142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það mál sem við fjöllum um hér í dag er og hefur verið umdeilt í samfélaginu í langan tíma og kannski ekki nema eðlilegt. Ég er sjómannsdóttir og ber mikla virðingu fyrir sjómönnum og ekki síst mökum þeirra og fjölskyldum sem búa alla jafna við mikla fjarveru sinna nánustu.

Sjávarútvegurinn er einn af undirstöðuatvinnuvegum landsins og hefur bein og óbein áhrif á flesta landsmenn. Stór hluti byggða landsins hefur mótast með einum eða öðrum hætti í gegnum sjávarútveginn og þá ekki síst hinn síðari tíma í gegnum kaup á kvóta. Fjársterkir aðilar hafa keypt upp kvóta sem hefur svo hægt og bítandi safnast á fárra hendur. Eftir hafa setið íbúar byggða sem áður höfðu lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi og eru í átthagafjötrum. Sem betur fer hafa margar þessara byggða spyrnt við fótum og hafist handa við ný verkefni til að tryggja áfram búsetu í heimabyggð sinni. Það breytir því þó ekki að almenningi í landinu þykir rétt og sanngjarnt að þeir aðilar sem nýta auðlindina greiði fyrir hana sanngjarnan arð. Það er einnig mín skoðun og ég tel að eitt stærsta framfaramál síðasta kjörtímabils hafi verið álagning hins nýja veiðileyfagjalds. Með því varð loksins tryggt að útvegsmenn greiddu sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Sú lækkun sem er boðuð hér á veiðigjaldi hefur kallað á mikil viðbrögð sem birtast meðal annars í undirskriftasöfnun tugþúsunda Íslendinga og miklum skrifum á samfélagsmiðlum.

Þessar boðuðu breytingar draga okkur aftur til fortíðar og minna á þá tíma sem ég rakti áðan þegar eigendum fárra stórútgerða var færður arður af fiskveiðiauðlindinni á silfurfati og margar byggðirnar blæddu fyrir.

Í umræðunni hefur aðeins verið rætt um sérhagsmuni og í mínum huga er afar mikilvægt að við fórnum ekki þeim sérhagsmunum á kostnað almennings með lækkun veiðigjalda. Þær ástæður sem gefnar hafa verið sem rökstuðningur fyrir lækkun eru ekki nægilegar að mínu mati því að lækkunin er stórfelld eins og hér hefur komið fram, allt að 10 milljarðar.

Almenningur í landinu kaupir heldur ekki að veiðigjöld séu ósanngjörn skattheimta, að þau séu of há og verði til þess að útgerðir fari á hausinn, að þau íþyngi um of litlum og meðalstórum fyrirtækjum, leggist fyrst og fremst á landsbyggðina, skerði laun sjómanna, mismuni útgerðum eftir því hvaða veiði er stunduð, standi í vegi fyrir nýfjárfestingu og endurnýjun og að þau séu óframkvæmanleg af tæknilegum ástæðum. Tæknilegar ástæður má lagfæra og það er hlutverk okkar á Alþingi, en að afleggja þau að stórum hluta eins og hér á að gera er gerræðisleg ákvörðun.

Í nefndaráliti minni hlutans segir, með leyfi forseta, að mikilvægt sé „að gera greinarmun á hefðbundnum arði sem stafar af fjárfestingu, þekkingu, reynslu og útsjónarsemi í rekstri og auðlindarentu. Slíkur arður rennur beint til eigenda og/eða fjárfesta en skilar samfélaginu óbeinum arði með sköpun atvinnu, tekjum, eftirspurn, afleiddum störfum, sköttum og gjöldum. Þetta á við um allan atvinnurekstur. Auðlindarenta eða umframarður stafar af verðmætum auðlindar og kemur fram í rekstri vegna sérleyfa til nýtingar þeirra.“

Eins og komið hefur fram hefur Hagstofa Íslands árum saman unnið úr skattframtölum og öðrum gögnum og birt yfirlit yfir afkomu veiða og vinnslu. Fiskistofa tekur líka saman og birtir ítarlegar upplýsingar um aflabrögð og það er ekki margt annað sem þarf til að ákveða veiðigjöldin. Ef eitthvað annað er í veginum breytum við því.

Fram kemur í tillögu minni hlutans, með leyfi forseta:

„Það þarf ekki að koma á óvart að ófyrirséð vandkvæði hafi komið upp við framkvæmd laga um veiðigjöld. Þau fela í sér nýjung sem hefur ekki verið reynd hér áður. Samhliða nefndaráliti þessu leggur minni hlutinn fram tillögur til breytingar á lögum um veiðigjöld.“ — Það er nefnilega þannig að það má laga margt og engin ástæða til annars en að viðurkenna það. En það er eitt að laga og annað að fella niður. — „Fram hefur komið að vafi leiki á hvort veiðigjaldsnefnd, sem starfar samkvæmt lögum um veiðigjöld, hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hún þarf á að halda til að ákvarða sérstakt veiðigjald. Til að mögulegt verði að bregðast við framangreindum vanda leggur nefndin til að ríkisskattstjóra verði gert skylt að afhenda Hagstofu Íslands og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun veiðigjalda, þar með taldar upplýsingar um verðmæti rekstrarfjármuna.“

Almenna veiðigjaldinu er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem hið opinbera hefur af fiskveiðistjórn. Sérstaka veiðigjaldið er svo hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni, hluti af þeim arði sem eftir stendur þegar búið er að greiða allan tilkostnað, launin, orkuna, viðhaldið og allan þann útgerðarkostnað, kaup á skipum og fjármagnskostnað, þ.e. vextina af lánsfénu, og arð til eigenda. Útgerðir greiða því ekkert sérstakt veiðigjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind fyrr en allir hafa fengið sitt. Við getum varla ætlast til þess að aðrir greiði þennan kostnað, eða hvað?

Ef rekstrarskilyrði versna, t.d. með lækkun fiskverðs eða hækkun gengis, er það sérstaka veiðigjaldið sem lækkar og hverfur ef umframarðurinn dugar ekki til að greiða meira en kostnaðinn, þ.e. almenna gjaldið. Það að útgerðin hefur einkaleyfi til að nýta þessa sameiginlegu auðlind okkar eru sterk rök fyrir því að hún greiði það. Það verður að líta á veiðigjaldið sem afnotagjald þar sem nýtingaraðilar eru með því að skila auðlindarentunni til réttmæts eiganda hennar, þjóðarinnar, í sameiginlega sjóðinn okkar allra.

Það liggur nefnilega fyrir að tekjurnar af gjaldinu eiga meðal annars að renna til samgönguframkvæmda um land allt, m.a. boðaðra Norðfjarðarganga sem við höfðum áhyggjur af hér þegar boðaðar breytingar komu fram á þessu sumarþingi, þar sem tekjur ríkissjóðs eru skertar um marga milljarða. Þá er ekki nema eðlilegt að fólk láti sér detta í hug að eitthvað verði slegið af.

Þessar tekjur á líka að nota til nýsköpunar í atvinnulífi og í öll önnur framfaramál, t.d. til hækkunar barnabóta sem er afar mikilvæg fyrir fjölskyldurnar í landinu, ungu fjölskyldurnar.

Það má hins vegar velta því upp, og á að gera með þessi lög eins og önnur, hvort forsendur fyrir ákvörðun veiðigjaldanna séu eðlilegar og gjöldin réttilega ákvörðuð.

Mig langar að vitna í dósent í viðskipta- og hagfræði, Stefán Björn Gunnlaugsson, sem hefur verið að rannsaka áhrif nýrra laga um veiðigjöld, annars vegar á 25 stærstu útvegsfyrirtækjunum og hins vegar þeim minni þar sem haft er eftir honum:

„Ljóst er að staða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er æðiólík innbyrðis. Sum þeirra eru vafin skuldum en önnur svo gott sem skuldlaus. Þegar málið er kannað betur kemur þó í ljós að aðeins fjögur af stærstu 25 fyrirtækjunum eiga í verulegum fjárhagsvanda. Hin fyrirtækin standa vel eða mjög vel ef marka má niðurstöður Stefáns, sem finna má í umsögn hans við veiðigjaldafrumvarpið. Því kann slæm skuldastaða fárra fyrirtækja að skekkja heildarmyndina þegar reynt er að meta getu stóru útgerðanna til að standa undir veiðigjaldinu.“

Hann tiltekur svo fyrirtækin sem standa misvel og hvet ég þá sem eru að ræða þessi mál hér sem og nefndina til að skoða það enn frekar því að það virðist ekki vera sem þeir hafi lesið það miðað við frumvarpið sem liggur fyrir.

Miðað við reikninga ársins 2010 voru um 34 fyrirtæki með veltu yfir milljarði. Þau höfðu yfir 80% heildarkvótans og hefðu greitt um 85% af sérstaka veiðigjaldinu, þ.e. yfir 15 milljarða af þeim 18 sem hefðu verið til greiðslu.

Það er því afar sérstakt þegar því er haldið fram að veiðigjöldin bitni mest á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og að þau séu sérstakur landsbyggðarskattur. Almenna veiðigjaldið er jafn hátt á hvert kíló sama hver stærð fyrirtækisins er og sérstaka veiðigjaldið er lægra á kíló hjá litlum fyrirtækjum en hjá stórum. Því er ekki hægt að segja að veiðigjaldið sé litlum fyrirtækjum meiri byrði en stórum, þvert á móti, og enginn skynsamleg rök til að tengja það rekstrarlegum forsendum einstakra fyrirtækja.

Það kemur reyndar fram í tillögu minni hlutans sem var rædd rétt áðan að þar sem ójafnvægi hefur skapast í greininni er gerð tillaga til lagfæringar.

Mér finnst heldur ekki rétt í þessari umræðu um veiðigjöldin að búa til togstreitu á milli höfuðborgar og landsbyggðar með því að tala um landsbyggðarskatt. Veiðigjöld eru gjöld á eigendur útgerða. 34 stærstu fyrirtækin greiða um 85% veiðigjaldanna, eins og ég sagði áðan. Þessi gjöld lenda á útgerðunum og engum öðrum.

Eitt af því sem einkennir veiðigjöldin er að þau aðlaga sig afkomu útgerðanna. Sú afkoma ræðst að stórum hluta af fiskverði sem ræðst svo af gengi krónunnar. Ef krónan styrkist lækkar fiskverð og þar með lækkar sérstaka veiðigjaldið.

Veiðigjöldin hafa engin áhrif á það verð sem fæst fyrir afla á markaði og þar af leiðandi ekki á laun sjómanna, eins og mjög mikið hefur verið rætt. Laun sjómanna hafa hækkað með lægra gengi og hækkandi fiskverði, sem betur fer. Því er með ólíkindum þegar reynt er að halda því fram að veiðigjöldin hvetji útgerðir til að reyna að lækka laun sjómanna. Hvers lags vitleysa er það? Launakostnaður kemur til frádráttar og ef launin eru hærri lækka veiðigjöldin, ef launin eru lægri hækka veiðigjöldin þannig að það stenst enga skoðun.

Svo er vert að hafa í huga að eftir því sem launin eru hærri skilar það sér í hærri útsvarstekjum til sveitarfélaganna. Því er það svolítið sérstakt þegar sveitarfélög hafa tekið sig saman, þar á meðal mitt sveitarfélag, og ég játa hér að ég studdi það ekki af því að mér finnst ekki eðlilegt í því ferli sem hefur átt sér stað í gegnum árin, með tilfærslu kvóta, að núverandi kvótahafar í byggðum landsins ætli að eigna sér hlutdeild í auðlindagjaldinu.

Hvað með byggðirnar sem eiga engan kvóta lengur? Hvers eiga þær að gjalda? Mér finnst það skynsamlegra sem fyrri ríkisstjórn lagði til og lögin kveða á um, að þetta renni í okkar sameiginlega sjóð og fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar ber þess merki að meðal annars átti að dreifa þeim tekjum um land allt þannig að þær yrðu sem best nýttar en ekki tilfallandi í nokkrum sveitarfélögum, útgerðarsveitarfélögum landsins.

Það er undarleg hagfræði þegar menn fullyrða að veiðigjöldin verði til þess að ekki verði hægt að fjárfesta og endurnýja í sjávarútveginum. Tilgangurinn þegar maður er að fjárfesta hlýtur alltaf að vera sá að framleiðslan og það verðmæti sem verður til aukist umfram það sem kostar að fjárfesta.

Jón Steinsson segir í DV á dögunum þar sem hann talar um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, og ég tek undir það með honum, að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar við lækkun skatta komi honum á óvart. Hann telur ekki að lækkunin sé til þess fallin að auka hagvöxt í sama mæli og lækkun annarra skatta. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég held að þetta hafi engin örvandi áhrif. Og sérstaklega er þetta náttúrulega athyglisvert í ljósi þess að skattar eru háir á Íslandi og það væri mjög gott að geta lækkað til dæmis virðisaukaskattinn eða tekjuskattinn. Ein leið til að gera það væri að vera með hátt auðlindagjald og þá miklu, miklu lægri virðisaukaskatt. Og það væri örvandi. Það væri virkilega örvandi.“

Það væri reyndar líka mjög gott ef við gætum lækkað skatta eins og er komið inn á hér, en inntakið er að þetta hafi ekki örvandi áhrif eins og sérstaklega sjálfstæðismenn hafa haldið fram.

Hann segir einnig um lækkun veiðigjalda að hún stuðli síður að örvun hagkerfisins, með leyfi forseta:

„En auðlindagjöld — ef þau eru rétt útfærð og einungis gjöld á umframhagnað eins og gjaldið er núna — þau hafa engin vinnuletjandi áhrif á útgerðina. Það verða jafn margir fiskar dregnir úr sjó og jafn mikil verðmæti búin til úr þeim hvort sem að veiðigjaldið er 10 milljarðar eða 30 milljarðar.“

Það kemur einnig fram að hann telur að gjaldið sé lágt miðað við umframhagnað sjávarútvegsfyrirtækja og telur að langstærsti hluti hagnaðarins verði eftir hjá fyrirtækjunum.

Og hann segir, svo ég vitni aftur í hann, með leyfi forseta:

„Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu frumvarpi sem hlífir litlum eða meðalstórum útgerðum.“

Það er akkúrat það sem hefur svolítið verið inntakið í ræðum ríkisstjórnarflokkanna, að þetta eigi að hlífa þeim, en ég tel að minni hluti atvinnuveganefndar hafi sýnt fram á annað, vankanta sem verða betur lagaðir með þeim tillögum sem koma fram þar.

Hann segir einnig að ekkert bendi til þess að veiðigjaldið eins og það er núna dragi úr hvata til að sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í fjárfestingar og svo ég vitni aftur í hann:

„Hagnaðurinn er svo mikill í þessum geira að það eru allir að fullnýta kvótann sinn hvort eð er. Þú veiðir ekkert meiri fisk þó veiðigjaldið sé lækkað. Hagnaðurinn er það mikill nú þegar að það er bara miklu meiri en nógur hvati til að ráðast í allar þær fjárfestingar sem sjávarútvegsfyrirtækin telja sig þurfa. Þau eru nú þegar að fá 8 prósenta arð af því fé sem lagt er í reksturinn og líka þorrann af auðlindarentunni. […]

Hvort sem við erum að tala um að gjaldið yrði 13,5 milljarðar eða 10 milljarðar, þá eru útgerðirnar hvort eð er að fá bróðurpartinn af þessu. Þær eru með svo miklu, miklu meira en nógan hvata til að gera allar þær fjárfestingar sem þörf krefur að það er algjörlega út í hött að tala um að það hafi einhver áhrif á fjárfestingu.“

Þar tekur hann undir sjónarmið okkar vinstri grænna og fleiri, að þetta sé ekki eitthvað sem setji fyrirtækin á kné eða verði til þess að ekki verði hægt að endurnýja nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað má í því samhengi velta því fyrir sér af hverju flotinn hafi ekki verið endurnýjaður undanfarin ár, þ.e. í eins miklum mæli og nú virðist þurfa að gera. Það er ekki eins og ekki hafi átt sér stað einhverjar fjárfestingar í þessum geira.

Veiðar eru háðar aflamagnstakmörkunum. Stækkun fiskveiðiflotans eða aukning veiðigetu skipa breytir ekki aflamagni eða verðmæti aflans og eru því ekki rök fyrir aukinni fjárfestingu. Það að stækka flotann hefur ekki aukið aflamagn í för með sér og því er augljóst að stækkunin getur ekki leitt til hækkunar á tekjum af veiðigjöldum eins og haldið hefur verið fram.

Þessi krafa um auknar fjárfestingar í sjávarútvegi vekur upp ýmsar spurningar. Eins og við vitum og það er kannski það sem almenningur er hvað sárreiðastur yfir í þessari umræðum og ég held að það megi segja að reiðin beinist fyrst og fremst, eða gagnrýnin, kannski ætti frekar að tala um gagnrýnina sem beinist fyrst og fremst að því að það liggur fyrir að það höfðu átt sér stað miklar afskriftir, fjárfestingin var vissulega í kvótakaupum, mikið í hlutabréfum, framlögum í fyrirtæki erlendis og mestmegnis var þetta fjármagnað með lánsfé.

Svo hafa menn verið að greiða sér stórkostlegan arð og kvarta síðan undan því að geta ekki borgað auðlindagjald. Þá er ekki nema eðlilegt að fólk spyrji sig af hverju fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar snúa að því að aðstoða þá sem best geta lagt til samfélagsins. Það má líka spyrja sig, eins og ég kom inn á áðan, af hverju ekki var fjárfest í skipum eða öðrum rekstrarfjármunum sem virðist vera talin sár þörf á núna. Það má spyrja sig hvort við, þjóðin, eigum þá að afsala okkur þeim rétti eða tilkalli til arðs af auðlindinni okkar til að fjármagna þessa gjörninga sem áttu sér stað og hafa átt sér stað í gegnum árin.

Það segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Veiðigjöld á að ákveða með hlutlægum og gagnsæjum hætti. Með lögum um veiðigjöld var búin til hlutlæg tenging milli gjalda og auðlindaarðs. Hana má ekki rjúfa þannig að álagning veiðigjalda verði háð geðþótta ráðamanna og þrýstingi hagsmunasamtaka hverju sinni. Undir slíkum kringumstæðum missa veiðigjöld gildi sitt og raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni skerðist.“

Það er það sem er svo mikilvægt, að við vitum og sjáum með hvaða hætti þessir hlutir eru gerðir. Það á heldur ekki að breyta því að veiðigjöldin eða álagning þeirra samkvæmt núgildandi frumvarpi breytir því ekki að fjárfestingin í sjávarútvegi sé arðbær eins og hér hefur verið rakið.

Virðulegi forseti. Veiðigjaldslögin eru nú þegar komin í framkvæmd að öllu öðru leyti en því, eins og hefur verið rætt um hér, að útreikningi þessa sérstaka gjalds fyrir komandi fiskveiðiár hefur ekki verið lokið. Framkvæmd laganna er byggð á áralöngu fyrirkomulagi þar sem Fiskistofa leggur gjöldin á og sér um innheimtuna. Á því varð engin afgerandi breyting.

Ákvörðun veiðigjaldanna er sem sagt byggð á sömu aðferðafræði með nokkrum breytingum sem hafa mikla efnislega þýðingu en breyta framkvæmdinni ekki verulega. Vandamálið virðist vera tæknilegs eðlis, eins og ég hef áður sagt og komið hefur fram í ræðum margra þingmanna, þar sem Hagstofan og ríkisskattstjóri halda gögnunum hver hjá sér og virðast ekki vilja eða hafa ekki færi á því að láta þau gögn af hendi hver til annars til að hægt sé að framkvæma þetta.

Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin sjái sér ekki fært eða skorti kjark til að leysa úr því vandamáli, þessu tæknilega vandamáli sem talið er að liggi í því að ein stofnun afhendi annarri upplýsingar þar sem báðar eru bundnar sams konar trúnaði og hafa skipst á upplýsingum áratugum saman. Þetta er ekkert nýtt í kerfinu. Að mínu viti, og ekkert bara mínu heldur margra annarra líka, er um að ræða einfaldar lagabreytingar og því veltir maður því fyrir sér hvort það sé hreinlega ekki vilji hjá núverandi ríkisstjórn til að innheimta auðlindagjald yfirleitt. Er það mergur málsins?

Fall krónunnar skapaði sjávarútveginum sterka stöðu og miklar tekjur en á sama tíma skertist hagur margra, allra heimila í landinu. Við vitum öll að vöruverð hækkaði, tekjurnar hjá ríkissjóði minnkuðu og það má í raun segja að orðið hafi gríðarleg tekjutilfærsla, tugmilljarðatekjutilfærsla frá almenningi til eigenda fárra stórútgerða með þessu sterka gengi krónunnar sem skapar útgerðinni auknar tekjur en hækkar vöruverð til hins almenna borgara.

Ég lít svo á að það veiðigjald sem við búum við nú sé bæði sanngjarnt sem endurgjald fyrir notkun sameiginlegrar auðlindar og það má segja að það sé líka vörn gegn því að kostnaðurinn af lækkun á gengi krónunnar lendi á almenningi en ágóðinn hjá fáum útvöldum.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að þótt vissulega hafi verið talað mikið um tekjutenginguna, þ.e. tekjuþáttinn fyrir ríkissjóð — þetta eru engir smáaurar sem við erum að ræða og vert að minna á og hér hefur töluvert verið talað um það hvar menn ætla að skera niður og rætt um að ástæðan fyrir því að ekki verði hægt að koma fram með fjárlagafrumvarp í haust á réttum tíma sé meðal annars vegna þess að menn séu búnir að búa til mun stærra gat en hefði þurft að koma til. Í því sambandi má nefna að í áliti minni hlutans kemur fram, með leyfi forseta:

„Breytingarnar sem minni hlutinn leggur til munu hafa lítils háttar áhrif á tekjur ríkissjóðs og hverfandi miðað við þau áhrif sem hljótast munu af breytingum sem meiri hlutinn leggur til að verði samþykktar óbreyttar frá frumvarpinu.“

Hér fylgja því ágætisútreikningar, góðar töflur eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti á áðan sem er heldur annað en kemur fram í áliti meiri hlutans.

Eins og ég sagði voru þessi lög ekki einungis tekjuöflun því að í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var þetta hluti af stefnumótun í auðlindamálum og það kom svo skýrt fram við stjórnarskrárvinnuna í fyrravor þar sem gert var ráð fyrir að auðlindir þjóðarinnar eigi raunverulega að vera í eigu þjóðarinnar. Það var mikið tekist á um akkúrat þetta og þeir sem leggja fram þessa breytingu á veiðigjaldinu voru þeir sem stóðu harðast gegn því. Því miður gera þær breytingar sem hér eru boðaðar þessa vinnu að engu, að mér finnst, og veiðigjöldin á ekki lengur að tengja við auðlindaarðinn.

Með leyfi forseta langar mig að lesa upp úr nefndaráliti minni hlutans:

„Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst sig fylgjandi sterku stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins. Slíkt ákvæði er innihaldslítið form ef því fylgir ekki tilkall til sanngjarns hluta auðlindarentunnar eða umframarðsins af náttúruauðlindunum. Lög um veiðigjöld fela einmitt í sér slíkt tilkall.“

Eins og ég sagði áðan er eðlilegt að fólk berji í tunnur eða safnist saman, hvort sem það er á netinu í formi undirskrifta eða annars staðar, og láti í sér heyra þegar um svo mikilvægt mál eins og náttúruauðlindirnar okkar er að ræða.

Mig langar líka, með leyfi forseta, að lesa upp úr skýrslu sem auðlindastefnunefnd skilaði til forsætisráðherra um stefnumörkun í auðlindamálum í september 2012 þar sem þetta er kannski undirbyggt enn frekar og eru meginmarkmið auðlindastefnunnar:

„Varanlegur eignar- og yfirráðaréttur þjóðarinnar yfir sameiginlegum auðlindum sínum og arði af þeim verði tryggður“, í stjórnarskránni sem sagt.

„Auðlindaarður þjóðarinnar af nýtingu auðlinda sinna verði sýnilegur og honum ráðstafað með sýnilegum hætti.

Búa þarf svo um hnútana að hvort tveggja sé tryggt til frambúðar svo sem frekast er unnt með almennum lögum, óháð breytingum sem verða kunna á eignarhaldi nýtingarfyrirtækjanna eða pólitískum áherslum frá ári til árs. […]

Sýnileiki auðlindaarðsins er í sjálfu sér þýðingarmikill til að tryggja varanleg yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og að þjóðin njóti auðlindaarðsins til frambúðar. Almenn vitund um verðmæti auðlindanna og sýnilegt framlag þeirra til samfélagsins leiðir til þess að ákvarðanir um aðra ráðstöfun auðlindaarðsins þarf að rökstyðja vel og skýra fyrir þjóðinni.“

Það er kannski það sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e. að skýra fyrir þjóðinni hvers vegna í ósköpunum ekki eigi að greiða sanngjarnan skatt eða öllu heldur auðlindagjald — það er eiginlega ekki hægt að tala um þetta sem skatt vegna þess að þetta er bara afnotagjald. Það er ekkert óeðlilegt við að við spyrjum okkur að því. Í rauninni á þetta á við um allar auðlindir, orkuna og hvað það nú er sem við eigum sameiginlega og þurfum að gæta þess að ganga ekki of mikið á. Þetta er til þess að viðhalda þeirri vinnu líka.

Virðulegi forseti. Ég held að í þessari umræðu eigum við að hafa það að leiðarljósi að lögin um veiðigjöld eru tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni. Arðurinn er réttmæt eign þjóðarinnar og má aldrei verða einkaeign fárra. Eins og ég sagði áðan eru veiðigjöldin ekki skattheimta, þau eru afnotagjald af þessari sameiginlegu eign þjóðarinnar, fiskveiðiréttinum. Þau innheimtum við til að tryggja þjóðinni arð af eigin auðlind. Hér eigum við frekar að vera að ræða hvernig við ráðstöfum því fé sem innheimtist en ekki hvernig við lækkum það, búum til stærra gat í fjárlögin, skerum niður í velferðarkerfinu því að það er það sem er búið að boða. Ef gjöldin væru látin standa óbreytt og þá með þeim breytingum sem minni hlutinn leggur til held ég að við ættum frekar von á því að fjárlagafrumvarpið gæti komið fram á réttum tíma. Það hlýtur að vera erfitt að sitja uppi með það, eins og hæstv. ríkisstjórn gerir núna, að skerða tekjurnar eins og hún getur, að manni virðist, geyma almenninginn í landinu, hann bíður haustsins, en stórútgerðirnar og útgerðirnar yfirleitt.

Ferðaþjónustan er í blóma, sem betur fer, og sem betur fer gengur útgerðunum vel. Það er það sem við viljum og það er eiginlega svolítið sérstakt að í umræðunni sé því haldið fram að maður vilji sjávarútveginum eitthvað illt þannig að það sé af einhverri vonsku út í útgerðarmenn sem við ræðum áhyggjur okkar af þessari framkvæmd. Við höfum áhyggjur af þjóðarbúinu, við höfum áhyggjur af öllu því sem þjóðarbúið þarf að standa undir, af skólunum okkar sem eru komnir að þolmörkum vegna fyrri stefnu. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að við séum að fara þangað aftur, en ekki hvað, þegar byrjað er að gera það sama, þegar sama stefna er lögð fram aftur.

Þess vegna held ég að við, eins og ég sagði hér, ættum að ræða hvernig við nýtum þessa peninga, hverja við viljum láta hafa þá eða fá svör hjá ríkisstjórninni um það hvaða framkvæmdir hún ætli að slá af. Það hefur ekki komið fram. Það er margt undir þannig að ég held og vonast til þess að þegar þetta fer inn í nefndina aftur mætist menn og finni skynsamlega leið þar sem ríkissjóður verður ekki af öllum þessum tekjum og gjaldið verður áfram sanngjarnt.