142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[17:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að við getum alla vega talað saman um það hvernig við mundum vilja sjá framtíðarfyrirkomulag í sjávarútvegi. Ég ætla ekki að lofa því hér og nú að ég vilji fara nákvæmlega sömu leið og hv. þm. Össur Skarphéðinsson en ég er nokkuð sannfærð um að bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin sem og ýmsir aðrir hér á þingi gætu eflaust fundið einhvern flöt á því.

Ég tek undir það að með því frumvarpi sem hér er lagt fram eða með þeirri breytingu á lögum sem gerð er sé klárlega verið að slíta í sundur friðinn og þær sættir sem voru komnar á. Það er mjög dapurlegt til þess að vita. Það átti nú að ávíta þá sem hér stendur, það var beðið um það um daginn þar sem ég sagði eitthvað í þá veru að ég teldi að það yrði að vera ljóst hvort fólk gengi hér erinda einhverra tiltekinna aðila. Og það opinberaðist svo rækilega í gærkvöldi.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við eigum að setjast yfir það nú á nýju þingi og það þarf að breyta kerfinu, það hefur ekkert breyst frá því á síðasta kjörtímabili. Við unnum að því allan tímann en það náðist ekki fram. Ég held að sú skoðun okkar hafi ekkert breyst. Við viljum breyta í grunninn þessu kerfi og ég fagna því tilboði sem hv. þingmaður leggur hér fram fyrir okkur.