142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dapurt að við skulum þurfa að ræða þetta með þessum hætti. Auðvitað klippir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þetta út úr ræðu minni og út úr samhengi við það sem ég sagði. Ég sagði að fluttar hefðu verið margar málefnalegar ræður í þessari umræðu. Ég tók það sérstaklega fram, að fram hefðu komið margar áhugaverðar tillögur fyrir framtíðina. Ég tók þetta alveg sérstaklega fram, en ég gagnrýndi það líka að margar af þessum ræðum væru fluttar af því sem ég kallaði vanþekkingu, hvort sem hún er vísvitandi eða í pólitískum tilgangi.

Við getum nefnt hér dæmi um þessa 100 milljarða EBIDTU sem á að vera af sjávarútvegi, hefur komið hér ítrekað fram í umræðunni, 100 milljarðar í EBIDTU í íslenskum sjávarútvegi 2011, þegar talan nær lagi er 75 milljarðar og það vita væntanlega flestir. 10 milljarða kr. tékki til kvótagreifanna, er þetta rétt og er þetta málefnalegt? Nei, það vita allir betur. Það er þetta sem ég á við.

Það er svo auðvelt að slá ryki í augu fólks. Annaðhvort er þetta gert af þekkingarleysi eða þetta er vísvitandi gert í pólitískum tilgangi. Dæmin eru fjölmörg eins og ræðurnar sanna. Það er þetta sem ég er að vitna til.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getur svo reynt að slíta þetta úr samhengi og skammað mig fyrir að ég skuli gera lítið úr almenningi, fjölmiðlum og þingmönnum. Þetta er ekki meint þannig. Þetta er meint sem málefnaleg gagnrýni sem er rökstudd, meðal annars með því sem ég fer hér yfir. Dæmin (Forseti hringir.) tala fyrir sig. Það hljóta allir að vera sammála um fjölmiðlaumræðuna um þetta mál. (Forseti hringir.) Ég er ekkert að kikna undan henni, alls ekki. (Gripið fram í.)