142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var unnið með þær athugasemdir sem Hagstofan og skattstjóri komu með á sínum tíma vormánuðina og sumarmánuðina 2012, af nefndinni sem fjallaði um málið. Menn gengu þá eins vel frá því máli og þeir töldu sig geta á því stigi málsins. Það er því ekki eins og ekkert hafi verið brugðist við þeim athugasemdum þegar þær komu. Síðan er það þannig að veiðigjaldsnefndin vinnur að því að afla og byggja upp sinn gagnagrunn eins og henni ber samkvæmt lögum og það kom ekkert sérstaklega á óvart að í þeirri vinnu kæmi upp eitthvað sem þyrfti að leggja grunn að í formi sundurliðunar upplýsinga o.s.frv. Fyrstu ábendingarnar um hvað til þurfi koma fyrir og eftir áramótin síðustu. Ráðuneytið tekur þær að sjálfsögðu allar til skoðunar og fer í vinnu með veiðigjaldsnefnd og Fiskistofu og fer í viðtöl og viðræður við viðkomandi stofnanir, Hagstofuna og skattinn. Það starf stóð linnulaust fram í maí eins og menn sjá af bréfaskriftum, fram undir maílok. Skipuð var sérstök tækninefnd með fulltrúum frá þessum aðilum til að ganga í að leysa þetta og það var mat manna að það væri hægt.

Það er ekki fyrr en í maílok sem menn bréfa þetta með afgerandi hætti eins og Hagstofan gerir þegar hún svarar skattinum. Og ég stend við það sem ég sagði, upplýsingarnar eru til núna. Uppreiknað stofnverð rekstrarfjármuna liggur fyrir sundurliðað hjá skattinum en Hagstofan vill ekki taka við því. Það er þar sem vandinn liggur núna. Það er þetta sem á vantar, að hægt sé að reikna út sérstaka veiðigjaldið, og ekki annað.

Varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki þá er allt rétt sem í mig var vitnað í þeim efnum. Þess vegna komum við með frítekjumarkið á sínum tíma, við gerðum okkur alveg grein fyrir því að það gæti verið hæpið að ætla mjög litlum einingum í greininni að greiða strax fullt sérstakt veiðigjald og við sáum það, meðal annars á gögnum sem við vorum að rýna í varðandi afkomuna, að þetta var skynsamleg ráðstöfun. Kannski leiðir athugun í ljós að skynsamlegt sé að hækka þessi mörk (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem ég styð það algjörlega að breytingartillaga minni hlutans nái fram að ganga. Hún mætir þessum sjónarmiðum.