142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður atvinnuveganefndar hefur í auðmýkt sinni rétt fram sáttarhönd og auðveldað vinnu í nefndinni og lagt mat sitt á ræður manna í þessari umræðu. Það væri gaman fyrir mig sem 1. varaformann nefndarinnar að vita hvaða einkunn ég fengi að mati hans í ræðu minni þar sem hann er að gefa umsagnir um af hversu mikilli þekkingu ræðurnar hafa verið fluttar og um hversu litla þekkingu á sjávarútvegsmálum almenningur í landinu hefur. Það hefur verið dálítið viðloðandi umræðuna að hræða fólk frá umræðunni um sjávarútvegsmál með því að þau séu svo flókin og ekki fyrir hvern sem er að setja sig inn í málin og reynt að gera lítið úr fólki þegar það tekur þátt í þeirra umræðu. Þetta er auðvitað ákveðin aðferð til þess að hræða fólk frá lýðræðislegri þátttöku í stjórnmálum almennt og er mjög varasamt að tala þannig til fólks þegar það tekur þátt í umræðum um málefni sem skipta okkur öll máli, að hræða það með því að í gangi sé vanþekking og fáfræði og málin séu svo flókin.

Ég vil spyrja hv. formann atvinnuveganefndar hvernig hann sjái fyrir sér hægt sé að mæta því mikla tekjutapi sem fylgir þessari lækkun á veiðigjaldi, hvort það séu einhverjar tillögur og hvernig hann sjái fyrir sér að ríkissjóður geti mætt því mikla tekjutapi sem blasir við.