142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mestu í því sem hann ræðir hér. Ég tel sem sagt að varðandi litlu og meðalstóru fyrirtækin séu tillögur minni hlutans í raun miklu hnitmiðaðri til þess að koma til móts við þau sjónarmið eða þá gagnrýni sem komið hefur fram hvað þau varðar en lagt er til í frumvarpinu. Það er ágætlega reifað í áliti minni hlutans og þar er að finna töflur og útreikninga sem undirbyggja þessa niðurstöðu. Það er nú meira en hægt er að segja um álit meiri hluta atvinnuveganefndar sem ekki leggur fram nein slík gögn máli sínu til stuðnings fyrir þingið, eins og ég gat um í ræðunni. Það kann að vera að einhverjir nefndarmenn úr meiri hlutanum hafi einhver gögn í fórum sínum en þau eru ekki sjáanleg eða sýnileg í gögnum málsins við umræðuna á Alþingi.

Ég er því sammála hv. þingmanni um þetta. Að því er upphæðina varðar sem komið gæti út ef því yrði með einhverju móti blandað saman sem hv. þingmaður vísar til, þá skal ég ekki alveg fullyrða um hvort sú tala sem hann nefnir, sem eru kannski 17 milljarðar, sé nákvæm. Það kann vel að vera að hún fari nærri lagi. Um það skal ég ekki alveg fullyrða vegna þess að ég hef ekki tekið þátt í vinnunni í nefndinni, ég á ekki sæti í atvinnuveganefnd þannig að ég hef ekki tekið þátt í þeirri vinnu eða hef legið yfir einstökum útreikningum í því efni. En ég held að það sé samt nokkuð nærri lagi miðað við það sem hv. þingmaður ræddi hvað þetta snertir.