142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[22:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það tæki meira en tíu mínútur að fara rækilega yfir sögu úreldingar- og framsalsmála í sjávarútveginum þó að það væri áhugavert í sjálfu sér. Ég held að öllum hafi verið ljóst um áratugaskiptin 1990/1991 að talsverðar breytingar þurftu að eiga sér stað í sjávarútveginum. Við vorum með of stóran fiskiskipastól. Sjávarútvegurinn hafði gengið í gegnum mjög erfið ár og úreldingarreglurnar, takmarkanir á stærð fiskiskipaflotans, skiluðu ekki þeim árangri sem sjáanlegt var að mundi úr þeirri áttinni laða fram nauðsynlegar breytingar með nægjanlegum hraða. Þess vegna var farið í ýmsar aðgerðir í þeim efnum.

Þetta gerðist í kjölfar þess að menn höfðu bæði þurft á árunum á undan að draga saman aflann og ekki síður hins að íslenskur sjávarútvegur var nánast gjaldþrota haustið 1988; hann var að stöðvast eins og önnur útflutningsstarfsemi í landinu. Það er nefnilega þannig, herra forseti, svo merkilegt sem það er, að það hefur komið í hlut undirritaðs oftar en einu sinni að taka við þrotabúum Sjálfstæðisflokksins og samstarfsmanna hans í ríkisstjórn. Ástandið var nú ekki björgulegt haustið 1988 þegar eitt stykki ríkisstjórn sprakk í loft upp af því að hún kom sér ekki saman um neinar ráðstafanir til að halda útflutningsstarfseminni í landinu gangandi.

Þegar staða sjávarútvegsins var kortlögð á mánuðunum þar á eftir kom í ljós að nánast þurfti að endurfjármagna frá grunni stærstan hluta sjávarútvegsins í landinu. Það var nú ekki betra en það ástandið eftir hina heimskulegu fastgengisstefnu sem keyrði sjávarútveginn áfram á föstu gengi í bullandi verðbólgu þangað til hann var búinn að þurrka upp allt eigið fé og stór hluti fyrirtækjanna var að fara á hliðina. Hvað var gert? Það var farið í viðamiklar aðgerðir til að endurfjármagna öll lífvænleg fyrirtæki, settir á fót tveir sjóðir, Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingasjóður, sem lögðu fram hlutafé og lánuðu rekstrarlán inn í greinina og það tókst að bjarga henni. Að uppistöðu til tókst að fleyta fyrirtækjunum áfram. Þessi aðgerð tókst mjög vel. Hún tókst svo vel að þegar ríkið á árunum upp úr 1990, eða á bilinu svona 1992–1995, seldi hlut sinn úr Hlutafjársjóði fékk það yfirleitt fullt verð til baka og hagnaðist meira að segja í mörgum tilvikum. Þetta var að vísu kallað sjóðasukk af ríkisstjórninni sem tók við undir forustu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra.

Ég nefni þetta hér vegna þess að menn verða líka að skoða þær breytingar sem þarna var verið að ráðast í í samhengi við þessa hluti, hver staða greinarinnar var. Það var ekkert um annað að ræða en að búa til svigrúm fyrir hana til að hagræða í rekstrinum og ná meiru út úr fjárfestingunum, minnka skipastólinn o.s.frv.

Það fer svo að ágerast þegar á líður tíunda áratuginn, herra forseti — það er alveg rétt, þá voru menn sofandi og andvaralausir gagnvart því að takast á við það, ef menn ekki vildu bara stöðva framsalið eða takmarka það hefði að sjálfsögðu átt með skattalegum aðferðum að reyna að gera þann viðbótargróða upptækan. Því var reyndar hreyft með ýmsum hætti á þessum árum.

Varðandi það að við höfum sérstaklega hyglað stóru uppsjávarfyrirtækjunum — og svo liggur við að hv. þingmaður sé að læða því að að kannski hafi landafræðin spilað aðeins inn í þetta og að um sum kjördæmi hafi meðvitað verið farið mýkri höndum en önnur. Þetta er nú dálítið gaman. Hvernig urðu tölurnar til í álagningu sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013? Var það ekki þannig að það var stjórnarandstaðan sem með málþófi stöðvaði framgang mála hér vikum saman og svo voru harðar samningaviðræður þar sem stjórnarandstaðan krafðist þess að veiðigjöldin yrðu lækkuð gegn því að hún léti þá af málþófi sínu og frumvarpið fengi að fara í gegn? Þannig var samið um þinglok rétt um 20. júní 2012, ætli ég muni það ekki? Þannig að það var nefnilega akkúrat ekki þannig. Ég var einmitt sérstaklega ósáttur við hversu veiðigjaldið á uppsjávarhlutann var pínt niður vegna þess að ég vissi vel að afkoman bauð upp á meiri greiðslur. (Gripið fram í.) — Já, já, það er trúlegt, en ætli ég megi nú ekki að minnsta kosti bera vitni sem einn af þátttakendunum. Við skulum þá kalla upp á dekk hina sem í þessu stóðu aðallega, t.d. þáverandi þingmann, Bjarna Benediktsson. Okkar áform stóðu til annarra hluta eins og kunnugt er.

Svo er rétt að hafa í huga að á þeim tíma lágu ekki fyrir opinber gögn um að afkomumunurinn væri jafn mikill og hann er orðinn nú, að sjálfsögðu ekki, vegna þess að það hefur dregið í sundur. Það er fyrst þegar við fáum grunninn og verðvísitölu sjávarútvegsins, afkomuna 2011 í uppsjávarveiðunum, og framreiknum hana með verðvísitölu uppsjávarveiða til dagsins í dag eða aprílloka að við sjáum hversu mikið hefur dregið þarna í sundur. Hann hefur ágerst mjög munurinn á þessu ári sem liðið er síðan þetta var. Á sama tíma hafa bolfisksverðin lækkað og verðvísitala þar farið niður. Það er því fullkomlega skiljanlegt að þarna breikki bilið mjög hratt. Það er alveg rétt, ég hef mörgum sinnum tekið undir það, að hreyfingin í frumvarpinu er að sjálfsögðu í rétta átt, að leggja meira á uppsjávarveiðarnar og minna á botnfiskinn, en fyrr má nú gagn gera.

Varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi og goðsögnina og sönginn um það að það hafi allar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi stöðvast vegna óvissunnar um fiskveiðistjórn — þetta var nú einn áróðurinn. Ég man ekki hvort það voru keyptar sérstaklega tugmilljarða auglýsingar fyrir þetta, en mikið var nú sungið um þetta. Hver ætli sé svona veruleikinn eða hvernig sé ég hann fyrir mér?

Hann er í fyrsta lagi sá að efnahagur sjávarútvegsfyrirtækjanna var að uppistöðu til í rúst við hrunið — við hrunið, hv. þm. Jón Gunnarsson, ekki svokallað hrun, það varð nefnilega hrun á Íslandi. Þau voru í engum færum til þess fyrstu mánuðina og missirin þar á eftir að fara að ráðast í stórar fjárfestingar, eðlilega ekki. Í öðru lagi var bankakerfið í landinu ekki starfhæft, það þurfti að koma því á fót og fjármagna það þannig að það gæti farið að sinna hlutverki sínu gagnvart viðskiptavinum sínum að þessu leyti.

Í þriðja lagi var það þannig að stjórnendur þessara fyrirtækja, brenndir af reynslunni, lögðu almennt mikla áherslu á að nota afkomubatann til að greiða niður skuldir. Skiljanlega, því sjávarútvegurinn var að meðaltali með neikvæðan höfuðstól. Menn gera nú ekki stórar kúnstir við slíkar aðstæður. Að breyttu breytanda var þetta þannig hjá stærstum hluta fyrirtækjanna að eina vitið var að greiða niður skuldir þegar afkoman fór batnandi. Það gerðu fyrirtækin eðlilega. En þar með byrjar auðvitað að byggjast upp fjárfestingargeta.

Ég fullyrði að þessi meinta óvissa sem menn veifuðu alltaf sem ástæðunni fyrir því að sjávarútvegurinn væri ekki farinn á blússandi ferð í fjárfestingum var áróður og ekkert annað en áróður, að minnsta kosti hvað árin 2009 og árin 2010 snertir. Þá voru það aðrar ástæður sem augljóslega voru þess valdandi að sjávarútvegsfyrirtækin, með mjög fáum undantekningum, voru ekki að fjárfesta. (Gripið fram í.) Þá fóru þau að fjárfesta, hv. þingmaður. Þá gerðist það nefnilega (Gripið fram í.) í þó nokkrum mæli. Það þýðir ekkert að segja draugasögur í björtu. Fyrstu vikurnar eftir að ég tók aftur við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, á öndverðu ári 2012, heimsótti ég til dæmis nokkur fyrirtæki, bæði norðan og sunnan heiða, og hvað voru menn að gera? Menn leiddu mig stoltir um húsin sín og sýndu mér nýju og fínu fiskvinnsluvélarnar sem þeir hefðu verið að kaupa. Ég horfði á stærsta lausfrysti Evrópu rísa í mínum heimabæ, á Þórshöfn, og um það bil sem hann kom í gagnið og nýju vinnslulínurnar lagðist nýja Heimaey þar að, hún var að vísu pöntuð löngu áður. Á Norðfirði voru miklar fjárfestingar, endurnýjun vinnslulínu hjá Vísi í Grindavík og ég held bara í öllum fiskvinnslustöðvum þess fyrirtækis o.s.frv. Sem betur fer fór að lifna yfir þessu strax á árinu 2011, en það voru engar forsendur til þess fyrr.

Ég tel því að það hafi verið stórkostlega ofnotað í þessari umræðu að óvissa um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar eða veiðigjalda hafi verið úrslitaþátturinn. Það var hrunið. Það var ónýtur efnahagsreikningur stórs hluta fyrirtækjanna. Það var ástandið í bankakerfinu. Það var óvissa um skuldir margra þessara fyrirtækja meðan ekki var kominn botn í lögmæti lána eða að hvaða marki þau fengju úrlausn samkvæmt þeim skuldaniðurfellingarúrræðum sem bankarnir mótuðu á öndverðu ári 2010. Þessir hlutir voru ekki að skýrast fyrr en kom inn á árið 2011. Sumpart ekki einu sinni almennilega það, samanber lögmæti tiltekinna erlendra lána. Það er nú veruleikinn að mínu mati en ekki áróðurinn um hið gagnstæða varðandi þessar fjárfestingar.

Síðan er það alveg augljóst að það hefur byggst upp mjög mikil fjárfestingargeta með þessari hröðu niðurgreiðslu skulda og stórbættum efnahag fyrirtækjanna. Það er ánægjulegt. Við skulum vona að þess fari að sjást stað í kröftugri sókn greinarinnar. Ég hef að sjálfsögðu engar áhyggjur af því hér innan lands, að það muni gerast. Ef það væri eitthvað sem ég hefði áhyggjur af fyrir hönd íslensks sjávarútvegs núna væru það fyrst og fremst markaðsmálin og það hvernig okkur á eftir að reiða af í þeim efnum, hvernig efnahagsástandið þróast í heiminum og hvernig okkur gengur að mæta harðnandi samkeppni, til dæmis á bolfisksmörkuðunum, vegna aukinna veiða í Barentshafi o.s.frv.