142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú hef ég ekki verið á þessum fundum eða rætt þetta við hagstofustjóra, en ég geri ekki ráð fyrir því að Hagstofan reyni að halda því fram að hún hafi ekkert af þessu vandamálum vitað fyrr en í maí, það kæmi mér afar spánskt fyrir sjónir. Ég hef auðvitað ekki tölu á þeim fundum … (ÞorS: Fyrsta bréfið …) Fyrsta bréfið, já. En lítur hv. þingmaður svo á að það sé ekkert að marka nema bréf? (Gripið fram í.) Skipta þá formlegir fundir undir forustu ráðuneytisstjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og sú staðreynd að Hagstofan skipaði mann, einn af yfirmönnum sínum í tækninefnd til að vinna að lausn á þessum málum, skiptir það ekki máli? Getur Hagstofan sagt að hún hafi ekki fengið bréf fyrr en í maí? (Gripið fram í: Kom fram í maí …) Ég gef nú lítið fyrir svona lagað. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert að halda því fram á nokkurn hátt.

Ráðuneytið vann að þessu af fullum krafti með veiðigjaldsnefnd og Fiskistofu. Það voru óteljandi fundir um þessi mál. Skipuð var sérstök tækninefnd og annar starfshópur á grundvelli þess (Gripið fram í: … margar vikur.) sem þingað var um, skýrslur afhentar o.s.frv., þannig að það er ekki eins og það skipti einhverju máli að Hagstofan (Gripið fram í.) svarar á endanum neitandi bréfi í maímánuði síðastliðnum. Það skiptir ekki máli.

Þegar ég ræddi við 1. umr. um mismunun á tvenns konar grundvallaraðferðafræði í þessu, annars vegar því að horfa til afkomu hvers fyrirtækis og nota framlegðartölur þar og hins vegar þess að horfa til einhvers konar meðalafkomu innan tiltekinna greina, var ég fyrst og fremst að ræða um þann vanda sem það skapaði og allir þekkja eða eiga að þekkja sem grúskað hafa í þessi fræði, þá koma til sögunnar alls konar aðferðir til þess að færa upp kostnað í bókhaldinu eins og hægt er og sýna sem minnsta framlegð og svo framvegis eða minnstan endanlegan hagnað, það er kallað að gullhúða handriðin. Það er einn meginágallinn á þeirri aðferð. En fleira mætti nefna.

Ég stend við það sem ég segi. Það er skrýtið ef orðið hafa hér þau algjöru hlutverkaskipti að hv. þingmaður (Forseti hringir.) telji að það eigi sérstaklega að refsa vel reknum fyrirtækjum en verðlauna hin sem eru ekki eins vel rekin.