sem menn gefa sér að með þessu hafi menn fundið sanngjarnara jafnvægi milli álagningarinnar á uppsjávarveiðarnar og botnfisksveiðarnar. Það eru engin rök fyrir því, ekki er reynt að rökstyðja það. Það er bara talið að leið ráðherrans sé skynsamleg og menn meta það svo að þetta endurspegli meðal annars eitthvað og búið. Þetta er ekki hægt, finnst mér. Ég er hræddur um að á síðasta kjörtímabili hefðu verið gerðar ríkari kröfur um útreikninga en þetta. Þá hneyksluðust menn nú á minna en því að ekki væri meira lagt í að reyna að undirbyggja ákvarðanatöku af þessari stærðargráðu.

Það ber annað við þegar kemur að nefndaráliti minni hlutans sem er mjög rækilegt og vel unnið. Ítarlega er farið yfir það, birtir útreikningar og töflur og komist að niðurstöðum sem ég tel vera vel undirbyggðar, að botnfisksveiðarnar geti ágætlega við unað að vera með óbreytt veiðigjald, eða einhvers staðar mjög nálægt því að minnsta kosti, og ef afslættirnir eru rýmkaðir á móti eins og minni hlutinn leggur til þá held ég að menn séu mjög nálægt því jafnvægi sem mér sýnist vera miðað við áætlaða framlegð eða rentu, ef við tökum hana sem slíka, að hún sé upp 67–68 kr. á þorskígildi í botnfisksveiðum og vinnslu en 179 í uppsjávarveiðum og vinnslu. Þá erum við búin að taka framlegðina sem eftir stendur frá rekstrinum, fjármunamyndunina, draga frá ávöxtun rekstrarfjármuna upp á 8% og ávöxtun miðað við vátryggingaverðmæti skipa og veiðarfæra. Og þá stendur eftir þetta hugtak, þessi renta, sem er þá upp á um það bil 47 milljarða í sjávarútveginum í heild og í krónum á þorskígildi skiptist hún þá þannig að um 67 kr. eru á botnfisksveiðar og vinnslu og 178 kr. á uppsjávarveiðar og vinnslu. Þetta er ekki svona mikill munur. Þetta teiknar ekki til þess að botnfisksveiðarnar eiga að vera með 1/6 eða svo af sérstaka veiðigjaldinu á móti uppsjávarveiðunum.

Ein röksemdin sem færð hefur verið fram fyrir lækkuninni önnur en sú sem við öll vitum, að verðvísitala botnfisks hefur lækkað, að það hefði að sjálfsögðu leitt sjálfkrafa til lægra veiðigjalds en ella samkvæmt gildandi lögum, hefur verið sú að menn tala um að þeir hafi áhyggjur af afkomu minni og meðalstórra fyrirtækja.

En þetta er ekki skilvirk leið til að mæta því satt best að segja og það væri auðvitað mun nærtækara að fara þá leið sem minni hlutinn leggur til, að færa frítekjumarkið upp. Gerð er um það breytingartillaga sem þýðir samanber fylgigögn að býsna stór hluti minni og jafnvel það sem menn telja vera litlir eða meðalstórir aðilar eru þá annaðhvort alveg eða að mestu leyti undanþegnir veiðigjaldi. Auðvitað er það heilmikill stuðningur við slíka aðila ef sú leið væri farin að hafa hreint frítekjumark upp í 50 þúsund þorskígildi og hálft gjald á næstu 200 þúsund þorskígildi þar á eftir, sem jafngildir því að menn greiði þá, ef við notum þá aðferð, hálft gjald fyrir fyrstu 350 tonn. Það munar nú um það sem stuðning og vegur auðvitað talsvert langt upp í fyrirtæki með 500–800 tonna heimildir. Það kostar hins vegar mun minna vegna þess að samþjöppun veiðiheimildanna og stærð stóru fyrirtækjanna gerir það að verkum að það kostar ekki mikla fjármuni að styðja við bakið á minni aðilunum með þeim hætti, rúmar 300 millj. kr. í viðbót, að auka frítekjumarkið á þann hátt. Af hverju fara menn ekki þá leið? Ef það er rétt að aðaláhyggjur manna hafi verið afkoma og hagur smærri fyrirtækjanna, minni og meðalstóru fyrirtækjanna, þá leita menn auðvitað leiða til að koma stuðningi til þeirra sem eru skilvirk, en það á ekki að þurfa að þýða, ef afkoman að öðru leyti býður upp á það, að stórfyrirtækin sem eru með miklar veiðiheimildir í botnfiski fái tugmilljóna og jafnvel hundruð milljóna króna lækkun og afkoma þeirra býður fyllilega upp á að þau greiði það. Mér er mjög til efs að í þessu sé fólgin meiri sanngirni innbyrðis milli fyrirtækjanna, þó að ég viðurkenni fúslega og styð það að sjálfsögðu að hin afbrigðilega góða afkoma í uppsjávarveiðunum sé andlag þess að þau greiði myndarlegt sérstakt veiðigjald á þessum árum. Það er algerlega rétt. (Gripið fram í: Það var of lágt í upphafi.) Það var meðal annars vegna þess að í samningaþófi við þáverandi stjórnarandstöðu í þessu húsi var það ragað niður, var lækkað frá því sem ég lagði til, og verulega. Ég vissi vel að afkoman bauð upp á að það væri hærra og gerir enn reyndar þó að síðan hafi dregið í sundur í þessum efnum. Það ánægjulega er að uppsjávarveiðarnar búa enn þá við alveg afbrigðilega góða afkomu, mikla fjármunamyndun.

Hér er ekki um sterkan málatilbúnað að ræða, herra forseti, svo vægt sé til orða tekið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð undrandi, ég var eiginlega gáttaður á því hversu fátæklegar röksemdirnar eru sem hér eru fram færðar, að ekki skyldi hafa verið haft fyrir því að setja upp að minnsta kosti eins og eina töflu eða koma með einhverja útreikninga máli sínu til stuðnings þannig að maður sæi svolítið á spilin. Nei, það þarf stjórnarandstöðuna til til að skila til mikilla muna myndarlegra og betur útbúnu nefndaráliti með útreikningum og rökstuðningi fyrir sínum tillögum en slíkt fáum við ekki frá hæstv. ríkisstjórn, hvorki frá ráðherrunum í frumvarpinu né nefndinni í nefndarálitinu.

Ég varð mest hissa á því að málið skyldi koma óbreytt úr nefnd af hálfu meiri hlutans. Ég er satt best að segja gáttaður á því að meiri hlutinn skyldi ekki reyna eitthvað að betrumbæta málið af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að röksemdirnar halda ekki. Í öðru lagi vegna þess að orðin er hér þung umræða um það mikla tekjutap sem ríkið verður fyrir og ef menn hafa það á tilfinningunni að engar sérstakar ástæður séu fyrir því að missa þær tekjur, eða að minnsta kosti ekki svona miklar, þá finnst mér menn býsna brattir að setja undir sig hausinn og leggja til afgreiðslu á frumvarpinu óbreyttu.

Það er að mínu mati þannig að ekki þarf að gera nema tiltölulega mjög einfaldar breytingar hvað varðar tekjuskattslögin til að leysa það mál sem eftir stendur og er óleyst milli stofnana sem þurfa að leggja í púkkið varðandi framkvæmd gildandi laga. Það er vissulega þannig að þegar kemur að útreikningum og birtingu á svokölluðum rentugrunni þá er það viðurkennt að sundurgreina þarf og afla tiltekinna upplýsinga til að það sé hægt. Út af fyrir sig væri skynsamlegt að ýta því ákvæði til hliðar á þessu ári enda er það ekki nauðsynleg forsenda þess að útreikningar til grundvallarálagningu sérstaks veiðigjalds fari fram. Það er annar þáttur og þar liggja öll gögn fyrir. Það er bara spurningin um að fá að nota þau eins og áður sagði.

En það sem eftir stendur er að hér er hæstv. ríkisstjórn í einu fyrsta máli sínu, númer eitt eða tvö held ég, að gera það að forgangsverkefni að afsala ríkissjóði samtals um 10 milljörðum kr. á tveimur árum, þessu og hinu næsta, í formi minni tekna af sérstöku veiðigjaldi. Það er mjög athyglisvert. Annað frumvarp sem var svona svipað örlátt þó lægri fjárhæðir væru hefur nú þegar verið lögfest það ég best veit og það er afsláttur eða fráhvarf frá boðaðri hækkun á virðisaukaskatti ferðaþjónustunnar, hótelgistingar í 14%. Þar fjúka aðrir 2 milljarðar á þessu ári og hinu næsta. Þá erum við komin í 12 milljarða á þessum tveimur árum. Síðan má nefna þriðja frumvarpið af því að ég er að tala um ríkisfjármálin sem ég kíkti aðeins í áðan, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, að vísu allt annars eðlis því að þar er verið að auka útgjöld og ég hygg að menn séu ekki að mótmæla því. Deila má mjög um þá útfærslu sem farin er og verður örugglega gert þegar það mál kemur til umræðu. Þar virðist líka stefna í að útgjöld aukist um 850 milljónir á þessu ári og um 1,6 milljarða plús 3 milljarða á hinu hæsta, þó að það tengist ekki efni þess frumvarps beint en ef ekki verður framlengt ákvæði um að tekjutengd skerðing tekjutryggingar haldist í 45% sem rennur út um áramótin þá er í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins metið að þar bætist 3 milljarðar í útgjöldum við.

Ef við lítum þá aðeins á þetta, virðulegur forseti, hvað varðar árið í ár eru útgjöldin í almannatryggingunum upp á 850 milljónir sem eru umfram fjárheimildir ársins. Það eru minni tekjur af virðisaukaskatti vegna gistingar á þessu ári sem er upp á 535 milljónir og það eru minni tekjur af veiðigjöldum upp á 3,2 milljarða. Þetta er gat í fjárlög yfirstandandi árs sem ríkisstjórnin sjálf er að leggja til án þess að segja eitt einasta orð um mótvægisaðgerðir eða aðra hluti upp á 4.585 milljarða Þetta eru ekki neinir smáaurar. Var ekki verið að segja að ríkisstjórnin hefði sent út bréf þar sem hún boðar 1,5% aðhald á rekstur ríkisstofnana á næsta ári? Og ætlar að hafa upp úr því, hvað? Kannski um 6,5 milljarða giska ég á. Sennilega verður það eitthvað minna því að hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið í skyn að því aðhaldi verði ekki beitt á alla, eins og skattinn og tollinn og einhverja fleiri. Sem sagt, við erum að tala um útgjöld og tekjutap af næstum svipaðri stærðargráðu á þessu ári, stærra gat í fjárlögin sem þessu nemur og ríkisstjórnin ætlar svo að reyna að krafla í á næsta ári með því að útdeila flötum 1,5% niðurskurði. Það mun ekki ganga sársaukalaust fyrir sig, það verða þjáningar í því, eins og ég spái að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans fái að kynnast. Og ættu menn þá ekki að hugsa sig um áður en þeir búa sér til vandamál af þessu tagi fyrir fram? Þetta verður auðvitað enn stórfelldara á næsta ári því að þá mundu þessi þrjú frumvörp ein sem við höfum hér í höndunum teikna til þess að það yrði erfiðara sem næmi um 12,5 milljörðum kr. að koma saman hallalausum fjárlögum árið 2014, 12,5 milljörðum kr. Það verða 4,6 í almannatryggingaútgjöldum, 1,5 í virðisaukaskattinum og 6,4 í veiðigjöldunum.

Hafandi barist við það fjögur ár í röð og eiginlega fimm að koma saman fjárlögum og velta fyrir mér hverri krónu, reyna að ná niður útgjöldum um 10 milljónir hér eða 50 milljónir þar, reyna að afla tekna fyrir þetta eða hitt upp á nokkrar milljónir, 100 milljónir eða milljarða, þá held ég að menn ættu að átta sig á því að þetta eru ekki auðveldir hlutir þegar til stykkisins kemur. Ég verð því að segja alveg eins og er að mér finnst það stórkostlega undarlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli leggja svona af stað í þessi mál. Menn bera fyrir sig tímaleysi og þeir hafi ekki haft tíma til að leggja niður fyrir sig nýja ríkisfjármálaáætlun og séu að hamast við að reyna að koma saman fjárlagafrumvarpi sem virðist ganga svo illa að ríkisstjórnin er farin að biðja um að þingið komi seinna saman. En af hverju þá ekki að bíða bara með þetta og reyna þá að taka þetta samræmt í einni heildarmynd? Er þetta virkilega svona ofboðslegt forgangsmál að þarna skuli fyrst borið niður óháð því hvaða erfiðleika það bakar svo viðkomandi aðilum sjálfum strax á haustmánuðum? Þetta er auðvitað sjálfskaparvíti, þetta er ekkert annað en sjálfskaparvíti. Mér finnst það algerlega undarlegt að stjórnarmeirihlutinn, til dæmis stjórnarmeirihlutinn hér inni í þinginu skuli þá ekki hafa vit fyrir ríkisstjórninni. Ef þeir hefðu tekið sig til meirihlutamennirnir í atvinnuveganefnd og komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri óþarflega rausnarlegt hjá ráðherranum, sem er augljóst mál, og lagt til að sérstaka veiðigjaldið á botnfiskinn yrði alla vega um 15–18 kr., ekki 7,38 kr. hefði það þó verið til marks um einhverja meðvitund. Tekið upp tillögur minni hlutans, tekið því fegins hendi að fara í samstarf við minni hlutann um að færa upp afsláttinn, frítekjumarkið, þá hefði kannski verið hægt að finna út úr því niðurstöðu sem hefði orðið miklu minna umdeild og að mínu mati staðið efnislega sterkar rök til en því sem meiri hlutinn þumbast áfram með hjá ráðherranum af því að hann virðist hafa trú á því að leið ráðherrans sé svo skynsamleg í þessum efnum.

Það er mat meiri hlutans að leið ráðherrans muni auka jafnvægi í greininni. Mat, er til minnisblað um þetta mat meiri hlutans eða er það huglægt líka? Er þetta niðurstaðan af hugarstormum meirihlutamannanna einhvers staðar á sérfundi? Það hefði verið gaman að vera þar.

Nei, herra forseti. Þetta er mjög misráðið af hæstv. ríkisstjórn og ákaflega dapurlegt. Ég verð að segja alveg eins og er að ég fyrir mitt leyti hefði alveg verið tilbúinn til að eiga hér málefnalega rökræðu um það ef einhver vilji væri til að skoða þetta og mætast einhvers staðar í málinu eins og við sýndum á sínum tíma þegar við á endanum tókum heilmikið tillit til viðhorfa stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu málsins á sumarmánuðum 2012. En það er ekkert slíkt uppi enn þá þó að málið eigi að vísu eftir að ganga væntanlega til nefndar aftur milli 2. og 3. umr.