142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar í 2. umr. frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, um breyting á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, fjallar um innheimtu veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl. Bæði í 2. umr. og eins í 1. umr. um málið má segja að hv. þingmenn hafi nálgast umræðuna frá ýmsu sjónarhorni og er fullt tilefni til þess. Þetta mál er þannig vaxið að hægt er að horfa á það frá ólíku sjónarhorni. Hér hafa sumir hv. þingmenn einkum fjallað um einstakar tæknilegar útfærslur í frumvarpinu að því er varðar veiðigjöldin, fjárhag útgerðarinnar, útreikning, umræður um auðlindarentuna, umframarðinn o.s.frv. Hér hafa ýmsir þingmenn fjallað um þetta út frá lýðræðissjónarmiðinu, ef svo má segja, afstöðu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu til málsins, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 var sérstaklega spurt um afstöðu manna til auðlinda í þjóðareign þar með talið fiskstofnanna. Einnig hafa ýmsir nálgast þetta mál út frá áhrifum frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs. Eins og ég segi þá er hægt að fara í þessa umræðu út frá ólíkum sjónarhornum og ég hyggst að einhverju leyti gera það í þessari ræðu minni, að koma inn á þessa þætti alla saman.

Ég ætla að byrja á því að ræða aðeins um lýðræðismálið, umræðuna um náttúruauðlindirnar og hverjir eigi þær. Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða um það í samfélaginu að tryggja þurfi þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Nú hafa ýmsir haldið því fram að með 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sé tryggt að sjávarauðlindin sé í eigu þjóðarinnar og í raun þurfi ekki að gera meira í þeim efnum. Hinir eru þó miklu fleiri, hygg ég, sem aðhyllast það viðhorf að mikilvægt sé að tryggja eignarhaldið á auðlindunum, bæði sjávarauðlindinni sem hér er undir en í raun á auðlindum þjóðarinnar í heild sinni, í stjórnarskrá. Þetta er atriði sem var mikið til umræðu í vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili. Í tillögum stjórnlagaráðs til Alþingis er mjög afdráttarlaust tekið af skarið um það að í stjórnarskrána eigi að setja ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Í tillögum stjórnlagaráðs, sem voru sendar inn á hvert heimili í landinu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október sl., er fjallað um náttúruauðlindir í 34. gr. þess frumvarps. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Þetta ákvæði kom að sjálfsögðu til umfjöllunar í þinginu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðasta kjörtímabili og í umræðum í þingsal þegar verið var að ræða stjórnskipunarfrumvarpið. Á grundvelli umsagna frá fjölmörgum aðilum, sem veittu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsagnir um málið, gerði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tilteknar breytingar á orðalagi í þessari grein sem varðar náttúruauðlindirnar. En grundvellinum, kjarnanum í þeirri umfjöllun sem þarna er að finna, var eftir sem áður haldið til haga, það er að segja að leyfi til nýtingar auðlindar í þjóðareigu skyldi ávallt veita á jafnræðisgrundvelli og að þau mættu aldrei leiða til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Þetta er mikið meginatriði í þeirri hugsun sem hefur einkennt umræðuna og mjög margir hafa verið stuðningsmenn, meðal annars í mínum flokki, Vinstri hreyfingunni — grænu framboði, á bak við þá hugsun að binda í stjórnarskrá eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum. Ég tel mikilvægt að þessu sé haldið til haga í umræðunni sem hér á sér stað um þetta mál. Einhverjir kynnu að halda því fram að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar breyti engu sérstöku í þessu efni, hafi engin grundvallaráhrif á þá hugsun sem þarna er á bak við. Ég tel að færa megi rök fyrir því að það eigi ekki við rök að styðjast, þetta tengist beint og það leiðir af þeirri hugsun sem er í þessu frumvarpi, um útreikningsaðferðirnar og upphæð veiðigjaldsins.

Ég held að sú hugsun sem verið hefur í umræðunni um náttúruauðlindirnar sé mjög mikilvæg. Það er mikilvægt að vinna áfram af því að ekki tókst að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið fyrir vorið, einkum og sér í lagi, eins og menn muna, fyrir afstöðu þáverandi stjórnarandstöðuflokka, þeirra tveggja sem nú mynda ríkisstjórn í landinu. Þeir lögðust gegn því að þjóðareign á auðlindum yrði bundin í stjórnarskrá með nægilega tryggilegum hætti, að mínu mati. Það voru að vísu hér uppi hugmyndir, einkum og sér í lagi frá Framsóknarflokknum, kannski ekki mikið handfast sem kom úr herbúðum sjálfstæðismanna, um hvernig ætti að orða ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég tel að þær hugmyndir hafi gengið allt of skammt og í raun gefið færi á því að nýting auðlindanna gæti leitt til eignarréttar. Um þetta var deilt hér á þinginu, tekist var harkalega á um þetta en það er mín afstaða að þar hafi allt of skammt verið gengið í þá átt að tryggja þjóðinni óafturkallanlegt forræði yfir auðlindunum.

Herra forseti. Þessu finnst mér mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu til að þetta mál, sem mörgum finnst kannski ekki stórt í sniðum, verði ekki tekið úr samhengi við hina stóru umræðu, kjarnann í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu og mun halda áfram á næstunni, um eignarhald þjóðarinnar og fullan yfirráðarétt yfir sínum eigin auðlindum.

Herra forseti. Ég ætla einnig að fjalla aðeins um þann þátt þessa máls sem snýr að tekjum ríkissjóðs, áhrifunum á tekjur ríkissjóðs. Það er eftirtektarvert að eitt af þeim forgangsmálum sem núverandi hæstv. ríkisstjórn leggur fram hér, á sumarþingi í kjölfar alþingiskosninga og í kjölfar þess að ríkisstjórnin var mynduð, skuli vera þetta frumvarp og ýmis önnur sem skerða tekjur ríkisins, bæði á yfirstandandi ári og næsta ári og, ef þessu er haldið til streitu, að sjálfsögðu áfram inn í framtíðina. Á sama tíma kvartar hæstv. ríkisstjórn yfir því að miklir erfiðleikar séu í rekstri ríkisins, hún kvartar yfir því að hún hafi tekið við erfiðu búi jafnvel þótt að engum dyljist sá árangur sem náðst hefur í stjórn ríkisfjármála á umliðnum fjórum árum, frá hruninu 2008, þar sem rekstri ríkissjóðs var snúið úr halla, sem var yfir 200 milljarðar, ef ég man rétt, og niður í það að verða nálægt jafnvægi.

Engum dylst þessi miklu árangur en engu að síður kvartar hæstv. núverandi ríkisstjórn yfir að hafa tekið við erfiðu búi. Hún óskar meira að segja eftir því hér í þinginu að lögum um samkomudag Alþingis verði breytt, honum frestað í því augnamiði að hún hafi lengri tíma til að undirbúa fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp sem fylgja fjárlagafrumvarpi fyrir haustið. Þó hefur það nú legið fyrir í alllangan tíma að fjárlagafrumvarp er fyrsta mál hvers þings og er lagt fram við þingsetningu. Það hefur verið í þingskapalögum núna frá því, hygg ég, 2012 að frá og með árinu 2013 skyldu tekjuöflunarfrumvörp fylgja fjárlagafrumvarpi þegar það er lagt fram. Gildistöku á því ákvæði var reyndar frestað eða það var haft síðar en gildistaka þingskapalaganna að öðru leyti til þess einmitt að gefa fjármálaráðuneytinu og þá ríkisstjórninni svigrúm til að vinna þá vinnu.

Virðulegi forseti. Í þessu samhengi kemur ríkisstjórnin hér inn á fyrstu dögum þingsins með nokkur frumvörp sem skerða tekjur ríkissjóðs umtalsvert. Við höfum þegar fjallað um frumvarpið um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, þar sem hætt var við fyrri áform um að virðisaukaskattur á gistináttaþjónustu færi úr 7% í 14%, eins og hann var reyndar áður. Þar voru sennilega einar 500 milljónir á þessu ári og 1,5 milljarðar á næsta ári. Síðan fáum við þetta frumvarp hér, um veiðigjaldið og sérstaka veiðigjaldið, þar sem verið er að afsala ríkinu tekjum upp á um 10 milljarða kr. á þessu ári og næsta. Þetta eru auðvitað ekki litlar fjárhæðir sem hér eru undir og þær skipta verulega miklu máli í rekstri ríkissjóðs ef horft er til þess að við höfum í kjölfar hrunsins þurft að gæta mikils aðhalds í rekstri ríkisins, draga saman útgjöld og auka tekjur.

Auðvitað hefur margt af því verið þannig að það hefur ekkert verið óskastaða þeirra sem borið hafa ábyrgð á stjórn ríkisins hér undanfarin ár en óhjákvæmilegt. Stundum þarf að taka óhjákvæmilegar og sársaukafullar ákvarðanir. Staða ríkisins eftir hrun var einfaldlega sú að ekki var um annað að tefla en að fara í slíkar ráðstafanir, draga úr útgjöldum, auka tekjur, vegna þess að þriðji kosturinn sem ríkisvaldið stendur frammi fyrir, þriðji kosturinn sem ríkisvaldið á jafnan möguleika á, við aðstæður eins og þessar, er erlend lántaka. Sá kostur var ekki í boði við kjölfar hrunsins. Ísland var í þeirri stöðu að geta ekki aflað sér lánsfjár á erlendum mörkuðum þannig að sú leið var einfaldlega ekki fær. Þá varð að grípa til annarra ráðstafana ella hefði íslenska ríkið farið í þrot. Þetta er nú sá kaldi veruleiki sem við stóðum frammi fyrir og var unnið að hörðum höndum, vil ég segja, og með býsna góðum árangri hér á landi, ef við berum okkur saman við það sem aðrar þjóðir þurftu að glíma við eftir hrunið, sem var að sjálfsögðu ekki bara á Íslandi heldur miklu víðar, en auðvitað alveg fordæmalaust hér á landi. Árangurinn hjá okkur í þessu efni hefur orðið aðdáunarefni í augum margra sem horfa utan frá, og oft er gestsaugað glöggt, á þróun mála hér á landi.

Ég tel að ríkisstjórnin verði í fyrsta lagi að færa fram mjög sterk rök fyrir þeim ráðstöfunum sem hún grípur til þegar hún ákveður að lækka tekjur ríkissjóðs svona umtalsvert eins og hér er á ferðinni. Hún þarf að sýna fram á, með greinargerð, rökstuðningi, útreikningum, áhrifin til að undirbyggja tillögur sínar í málinu. Eins og komið hefur fram í þessari umræðu þá skortir mjög á í þessu efni að það sé gert annars vegar í frumvarpinu sjálfu sem hér liggur fyrir og eins af hálfu meiri hlutans í atvinnuveganefnd sem hefur sent frá sér sitt nefndarálit, er hér á þingskjali 52. Ríkisstjórnin er með þessu frumvarpi að afsala sér tekjum upp á um 10 milljarða kr. á þessu ári og næsta. Fjármunum sem hljóta þá, við þær aðstæður sem við búum við, að verða teknir af samfélagslegum verkefnum sem við erum öll að glíma við og sem við leggjum mikla áherslu á. Hvort sem það er skólakerfið okkar, menntakerfið, heilbrigðiskerfið eða velferðarþjónustan almennt séð, löggæslan, innviðir í samfélaginu eins og samgöngur, uppbygging nýrra atvinnuvega eða stuðningur við nýsköpun og þróun, rannsóknir og vísindi o.s.frv.

En það er ekki gert hér. Það er ekki gert í þessu frumvarpi og það er ekki gert í málflutningi stjórnarliða og ekki liggja fyrir neinar tillögur, samhliða þessu frumvarpi og öðrum ámóta, um það hvernig eigi að mæta þeim áhrifum sem samþykkt þessa frumvarps hefur á afkomu ríkisins. Það er auðvitað mjög ámælisvert, vil ég leyfa mér að segja, að það sé ekki gert. Menn hafa sagt í umræðunni hér að undanförnu að það sé geysilega þýðingarmikið, og ég deili því sjónarmiði, að samhliða fjárlagafrumvarpi liggi fyrir frumvörp um tekjuöflun ríkissjóðs þannig að menn sjái heildarmyndina fyrir sér strax í upphafi þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram; menn sjái útgjaldahliðina, menn sjái tekjuhliðina og hvernig afla eigi ríkissjóði tekna fyrir þeim útgjöldum sem fylgja samneyslunni.

En í þessu frumvarpi og í þessu máli liggur ekkert slíkt fyrir. Það liggur ekkert fyrir hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að mæta því tekjutapi sem hér er á ferðinni og ég ítreka að ég tel það ámælisvert og það hljóti að verða kallað eftir því. Nú þykist ég viss um að þetta mál muni ganga til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umr. og þá finnst mér eðlilegt að farið verði í það og leitað eftir því að fá frekari skýringar á því hvernig eigi að mæta áhrifum þessa frumvarps.

Herra forseti. Það er sérkennilegt að ný ríkisstjórn, sem var mynduð hér í kjölfar kosninga, af núverandi stjórnarflokkum sem gáfu mikil fyrirheit í kosningabaráttunni — einkum og sér í lagi að vísu flokkur hæstv. sjávarútvegsráðherra, hann gaf mikil fyrirheit í kosningabaráttunni um hvað hann hygðist gera, kæmist hann til valda og áhrifa, í þágu heimilanna í landinu. En málin sem tengjast því loforði, hvar eru þau? Það var þingsályktunartillaga, sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram, þar sem lagt var til að Alþingi fæli ríkisstjórninni að fara í tiltekna vinnu við að undirbúa eða móta hugmyndir um það hvernig koma mætti til móts við skuldsett heimili í kjölfar efnahagshrunsins. Þessi þingsályktunartillaga hefur nú verið samþykkt hér á Alþingi. Hún er í 10 liðum og hún felur í sér að skipa eigi nefndir um ákveðna og afmarkaða þætti þess máls og gert er ráð fyrir því að því nefndastarfi geti lokið fyrri part vetrar eða fyrir áramót. Þá á eftir, á grundvelli slíkrar vinnu, að semja frumvörp sem eiga síðan að koma inn í þingið, kannski á vorþingi 2014, til umfjöllunar.

Þessum miklu loforðum er varpað inn í framtíðina með mjög óljósum hætti, kannski vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa áttað sig á því að þessi loforð voru óábyrg. Það var ekki hægt og er ekki hægt að framkvæma þau öll eins og þau voru sett fram og menn sjá að sér nokkrum dögum eftir kosningar. En það er nú ekki alveg hreinskiptin framkoma, finnst mér, af hálfu stjórnmálahreyfinga gagnvart kjósendum í landinu.

Herra forseti. Það kann að vera önnur saga en á sama tíma og þessum stóru kosningamálum er ýtt inn í framtíðina koma hér inn mál sem hægt er að ganga í að mati hæstv. ríkisstjórnar einn, tveir og þrír og það er að lækka ýmsar álögur á þá sem eru í færum til að leggja sitt af mörkum í samræmi við gildandi lög í þágu samfélagsins alls. Það eru ákveðnir sérhópar sem ríkisstjórnin tekur upp á sína arma, mætir þeim í þeim frumvörpum sem við höfum séð og þá ekki síst í frumvarpinu sem hér er til umræðu.

Það er mjög mikið umhugsunarefni að þetta skuli vera það sem hæstv. ríkisstjórn leggur mest kapp á á þessu sumarþingi. Veiðigjöldin sem hér eru til umræðu eru auðlindagjöld og tilgangur þeirra er að sjálfsögðu að tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af þeirri auðlind sem er og á að vera í eigu þjóðarinnar sem er sjávarauðlindin. Eins og ég gat um áðan þá hefur það viðhorf komið mjög skýrt fram meðal þjóðarinnar að það er ríkur vilji til þess að í stjórnarskrá sé sterkt ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindunum.

Þetta hefur bæði komið fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 og hefur komið fram í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í þessu efni líka. Það er þetta sem lögin um veiðigjöld fela í sér að því er varðar sjávarauðlindina og það er mjög mikilvægt að arðurinn af nýtingu þessarar auðlindar verði ekki einhvers konar einkaeign fárra heldur sé hann réttmæt eign þjóðarinnar allrar. Þess vegna finnst mér þýðingarmikið að í þessari umræðu séu ekki slitin tengslin milli auðlindarentunnar og veiðigjaldsins því að þetta er samtengt.

Það hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu af talsmönnum stjórnarmeirihlutans að gallar á gildandi lögum um veiðigjöld hafi gert að verkum að ekki hefði verið hægt að innheimta veiðigjöldin samkvæmt gildandi lögum frá og með fiskveiðiárinu 1. september næstkomandi með þeim hætti sem lögin gera ráð fyrir. Um þetta hefur verið fjallað allmikið í þessari umræðu og þessu hefur verið svarað af hálfu fulltrúa okkar í stjórnarandstöðunni. Það sem mér finnst merkilegt í því samhengi er þetta: Ef það er þannig að ekki er hægt að innheimta veiðigjöldin í samræmi við gildandi lög vegna þess að Hagstofuna skortir lagaheimildir, hvernig má það þá vera að lausnin á því vandamáli sé að lækka veiðigjöldin um 10 milljarða?

Herra forseti. Ég fæ ekki séð hvernig þetta hangir saman. Hagstofan fær ekkert meiri heimildir til þess að vinna úr þessum upplýsingum eða afhenda þær veiðigjaldsnefnd með því að veiðigjaldið á útgerðirnar í landinu sé lækkað um 10 milljarða. Hún gengur ekki upp, þessi röksemdafærsla. Lausnin á því vandamáli sem ýmsir fulltrúar stjórnarflokkanna hafa verið að ræða um í þessari umræðu hlýtur að vera fólgin í því að skapa nægilega tryggan lagagrundvöll til þess að veiðigjaldsnefndin geti fengið upplýsingar, að Hagstofan geti unnið með upplýsingar og afhent þannig að hægt sé að reikna út veiðigjaldið.

Jafnvel þó að menn færu í einfaldari útgáfu af veiðigjaldinu sem hefði kannski kallað á eitthvað minni gagnaöflun af hálfu veiðigjaldsnefndar eða Hagstofunnar eða ríkisskattstjóra o.s.frv. sem hefði líka verið hægt að ræða um þýðir það ekki heldur að niðurstaðan eigi að vera 10 milljarða kr. afsláttur af veiðigjaldinu. Það er bara engin lógík, það eru engin rök í þessum málflutningi. Menn gætu auðvitað komið hér og sagt: Setjumst yfir það að laga þarf umgjörðina um útreikninginn á veiðigjaldinu, að styrkja þarf lagaheimildir Hagstofu o.s.frv., en höfum það sem útgangspunkt að heildarveiðigjaldið, sem rennur í ríkissjóð, sé óbreytt. Þannig hefði að sjálfsögðu átt að nálgast þetta mál, að mínu viti. Göngum út frá því að útgerðin sé að skila því sem lög nr. 74/2012, um veiðigjöld, gera ráð fyrir að útgerðirnar skili en gerum nauðsynlegar lagfæringar á lögunum til þess að með tryggilegum hætti sé hægt að framkvæma þau telji menn að eitthvað skorti upp á í því efni.

Þegar glöggt er skoðað fæ ég ekki séð að sú útfærsla sem finna má í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og sem meiri hluti atvinnuveganefndar tekur algjörlega undir, taki á þessu vandamáli nema síður sé. Hins vegar hefur minni hluti atvinnuveganefndar, fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Bjartrar framtíðar, lagt fram breytingartillögur. Í fyrsta lagi hefur minni hlutinn lagt fram ítarlegt nefndarálit þar sem er að finna útreikninga sem skortir algjörlega í nefndarálit meiri hlutans — eins og fram kom í ræðu á undan minni kunna þeir að vera til í fórum einstakra nefndarmanna, það er óljóst, en þá er alla vega ekki að finna í gögnum málsins sem liggja fyrir þinginu. En í áliti minni hluta nefndarinnar er að finna ítarlega umfjöllun um málið þar sem fjallað er almennt um auðlindamálið, þar sem fjallað er um auðlindarentuna og það réttlæti sem er fólgið í henni og fjallað um tillögur sem minni hlutinn leggur til um breytingar á lögunum til að koma til móts við helstu gagnrýni sem uppi hefur verið í málinu.

Á þskj. 60 í 1. tölulið segir:

„Ríkisskattstjóri skal afhenda Hagstofu Íslands skv. 2. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun veiðigjalda samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. upplýsingar um verðmæti rekstrarfjármuna, sbr. 5. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. Hagstofu Íslands ber að taka við gögnunum og vinna úr þeim í samræmi við ákvæði laga þessara. Um veiðigjaldsnefnd og starfsmenn hennar gilda jafnframt sömu ákvæði um þagnarskyldu og kveðið er á um í 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt.“

Hér er sem sagt gerð tilraun til að setja undir þennan leka sem segja má að hafi verið eitt af gagnrýnisatriðunum sem fram hafa komið í umræðunni, þ.e. að slíkar lagaheimildir skorti. Ég tek eftir því að í umsögn Hagstofunnar um málið skrifar hagstofustjóri meðal annars að þessar lagaheimildir skorti. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að afla þeirra með breytingum á lögum því að það getur verið verkefni okkar hér á Alþingi að breyta lögum eins og kunnugt er. Hér er því reynt að setja undir þann leka.

Það hefur líka verið sagt í þessari umræðu að þær breytingar sem frumvarpið geri ráð fyrir séu til að koma til móts við minni og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi af því að þeim sé íþyngt of mikið með gildandi lögum. Í tillögu minni hlutans er brugðist við þessu og í nefndaráliti hans segir, með leyfi forseta:

„Í því skyni að minnka álögur á minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki leggur minni hlutinn til breytingar sem fela í sér að sérstakt veiðigjald verði ekki greitt af fyrstu 50.000 þorskígildiskílóunum í stað fyrstu 30.000 eins og kveðið er á um í a-lið 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá verði aðeins greitt hálft gjald af næstu 200.000 þorskígildiskílóum, í stað 70.000 eins og kveðið er á um í b-lið 2. mgr. 9. gr. laganna, þannig að fullt gjald verði ekki lagt á fyrr en afli fer umfram 250.000 þorskígildiskíló. Með þessum hætti telur minni hlutinn komið til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki á mun hnitmiðaðri hátt en lagt er til í frumvarpinu.“

Hér eru sem sagt rakin áhrifin af þessu á afkomu ríkissjóðs og í áliti minni hlutans segir um það, með leyfi forseta:

„Af tillögum minni hlutans um breytingar á frímarki og afsláttarþrepi leiðir að tekjur ríkissjóðs verða um 310 millj. kr. lægri en annars hefði orðið að óbreyttu.“

Það er langur vegur á milli áhrifanna á tekjur ríkissjóðs af þeim breytingartillögum sem minni hluti gerir hér annars vegar og því sem er að finna í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra og meiri hluta atvinnuveganefndar tekur undir — 310 milljónir á móti 3,2 milljörðum á þessu ári og 6,4 milljörðum á því næsta. Ég tel því að minni hlutinn hafi einmitt brugðist við þessu, með tillögum sínum, á mjög ábyrgan hátt. Meiri hlutinn ætti að íhuga mjög vandlega hvort ekki sé með viðhlítandi hætti komið til móts við gagnrýni á gildandi lög með þeim tillögum sem minni hluti atvinnuveganefndar leggur til.

Herra forseti. Að öðrum kosti verður maður að draga þá ályktun að það sé frummarkmið þessa frumvarps að lækka álögur á útgerðina, lækka veiðigjaldið, sem útgerðin á að greiða í sameiginlegan sjóð landsmanna, um 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 á því næsta. Það hlýtur þá að vera meginmarkmiðið en ekki það að ekki sé hægt að framkvæma lögin vegna þess að einhverjar heimildir vanti til handa Hagstofunni. Ef það væri málið væru tillögur meiri hlutans hér og frumvarp ráðherrans öðruvísi útbúið.

Í framhaldi af þessu vil ég segja að þegar verið er að tala um að þessi lækkun á sérstaka veiðigjaldinu sé gerð til að bæta stöðu meðalstórra og lítilla sjávarútvegsfyrirtækja hafa í fyrsta lagi engin gögn verið reidd fram sem styðja þá fullyrðingu. Þegar þessi mál eru skoðuð kemur fram að þær tillögur sem liggja fyrir, um lækkun sérstaka veiðigjaldsins á botnfisk, munu lækka veiðigjöldin af þessum afla um rúmlega 4,5 milljarða kr. Og hvernig skiptist sú lækkun, upp á 4,5 milljarða kr.? Hún skiptist þannig að þau sjö fyrirtæki sem hafa mestan kvóta fá lækkun sem nemur um 2 milljörðum og næstu 12 fyrirtæki að stærð munu fá um 1,2 milljarða kr. Sem sagt 19 stærstu fyrirtækin fá 3,2 milljarða kr. í lækkun eða yfir 70% af heildarlækkuninni sem um er að ræða.

Herra forseti. Hvernig má það þá vera að í þessu felist sérstök aðgerð til að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þegar langstærsti hlutinn, yfir 70% af því sem ég er hér að tala um, fer til 19 stærstu fyrirtækjanna miðað við kvóta? Síðan er því einnig haldið fram að þessar aðgerðir séu sérstaklega komnar til í þágu landsbyggðarinnar. En er það svo? Það eru auðvitað eigendur fyrirtækjanna sem greiða veiðigjöldin og fá þar af leiðandi þennan afslátt og þessa lækkun. Og stóru fyrirtækin sem fá mestu lækkunina eru, kemur í ljós, einkum í eigu fárra aðila á suðvesturhorninu og á fáum öðrum stöðum. Það er því ekki aðgerð sem er sérstaklega í þágu landsbyggðarinnar. Eða er það, herra forseti? Að minnsta kosti finnst mér þá vanta ítarlegri rökstuðning til að styðja þær fullyrðingar. Þegar menn skoða málið kemur nefnilega allt annað í ljós. Og hverjir eru svo þessir stóru eigendur? Í hópi þeirra eru bankar, það eru lífeyrissjóðir, það eru tryggingafélög, það eru eignarhaldsfélög með eignarhald sem er óþekkt, að einhverju leyti að minnsta kosti, og það er þessum aðilum sem á að færa arðinn af fiskveiðiauðlindinni með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. Menn hljóta að spyrja sig: Bíddu, eru það þessir aðilar sem eiga auðlindina? Eru það þeir sem eiga þennan arð?

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst ekki vel til þessa máls vandað. Ég fæ ekki betur séð, af því sem ég hef hér verið að rekja og margir aðrir í þessari umræðu, en að megintilgangur frumvarpsins sé að flytja til fjármuni í samfélaginu, að flytja fjármuni til þeirra sem meira mega sín í samfélaginu frá hinum. Það er líka kjarninn í þeim tillögum sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú lagt fram, um breytingar á almannatryggingakerfinu, þ.e. þær nýtast best þeim sem hæstar hafa tekjur og síst þeim sem hafa minna á milli handanna. Það er rauði þráðurinn í stefnu núverandi hægri stjórnar í landinu að færa til fjármuni í samfélaginu og það er hún svo sannarlega að gera með því frumvarpi sem hér liggur fyrir um breytingar á veiðigjöldum.