142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá formanni nefndarinnar, hafi hann hugsað sér að ljúka umræðunni á sáttanótum með þessum hætti. Hann kom ekki hér upp til að þakka mönnum fyrir þátttöku í umræðunni. Hann kom ekki hér upp til að svara spurningum sem hafa komið upp í umræðunni sjálfri. Nei, hann kom hér upp til að ónotast yfir því hve stjórnarandstaðan væri ómálefnaleg og vitlaus, hafði um það þau orð að þekkingarleysi og rangfærslur hefðu verið mjög einkennandi í umræðunni um málið. Þekkingarleysi og rangfærslur, það er munur að geta sett sig svona í dómarasætið yfir málflutningi annarra þingmanna.

Hann kvartaði að sjálfsögðu undan fjölmiðlum sem sinntu ekki hlutverki sínu, að þeir væru uppteknir af skoðanakönnunum og undirskriftasöfnun, flyttu sem sagt ekki nægjanlega vel línu stjórnarmeirihlutans væntanlega. Síðan var veist að nafngreindum fræðimönnum fyrir þeirra afstöðu til mála. Ég leyfi mér að draga í efa að þetta hafi verið trúverðug eða sanngjörn meðferð á áliti Stefáns Gunnlaugssonar, sem hér var flutt af formanni nefndarinnar, þaðan af síður þau orð sem hann lét falla um Jón Steinsson. Ég held ég neyðist því til að biðja um orðið, forseti, að afloknum þessum andsvörum og svara þessu aðeins betur.

Varðandi Hagstofuna væri ég gjarnan til í að sjá þetta bréf. Ég hugsa að ég fari og biðji um fund með hagstofustjóra til að fara yfir þetta, því sé þetta svona, að það sé brot á lögum og Evrópureglum og reglum Sameinuðu þjóðanna og út og suður, að Hagstofan eða gögn á hennar vegum séu notuð í nokkurn skapaðan hlut nema hagsýslugerð hennar sjálfrar, er ég hræddur um að við séum í miklum vanda. Hvað ætli megi segja um álagningu gamla veiðigjaldsins til dæmis og margt fleira? Ég áskil mér því rétt til að fara betur yfir það, auk þess sem það er þá hægt að leysa með öðrum hætti.

Ég held að síðustu að hv. þingmaður ætti að varast að taka til orða með þeim hætti, (Forseti hringir.) sem hann gerði, að ekki sé hægt að ætlast til þess að almenningur í landinu sé mjög vel inni í þessum málum.