142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það eru ýmsir þættir sem komu mér spánskt fyrir sjónir. Um frumvarpið sjálft segir í athugasemdum, með leyfi forseta, örstutt:

„Og útséð er um að ekki er unnt að leggja á sérstakt veiðigjald samkvæmt lögunum fyrir komandi fiskveiðiár 2013–2014.“

Hvað er skýrara en þetta, hv. þingmaður? Það hefur komið fram í upplýsingum hagstofustjóra að fram komu athugasemdir af hálfu Hagstofunnar, um meinbugi á upplýsingaöflun út af frumvarpinu, í umsögnum um frumvarpið strax í maí í fyrra samkvæmt hans upplýsingum.

Það kemur líka fram í athugasemdum með frumvarpinu að þessar athugasemdir hafi komið fram um síðustu áramót og í mars. Hv. þingmaður segir að þetta sé vitleysa og ég vildi gjarnan fá að vita í hverju hún liggur.

En síðan er annað líka sem hefur valdið mér heilabrotum. Hv. þingmaður hélt ágæta ræðu við 1. umr. þessa máls þar sem hann sagði meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarflokkarnir hafa sagt að þeir hafi áhyggjur af afkomu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í bolfisksveiðunum. Ég deili þeim áhyggjum að hluta til. Ég hef sagt það opinberlega og sagði meðan ég var ráðherra að það er að sýna sig að þetta er hvað þyngst og erfiðast fyrir lítil og kannski meðalstór bolfisksveiðifyrirtæki, sérstaklega þau sem eru eingöngu í veiðum og njóta ekki framlegðar af vinnslu með í sínum rekstri.“

Það held ég að sé ljóst. Ég er sammála því mati, það er líklega huglægt, að það er sá hluti útgerðarinnar í dag sem á hvað erfiðast með þetta.

Frekari fyrirspurnum ætla ég að beina til hv. þingmanns í seinna andsvari.