142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski segja að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og að það sé hægt að halda því fram að einstök atriði í sjálfu frumvarpinu séu ekki alslæm. Hv. þingmaður nefnir nokkur atriði þarna. Hann nefnir meðal annars þær athugasemdir sem komið hafa fram varðandi heimildir viðkomandi stofnana eins og Hagstofunnar, veiðigjaldsnefndar, til þess að vinna með upplýsingar eða afhenda og láta þær fara á milli. Komið hefur fram að þessi ágalli gerði það að verkum að erfitt væri að innheimta veiðigjaldið með þeim hætti sem gildandi lög gera ráð fyrir.

Já, það er rétt að þær athugasemdir komið hafa fram, en eins og ég gat um í ræðu minni er ekki lausnin á því vandamáli að Hagstofan geti ekki unnið með einhver gögn eða afhent gögn, að lækka veiðigjaldið um 10 milljarða. Hagstofan er ekkert betur sett með það. Hún þarf þá að fá undirbyggðar og styrkar lagaheimildir. Ég tel að sú útgáfa sem er að finna í breytingartillögu minni hlutans sé traust til þess að setja undir þennan leka, hafi menn talið að hann væri til staðar.

Varðandi síðan hækkunina á veiðigjaldi á uppsjávarfiski kann það vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að það sé eitt af því góða í frumvarpinu. En munurinn sem hér er búinn til á veiðigjaldinu í uppsjávarfiski annars vegar og botnfiskinum hins vegar er auðvitað orðinn miklu meiri samkvæmt þessu frumvarpi en sem rök eru fyrir, ef við horfum til dæmis á þróun verðvísitölunnar í uppsjávarfiski annars vegar og botnfiskinum hins vegar. Það réttlætir að mínu viti ekki þann gríðarlega mikla mun sem þarna er orðinn.