142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ágætt að heyra það svar sem hv. þingmaður veitti við spurningu minni. Ég tel sem sagt að eins og í pottinn er búið komi það vel til greina að flokkar eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin og hugsanlega fleiri í stjórnarandstöðu noti það tilefni sem gefið er af hálfu ríkisstjórnarinnar sem slítur sundur frið og sáttaviðleitni í þessu máli með því að gjörbylta því veiðigjaldsfyrirkomulagi sem búið var að koma á, til þess að taka bara upp gömlu fyrningarleiðina. Menn skoði hana rækilega og kanni hvort ekki sé hægt að setja fram dálítið kerfi um það hvernig veiðiheimildirnar eru einfaldlega innkallaðar allar eins og þær leggja sig.

Við, sem féllumst á að skoða rækilega samningaleiðina annars vegar gegn því að taka upp rösklegt veiðigjaldakerfi eins og gert var, höfum ærna ástæðu til þess að ætla að verið sé að slíta í sundur þennan frið. Hingað koma menn sem segja beinlínis úr þessum ræðustóli að þeir sitji hér inni sem fulltrúar útgerðarinnar og til þess að ná fram hagsmunum hennar. Það er ljóst að þau sjónarmið hafa orðið ofan á innan ríkisstjórnarinnar. Alltaf þarf að bregðast við þegar koma upp nýjar aðstæður.

Þetta eru nýjar aðstæður. Ef það er þannig að útgerðin vilji senda hingað sína boðbera til þess að slíta sundur friðinn með þessum hætti þarf að svara því. Ef menn vilja frekar ófrið en frið, ja, þá verð ég bara að segja að það er samkvæmt mínu vestfirska eðli að taka slíku boði.