142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[18:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir ræðu hennar og vil sérstaklega gera hér að umtalsefni þann hluta í andsvari þar sem hún var að fjalla um áhrifin á tekjur ríkissjóðs og útgjöld, hvernig þetta kæmi niður á útgjöldum til ýmissa annarra málaflokka, af því að hv. þingmaður er fyrrverandi fjármálaráðherra. Það liggur ljóst fyrir í þeim gögnum sem fylgja þessu máli að tekjuáhrifin á ríkissjóð eru metin upp á 3,2 milljarða á þessu ári, 6,4 milljarða á næsta ári, þ.e. um 10 milljarða á þessu ári og því næsta, án þess að sérstaklega sé gerð grein fyrir því í gögnum málsins hvernig mæta á þessu tekjutapi ríkissjóðs með öðrum aðgerðum.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvernig hún telur að ríkisstjórnin muni þurfa og muni mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs upp á um 10 milljarða kr. á þessu ári og næsta. Er ekki alveg ljóst að það mun hafa veruleg áhrif á útgjöld til málaflokka eins og mennta- og skólamála, til heilbrigðismála, velferðarmála, löggæslunnar og ýmissa innviða í samfélaginu eins og samgöngumála? Er ekki alveg ljóst að ef þetta frumvarp verður að lögum verði áhrifin umtalsverð á þessa málaflokka? Eða sér þingmaðurinn sem fyrrverandi fjármálaráðherra einhverjar aðrar leiðir til þess að mæta þessu tekjutapi? Er líklegt að menn fari þá í nýja tekjuöflun? Hvar mundi hún þá bera niður? Mér þætti fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvernig hún metur þessa þætti málsins.