142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kannast við það að hafa gagnrýnt hagsmunatengsl þingmanna og sagt að þeir væru ekki hæfir til að fjalla um mál. Ég bið hv. þingmann að hugleiða hvernig færi fyrir okkur ef við ættum að leita eftir því í öllum málum sem þingið fjallar um. Það er útilokað og það vita allir, enda hefur alveg sérstaklega verið fjallað um þetta mál. Auðvitað eru þingmenn margir hverjir meðal annars kosnir á þing vegna hagsmunatengsla. Ég er til dæmis alveg viss um að fjöldi fólks úr Slysavarnafélaginu Landsbjörg studdi mig í kosningum inn á þing. Ég var hér framsögumaður að máli sem færði þeim samtökum 250 milljónir í endurbætur á björgunarbátum á síðasta þingi.

Hefði ég getað fjallað um þetta mál? Við getum endalaust farið í þennan leik.

Varðandi opna fundi hélt nefndin opinn fund. Að sjálfsögðu urðum við við þeirri beiðni að halda opinn fund fyrir fréttamenn, en það er fráleit hugmynd að allir nefndarfundir ættu að vera opnir. Ég man reyndar ekki eftir því að einn einasti nefndarfundur hafi verið opinn þegar við fjölluðum um þessi stóru mál á sínum tíma og voru þau þó stærri að umfangi og með meiri áhrifum en það sem við erum að leggja hér fram núna sem viðgerð á máli til eins árs. Við fengum ekki einu sinni þá málsmeðferð að geta leitað eftir utanaðkomandi áliti í fyrravor. Við fengum ekki að kalla fyrir okkur gesti á fund o.s.frv. Það er lengi hægt að telja.

Ég tel að við eigum að reyna að vanda okkur í þessu máli eins og öðrum en við getum ekki haft alla nefndarfundi opna um (Forseti hringir.) það sem okkur finnst vera mikilvæg mál á hverjum tíma.