142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[20:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að fara betur yfir sem mér vannst ekki tími til að gera í fyrri ræðu minni við þessa umræðu. Reyndar verð ég nú að viðurkenna að mér finnst svolítið tómlegt hér í salnum, mér finnst svolítill skortur á aðstandendum málsins. Hæstv. ráðherra hefur ekki sést í þessari umræðu í allan dag, það best ég veit, og formaður nefndarinnar er hér ekki heldur. Ég ætla svo sem ekki að elta ólar við að biðja um viðveru þeirra, en maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé til marks um að þetta frumvarp sé einhvern veginn orðið svolítið munaðarlaust, það vilji kannski bara eiginlega enginn kannast beinlínis við það.

Ég hef það svolítið á tilfinningunni að tvær grímur séu að renna á einn og einn stjórnarliða, eða ég eiginlega vona það því að ég hefði talið að stjórnarliðar gerðu nú rétt í því að velta því aðeins fyrir sér hvort þeir væru vissir um að þeir væru þarna á réttri braut. Það er ástæðulaust að ýkja upp ágreining um mál ef þess er ekki nein þörf. Ég er ekkert viss um að það hefði vakið mikla úlfúð ef stjórnarfrumvarpið hefði komið þannig fram að einhver minni háttar eða talsverð fínstilling hefði átt sér stað á veiðigjöldunum. Segjum að það hefði þess vegna leitt til einhvers minni háttar tekjutaps frá því sem veiðigjöldin hefðu gefið óbreytt á þessu fjárlagaári — það lá jú fyrir samkomulag um að ekki yrðu teknir í heildartekjur, nettó, í veiðigjöld meira en 13,8 milljarðar kr. á því fiskveiðiári sem er að líða. Yrði innheimtan meiri yrði því skilað með afslætti á fyrsta gjalddaga næsta fiskveiðiárs, af því að auðvitað var ekki hægt að áætla það nákvæmlega fyrir fram á síðastliðnu sumri hver heildartekjuöflunin yrði og það ræðst auðvitað dálítið af aflamagninu á hverjum tíma; þær tegundir sem ekki eru endanlega kvótasettar, eins og loðna, fyrr en á vetrarvertíð o.s.frv.

Auðvitað má segja að ef kvótinn vex sé eðlilegt að tekjurnar vaxi, en svona var nú frá þessu gengið. Og eins og fram kemur í hinni margrómuðu kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins höfðu menn svo gert ráð fyrir nokkuð meiri tekjum á fiskveiðiárinu 2013/2014, sem bera auðvitað uppi tekjur fjárlagaársins 2014, en þannig háttar til að fyrstu þrír mánuðir nýs fiskveiðiárs falla inn á hvert fjárlagaár og þar af leiðandi er ekki endilega fullt samræmi á milli tólf mánaða innheimtunnar á fiskveiðiárinu og tólf mánaða innheimtunnar á fjárlagaárinu.

Það er alveg ljóst að með þessum ráðstöfunum vantar verulega upp á að tekjur fjárlagaársins muni skila sér, áætlað að þar vanti 3,2 milljarða upp á. Það er dálítið athyglisvert í ljósi þess að núverandi stjórnarflokkar, þáverandi stjórnarandstöðuflokkar, stóðu einmitt í lok júnímánaðar 2012 að því, þó að þeir að sjálfsögðu samþykktu ekki frumvarp um veiðigjöld, að Alþingi fékk frið til að ljúka málinu á grundvelli þess að við teygðum okkur mjög til móts við þá og lækkuðum gjöldin umfram það sem endurskoðun og skoðun í nefnd hafði leitt til að yrði gert og allir voru sammála um að gera, vissar breytingar sem leiddu af ítarlegri skoðun málsins í nefndinni.

Þessu hnoði, eftir langvinnt málþóf hér vorið og fyrstu sumardagana 2012, lauk þannig að þáverandi stjórnarandstöðuflokkar létu það gott heita að veiðigjaldafrumvarpið gekk í gegn, gegn því líka að stóra frumvarpinu var frestað með tilteknum hætti. Þá töldu menn sig alla vega geta lifað með þessu, að tekjur af fiskveiðigjöldum yrðu 13,8 milljarðar á fiskveiðiárinu 2012/2013, og síðan nokkru meiri á fiskveiðiárinu 2013/2014 og út frá því er gengið í ríkisfjármálaáætluninni núna.

Ef frumvarpið gengi út á það, eða breytingartillögur meiri hlutans eftir athugun á málinu, að reyna að verja þessar tekjur svona að mestu leyti, þá hefði maður þó alla vega talið að það væri til marks um að viðkomandi aðilar væru með nokkra meðvitund um að það hlýtur að hafa eitthvert vægi í þessu að ríkið er þarna að verða af miklum tekjum. Jú, jú, menn geta að sjálfsögðu farið hér í ræðuhöldin um að þetta sé óþarflega mikið og fullmikið. En hver telur sig ekki vera að borga óþarflega mikla skatta og greiða óþarflega mikið? Ætli það séu nú ekki fleiri en sjávarútvegurinn á Íslandi sem þægju alveg að það væri aðeins létt af þeim gjöldum, því að auðvitað hefur þurft að gera miklar ráðstafanir til þess að afla ríkinu tekna á þessum erfiða tíma til þess einfaldlega að koma í veg fyrir að ríkissjóður Íslands fari á hausinn. Það er nú bara þannig að hefði það ekki verið gert væri ríkissjóður Íslands um það bil kominn á hausinn núna. Það er algerlega ljóst að ef hallinn á ríkissjóði væri af stærðargráðunni sem hann var 2008–2009, jafnvel 2010, mældur í um 100 milljörðum eða 100–200 milljörðum, væri skuldastaðan að verða um það bil ósjálfbær og óviðráðanleg núna. Það er bara svona hratt sem þetta gerist. Þetta ættu hv. þingmenn að sjá, meðal annars af því að núna fara tæpir 90 milljarðar kr. í greiðslu vaxta af skuldum ríkisins. Við höfum kannski 20 milljarða í vaxtatekjur á móti þannig að fjármagnsliðirnir eru óhagstæðir hjá ríkinu um um það bil 70 milljarða kr. og það tekur rosalega í.

Þess vegna verða menn að horfa á þetta í hinu stóra samhengi. Það var ekki út í loftið að menn fóru í þær aðgerðir sem farið var í og báru meðal annars niður hjá aðilum eins og sjávarútveginum í ljósi hans góðu afkomu eins og ferðaþjónustunni sem menn töldu að gæti þá aðeins greitt meira í virðisaukaskatt eins og auðugasta fólkið á Íslandi, eins og tekjuhæsta fólkið á Íslandi, eins og þeir sem hafa miklar fjármagnstekjur o.s.frv., því að einhvers staðar frá verða þessar tekjur að koma.

Hér sé ég að formaður nefndarinnar er kominn og það gleður mig mjög að hann skuli ætla að vakta þetta barn sitt hér svo að það sé ekki munaðarlaust, frumvarpið, eins og ég var farinn að hafa nokkrar áhyggjur af.

Hér er bara svo langur vegur á milli, þetta er svo mikið að það kemur mér mjög á óvart og ég hef ekki sannfærst enn. Þrátt fyrir það að velviljaðir þingmenn hafi verið að sýna mér reikninga úti í þingsalnum hef ég ekki sannfærst enn um að þarna sé einfaldlega rétt stillt af. Ég hef það alls ekki, því að ég á eftir að sjá betri gögn fyrir því að ég kaupi að það sé réttlætanlegt að hlutdeild botnfisksveiðanna í heild, veiða og vinnslu, í sérstöku veiðigjaldi sé ekki nema sjötti partur eða fimmti partur af því sem uppsjávarveiðarnar eiga þó að greiða.

Tekjuáhrifin af þessu, eins og fram hefur komið, eru 3,2 milljarðar í aukinn halla ríkissjóðs á þessu ári. Ja, ekki hefur heyrst af neinum viðbrögðum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að afla tekna eða draga úr útgjöldum þar á móti, og um 6,4 milljarðar á næsta ári. Það sem við höfum á borðum okkar í þessari mynd ríkisfjármálanna — og ég vona að mér fyrirgefist, hæstv. forseti, þó að ég fari aðeins yfir í það samhengi mála, því að þetta er nú einn af stóru þáttunum í þessu frumvarpi — eru þá þessi tvö frumvörp, annað lögfest og hitt hér til 2. umr., sem afsalar ríkinu talsverðum tekjum á þessu ári og hinu næsta.

Virðisaukaskattur í gistingu kostar í lægri tekjur 535 milljónir á þessu ári, veiðigjöldin 3,2 milljarða, og síðan er það mat fjármálaráðuneytisins að breytingar á almannatryggingalögum þýði útgjöld upp á um 850 milljónir á þessu ári. Það er, eins og ég fór hér áður yfir, tæplega 4,6 milljarða aukinn halli ríkissjóðs á árinu 2013 vegna beinna aðgerða ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það kemur inn í vaxtakostnað næsta árs vegna þess að ríkið er rekið með halla og þetta þýðir aukna skuldasöfnun, aukna lántöku ríkisins á þessu ári. Engar töfrakúnstir í því, það eru engir útlendir kröfuhafar, held ég, sem ætla að borga þetta. Nei, það eru bara skattgreiðendur framtíðarinnar og velferðarþjónustan sem verður sem þessu nemur verr sett vegna þess að viðbótarskuldir lenda á ríkissjóði sem taka á sig vexti strax á síðustu mánuðum þessa árs og að fullu á næsta ári.

Staðan er enn alvarlegri á næsta ári og miðað við það sem við höfum þar í höndunum er með þessum tveimur frumvörpum sem afsala ríkissjóði tekna, og þá frumvarpinu með breytingu á almannatryggingalögum, samtals verið að auka vanda ríkissjóðs um 12,5 milljarða kr. á fjárlagaárinu 2014. Nú hefur sömuleiðis komið fram, og formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað nokkuð skýrt, að ég held, í þeim efnum, að auðlegðarskattur falli niður um áramótin. Það er að vísu alveg rétt að hann var lagður á tímabundið eins og hann var upphaflega lagður á og síðan framlengdur tímabundið og það þarf að gera þá einföldu ráðstöfun í lögum að framlengja gildistíma hans. Þar fara, ja, hvað eigum við að segja, 8 milljarðar plús fyrir borð, 8 milljarðar plús sem um það bil 3.500 ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi fá þá í lægri skatta.

Þá er gatið komið í 20 milljarða plús og er þó engan veginn víst að allt sé talið því að í lista með stefnuræðu forsætisráðherra, sem birtist hér í byrjun þings, voru boðuð fleiri frumvörp sem ekki var hægt að ráða annað af efnislýsingunni en væru líka ávísun á frekara tekjutap ríkisins, önnur frumvörp í skattamálum sem síðan hafa að vísu ekki komið fram — ríkisstjórnin hefur greinilega hætt við að leggja þau hér fram frá því að stefnuræðan var samin. Þar var talað um jafnvel að fella niður orkuskattinn, lækka bensíngjöld eða annað í þeim dúr. Við höfum því enga tryggingu fyrir því, við sem ekki höfum aðgang að öðrum upplýsingum en þessum, að þarna sé allt talið.

Ég verð að segja eins og er að manni bregður mjög í brún ef menn ætla að leggja upp með þessum hætti því að maður hefur nú staðið í því að reyna að koma saman einhverjum svona pökkum nokkrum sinnum þar sem reynt er að minnka gjána, brúa bilið og taka bæði niður útgjöld og að afla tekna. Oftast hefur það kostað býsna sársaukafullar og þjáningarfullar aðgerðir á báðar hliðar sem ekki hafa allar mælst vel fyrir og manni hefur kannski ekki verið beinlínis þakkað fyrir allt, alla vega ekki í fylgi ef út í það væri farið. En eitthvað varð að gera.

Eru hv. þingmenn vissir um að það verði svo bara eins og að veifa hendi að skutla einhverju upp í þetta 20 milljarða gat sem ríkisstjórnin er þá sjálf að búa til og setja fyrir framan sig á leiðinni, því að væntanlega ætlar hún sér eitthvert líf, að minnsta kosti að lifa af að koma fram fjárlagafrumvarpi næsta haust, þó að hún sé að vísu þegar búin að gefast upp á því að gera það á réttum tíma að sögn. Ég er svo sem ekkert hissa á því kannski úr því að menn eru að undirbúa það að koma því saman með þessum hætti. Ætli það létti nú róðurinn að stilla af frumvarpið, sem ég bind nú enn vonir við að menn hafi döngun í sér til að gera þannig að það verði án halla á fjárlagaárinu 2014, þegar menn byrja á því að búa sér til svona 20 milljarða gat hið minnsta?

Þetta er líka að byrja á algerlega öfugum enda. Ég hefði frekar viljað að ríkisstjórnin hefði dregið það í mánuð í viðbót, eða hvað það var, að boða þetta þing og komið undirbúin til leiks. Fyrsta málið sem hefði átt að koma hér á borð þingmanna á nýju kjörtímabili var endurskoðuð ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma. Ég skil alveg að menn hefðu þurft einhvern tíma til að setja hana saman en það er á þeim grunni sem allt hitt hefði átt að byggja. Þá gátu menn í framhaldinu farið að velta því fyrir sér: Hvaða ráðrúm höfum við á því að afsala ríkissjóði tekna eða taka á hann ný útgjöld, þó þannig að við förum ekki út af sporinu?

Það hefur kostað miklar fórnir — og þá er ég ekki að tala um hinar pólitísku fórnir því að þær eru nú léttar í maga, skítt með það — hjá almenningi í þessu landi, það hefur kostað byrðar. Það hefur kostað það að þrengt hefur verið að rekstri opinberra stofnana, það hefur kostað það að fólk hefur þurft að hlaupa hraðar víðar og bagsað við að reka sínar stofnanir, sína starfsemi og veita þjónustu, með minni fjármuni milli handanna og menn hafa gert það af mikilli þegnskyldu almennt séð, vegna þess að menn höfðu skilning á nauðsyn þess að takast á við þetta, að minnsta kosti lengi vel framan af árinu eftir hrun, auðvitað í von um að svo færu betri tímar í hönd og það væri hægt að fara að búa betur að þessari starfsemi aftur.

Þess vegna á það eftir að verða svo sárgrætilegt ef menn glutra að einhverju leyti niður þeim árangri sem við höfum þó náð. Sleppum því að rífast um hvort hann er mikill eða lítill. Hann er alla vega talsverður, held ég. Flestir, alla vega utan landsteinanna, telja að það sé talsverður árangur að hafa náð halla ríkissjóðs niður úr 14,6% af vergri landsframleiðslu 2008 — látum það nú vera, það var mikið vegna bókfærðra tapa og einskiptiskostnaðar, en hallinn var um 9% af vergri landsframleiðslu 2009 og það var nánast allt rekstrarhalli og var þó útkoma ársins ívið betri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, meðal annars vegna þess að við gerðum mjög hagstæð viðskipti um kaup á krónum heim frá Lúxemborg, svonefndan Avens Deal, og hann lagaði afkomuna á því ári.

Hægt og bítandi hefur þessi halli náðst niður þannig að núna erum við með fjárlög í gildi, hvort sem þau halda að öllu leyti eða ekki, þar sem hallinn er 3,5 milljarðar, 0,2% af landsframleiðslu. Segjum að í því sé einhver sveifla upp á 10–12 milljarða, ef við slyppum með innan við 1% halla á fjárlögum þessa árs, svona á bilinu 0,5–0,8% af vergri landsframleiðslu eða eitthvað svoleiðis, auðvitað væri það alveg stórkostlegt séð í ljósi þess hvaðan við erum að koma.

Það verður alveg óskaplega sorglegt ef menn fara þarna út af sporinu. Ég segi því af mikilli einlægni að mér finnst það dálítið merkilegt að menn skuli ekki vilja staldra við og skoða þessa hluti betur. Það var hægt að gera það með ýmsum öðrum hætti en þeim að rjúka inn í veiðigjöldin með þessu móti. Í sjálfu sér hefði ekkert vandamál verið að ákvarða þau og stilla þau svo af innan fiskveiðiársins ef út í það hefði verið farið eða að ákveða með einföldum hætti að víkja ákvæðum til hliðar og leggja á fyrsta gjalddaga hvernig sem það nú var. Þá hefðu menn verið komnir aftur fyrir það að vera búnir að koma saman fjárlögum og hefðu vitað hvar þeir standa að þessu leyti.

Auðvitað er það ekki bara vandi ríkissjóðs sem hægt er að horfa til í svona löguðu, að sjálfsögðu ekki, það verður líka að horfa á stöðu greiðandans, sjávarútvegsins, og hvað hann ræður við. Það verður líka að hafa vægi að gjaldtakan þar sé viðráðanleg. Það er ég sannfærður um að hún er og það þarf ekki að lækka sérstaka veiðigjaldið á botnfiskinn, í öllu falli ekki nándar nærri svona mikið. Ég leyfi mér að halda því fram að sjávarútvegurinn gæti vel borið það að uppistöðu til. Það yrði enginn héraðsbrestur þó að gjaldið yrði um það bil óbreytt enda væru þá á móti rýmkuð talsvert stærðarmörkin í frítekjumarkinu og með því að leyfa skuldafrádrættinum að haldast inni kemur það mjög til móts við þau fyrirtæki sem almennt eru skuldug vegna fjárfestinga í veiðiheimildum á undanförnum árum.

Hverjir ættu þá að vera eftir sem ættu að ráða mjög illa við þessa gjaldtöku? Ég held að þeir þyrftu þá að líta eitthvað á sinn rekstur. Auðvitað vitum við að það eru enn þá fyrirtæki sem eru löskuð. Það hafa verið að koma í fréttir menn sem telja að veiðigjaldið sé alveg að drepa þá. En það vill svo til, af því að maður þekkir sjávarútveginn svolítið innan frá — ég hef svelgt í mig afkomutölur hans um langt árabil — að maður veit að sum fyrirtækin voru stórlöskuð og nánast ógjaldfær strax 2008, jafnvel 2007. Þau hafa haft þetta af vegna þess hvað aðstæðurnar hafa verið geysilega góðar. Á þá að stilla veiðigjaldið af miðað við afkomu þeirra, er það? Hvernig verða nú skattarnir og hvernig verður þetta nú almennt hjá okkur ef við leitum uppi þann sem allra minnst getur greitt og látum það ráða för í skattlagningu af þessu tagi?

Að síðustu, virðulegi forseti, eins og fleiri hafa komið hér inn á, hefur maður auðvitað áhyggjur af því hvernig ríkisstjórnin leggur af stað í sjávarútvegsmálum. Það hefur verið tekist mikið á um þessi mál. Við vorum komin hálfa leið með þessar breytingar með því að reyna þó að landa sátt um það að hætta að rífast um það hver ætti þessa auðlind, og að rétturinn sem menn hefðu væri nýtingarréttur en ekki eignarréttur og að menn greiddu eitthvert eðlilegt gjald fyrir.

Ég óttast mjög að nú förum við á fullu í hina áttina, að gjáin milli þjóðarinnar og þá ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsins, þ.e. sérstaklega stórútgerðanna og þeirra hagsmunasamtaka, breikki á nýjan leik. Mér sýnast skilaboðin frá þjóðinni vera nokkuð skýr í þessum efnum; 80% þjóðarinnar að lágmarki vilja ákvæði um sameign á auðlindinni í stjórnarskrá, 70% í skoðanakönnun eru andvíg þessari lækkun veiðigjaldsins. Hátt í 35 þúsund manns hafa skorað á þingið að endurskoða þessa ákvörðun og fara ekki í þessa miklu lækkun. En hér ætlar ríkisstjórnin og aðstandendur hennar að setja undir sig hausinn og troða málinu algerlega óbreyttu í gegn. Mér finnst það afar sorglegt, dapurlegt, og óskynsamlegt (Forseti hringir.) fyrir þeirra hönd, þó ekki væri nú nema að slaka eitthvað örlítið á þessu, frú forseti, og draga eitthvað úr þessari lækkun, (Forseti hringir.) það hefði þó verið meðvitundarvottur.