142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[22:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið er ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins og hefur sérstöku hlutverki að gegna varðandi lýðræðishlutverkið, þ.e. að flytja óháða fréttaumfjöllun, miðla íslenskri menningu af fjölbreytilegu tagi og hafa forustu á sviði innlendrar dagskrárgerðar. Þetta hlutverk hefur alltaf verið fyrir hendi en lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins er enn þýðingarmeira nú fyrir íslenskt samfélag eftir allt það sem á undan er gengið í þjóðfélaginu.

Margir telja að tilveruréttur ríkisfjölmiðla í framtíðinni muni byggjast á því að þeir tryggi almenningi hlutlæga og áreiðanlega fjölmiðlaþjónustu. Þetta á sérstaklega við þegar framboð misáreiðanlegra upplýsinga á netinu eykst sífellt. Skilin milli hlutdrægra upplýsinga og frétta verða óljósari þar sem upplýsingar og fréttir eru beinlínis taldar vera verslunarvara.

Sú tillaga sem er í núgildandi lögum um valnefnd sem síðan skipar fulltrúa í stjórnina er til mikilla bóta fyrir lýðræðið. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur talað um að eðlilegt sé að Alþingi skipi stjórnina til að tryggja gegnsæi. Ég spyr mig: Las ráðherrann ekki rannsóknarskýrslu Alþingis? Í þeirri miklu skýrslu var samþjöppun valds og spillingar dregin fram í dagsljósið og meðal annars rakið að hið pólitíska vald og einræði væri hluti af því að kerfið brást.

Það kemur einnig fram í 8. bindi rannsóknarskýrslunnar þar sem fjallað er um íslenska fjölmiðla fyrir hrun og segir þar, með leyfi forseta:

„Öflugir sjálfstæðir fjölmiðlar skapa þannig forsendur fyrir upplýsta almenna umræðu sem er grundvallaratriði í lýðræðisríki. Meginkrafan sem gera verður til fjölmiðla varðar faglega framsetningu frétta, hlutlægni þeirra og sanngirni.“

Í því frumvarpi sem samþykkt var hér ekki fyrir alls löngu er sú skylda lögð á herðar Ríkisútvarpinu að það sjái til þess að útsendingar þess nái til allra landsmanna án tillits til búsetu og efnahags og er það eini fjölmiðillinn sem býr við þá kvöð. Þá er kveðið á um að dagskrárefni þess skuli vera fjölbreytt og að stjórn Ríkisútvarpsins móti dagskrárstefnu til lengri tíma. Í því felst að hún taki í stórum dráttum afstöðu til þess hvernig eigi að koma til móts við þarfir og óskir notenda um fjölbreytt og gott efnisframboð án þess að hafa afskipti af einstökum dagskrárliðum.

Við vitum að einhæft framboð í fjölmiðlum verður til þess að hætta er á að þeir missi gildi sitt og sérstöðu og nái ekki til fjöldans.

Við samningu núgildandi laga var miðað við þá grundvallarforsendu að hverju lýðræðissamfélagi sé nauðsynlegt að reka fjölmiðil sem á engan hátt þarf að gæta neinna annarra hagsmuna en þeirra að stuðla að upplýstri umræðu af hlutlægni.

Þau lög sem voru sett á vordögum eru til þess fallin að efla lýðræðislega starfshætti RÚV. Þar er tónninn gefinn um þá forsendu að opinbert félag sem á að gegna veigamiklu hlutverki við að efla og viðhalda lýðræðinu í landinu verði þar af leiðandi að starfa með lýðræðislegum hætti. Með því verður dreifing ábyrgðar og samráð um dagskrána með aðkomu starfsmanna og notenda eðlilegt.

Ef við tryggjum ekki sjálfstæði Ríkisútvarpsins erum við um leið að koma í veg fyrir getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu, fjölmiðlaþjónusta sem á að vera fær um að veita stjórnvöldum á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald, vera vettvangur skoðanaskipta og vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum gæti mislíkað. Eitt helsta markmið frumvarpsins sem samþykkt var í vor var að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi.

Vel var vandað til verka er varðar þá tillögu sem hér á að reyna að breyta. Starfshópur skilaði, eftir góða yfirlegu, tillögu að fyrirkomulagi við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra menningarmála tilnefni einn fulltrúa sem verði formaður stjórnar. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn fulltrúa í stjórn en aðrir stjórnarmenn, fimm að tölu, verði tilnefndir af svokallaðri valnefnd sem er skipuð fulltrúum Alþingis, Bandalags íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins.

Það er ekki eins og hið pólitíska vald sé án algerra afskipta. Hér virðast menn hins vegar vilja hafa hina pólitísku krumlu, þessa bláu hönd, allsráðandi (Gripið fram í.) og telja sig mun hæfari til að stýra þessari mikilvægu stofnun. Ég tel það ekki forgangsatriði, hv. þm. Birgir Ármannsson, að Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn hafi meirihlutavald í RÚV. Það er mín skoðun. (BÁ: Hvað er …?) Ég bið hv. þingmann að fara í pontu og ræða við mig þannig. (Gripið fram í: Hvernig er reglan núna?)

Þetta er enn eitt dæmið um afturhvarf til fortíðar af hálfu núverandi hægri stjórnar, við ætlum að hafa töglin og hagldirnar í samfélaginu hvar sem því verður viðkomið, sú er meiningin. Svo talar fólk um samvinnu og samráð. Ég get ekki séð að því sé fyrir að fara í því mikla forgangsmáli sem hér er á ferðinni hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Virðulegi forseti. Samsetning valnefndarinnar er ekki út í bláinn. Hlutverk hennar samkvæmt frumvarpinu tryggir að til stjórnarsetu veljist fólk sem hefur fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins og ekki síst meginmarkmiðum þess. Við erum ekki ein um slíkt fyrirkomulag og getum meðal annars horft til nágranna okkar sem bentu á að mjög mikilvægt væri að í stjórn almannaþjónustumiðils sæti góð samsetning af fólki þar sem ekki væri einhæf reynsla undir, heldur kæmi saman ólík þekking og hæfni sem mundi nýtast til þess að skipa stjórn eins og best yrði á kosið.

Allar umsagnir sem allsherjar- og menntamálanefnd bárust voru neikvæðar nema ein — og það má velta því fyrir sér hvers vegna útvarpsstjóra þyki í lagi að starfsmenn hans hafi ekki aðkomu að stjórn. Í umsögn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Með setningu laga nr. 23/2013, um stjórn Ríkisútvarpsins og skipan hennar, var það talið til bóta að fulltrúi starfsmanna fengi sæti í stjórn, til að fylgjast með og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta starfsmenn fyrirtækisins. Með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er ljóst að þessum endurbótum verður snúið við. Það harmar stjórn Starfsmannasamtakanna og bendir enn fremur á að nú þegar er búið að kjósa fulltrúa starfsmanna í stjórn Ríkisútvarpsins, samkvæmt gildandi lögum.“

Fagleg sjónarmið og rök virðast skipta litlu hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Mér finnst og ég tel það skipta miklu máli í nútímaþjóðfélagi að starfsmenn sitji í stjórninni, jafnvel þótt þeir hafi þar ekki atkvæðisrétt, sem ég tel reyndar ekki heppilegt, en hafi þar málfrelsi og tillögurétt sem er afar mikilvægt og eiginlega með ólíkindum að starfsfólki RÚV sé boðið upp á þessa vitleysu.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna gagnrýnir einnig frumvarpið og þar segir, með leyfi forseta:

„Það að skipa pólitíska stjórn með slíkt hlutverk er fáheyrt og brýtur í bága við öll meginsjónarmið í nágrannalöndum okkar, þar sem áhersla er lögð á eldvegg milli hins pólitíska valds og dagskrárvalds ríkisfjölmiðils. Það sjónarmið, hins vegar, að efla dagskrárlegt vald stofnunarinnar er komið til af þeirri þörf að stofnunin standi sterk faglega og að stjórn hennar sé komin undir hæfum einstaklingum á fjölbreytilegum sviðum menningar, en ekki bara einum útvarpsstjóra.“

Það skýrir kannski viðhorf útvarpsstjóra. Ekki veit ég það.

Framlagning þessa frumvarps nú er enn merkilegra í ljósi þess að við atkvæðagreiðslu um frumvarpið í vor, eins og hér var rakið áðan, greiddu 35 atkvæði með samþykkt þess og einungis fjórir voru á móti. Sú breyting sem hér er verið að leggja til stefnir í hættu því lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverki sem Ríkisútvarpinu er ætlað.

Virðulegi forseti. Við eigum að draga lærdóm af því sem kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og, með leyfi forseta, kemur þar fram:

„Leita verður leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar.“

Ég tel að með því frumvarpi sem var samþykkt í vor höfum við stigið stór skref og tekið á þeirri niðurstöðu og þeim athugasemdum sem lagðar voru til í skýrslunni. Því treysti ég því að í áframhaldi þessa máls snúi ríkisstjórnin af þessari braut, finni hjá sér einhvern annan tilgang en þessi pólitísku yfirráð. Mér finnst þetta ekki vera neitt annað og það hefur komið fram í umræðunni. Það hefur líka komið fram í gagnrýni og athugasemdum.

Það er líka afar áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikið fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna er dreginn inn í þetta og ég velti því fyrir mér ef einhver annar hefði verið formaður Bandalags íslenskra listamanna hvort umræðan hefði verið með öðrum hætti, þ.e. að þá hefði verið horft til faglegra sjónarmiða og þekkingar þeirrar sem þar er rætt um frekar en hvar hún stóð í pólitík.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta í þessari umræðu en vona, eins og ég segi, að ríkisstjórnin beri gæfu til að snúa af þessari leið sem hér er lögð til.