142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[22:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir því að þó að ég sé harðlega andsnúinn þessu frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar hefur það eigi að síður í einu veigalitlu atriði breyst til batnaðar. Það varðar stöðu starfsmanna. Ég átti orðastað við hv. þm. Vilhjálm Árnason fyrr í þessari umræðu og einnig við hæstv. menntamálaráðherra. Ég sagði mjög skýrt að það yrði alla vega til að lægja öldur í kringum frumvarpið ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins drægjust á að ræða millum umræðna hvort unnt væri að gera hlut starfsmanna örlítið veigameiri. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason tók vel í það og saman tel ég að við höfum haft áhrif á hæstv. menntamálaráðherra sem í þeirri umræðu féllst á að það yrði tekið aftur til umræðu í nefndinni. Það var gert og fyrir liggur þá að minnsta kosti sú breytingartillaga frá meiri hluta ríkisstjórnarinnar að starfsmenn fái áheyrnaraðild. Það skiptir máli. Það breytir ekki afstöðu minni til frumvarpsins en ég vil alla vega þakka fyrir að menn hafi að minnsta kosti hlustað á rökin sem fyrir því voru færð. Ég tel að það sé snöggtum til bóta að starfsmennirnir hafi þau áhrif og að það veiti tilvonandi stjórn Ríkisútvarpsins ákveðið aðhald.

Hins vegar verð ég líka að segja, og hryggja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, að ég er honum ósammála þegar hann ræðst harkalega á þá þingmenn Framsóknarflokksins sem þó sitja undir þessari umræðu. Nota bene, þeir eru allir nýir. Það er ekki hægt að áfellast þá fyrir það að Framsóknarflokkurinn hefur algjörlega skipt um skoðun í þessu máli. Hins vegar er hægt að áfellast aðra þingmenn Framsóknarflokksins sem á sínum tíma fetuðu ekki einu sinni þá slóð sem núverandi hæstv. menntamálaráðherra gerði, hann sat hjá eins og kunnugt er. Framsóknarflokkurinn studdi málið. Ég held að það séu einn eða tveir núverandi ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn sem studdu málið og einn þeirra flutti málið á sínum tíma, muni ég rétt. Framsóknarflokkurinn skuldar því skýringu á viðsnúningnum og þá er ég að tala um gamla Framsóknarflokkinn. Mér finnst það heldur óviðeigandi, jafnvel óviðkunnanlegt, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins láti þessa umræðu að öllu leyti fram hjá sér fara án þess að skýra sinnaskiptin.

Hvorki þeir né hæstv. núverandi menntamálaráðherra létu þetta mál sig nokkru varða í aðdraganda kosninganna. Um þetta var ekki kosið. Eigi að síður verð ég að segja að það er nauðsynlegt að heill stjórnmálaflokkur, sem svo skyndilega breytir um afstöðu í máli sem hefur alltaf varðað hann mjög mikið skýri breytinguna. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf tekið sig mjög sterklega að Ríkisútvarpinu og stundum staðið vörð um hagsmuni þess. Í því ljósi er eðlilegt að flokkurinn sé krafinn skýringa. Ef ég væri í sporum jafn harðvítugs baráttumanns og andstæðings þessa frumvarps og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er mundi ég krefjast þess að þessari umræðu yrði ekki slotað öðruvísi en að þeir kæmu hingað og gerðu grein fyrir máli sínu.

Hv. þingmaður leitaði ýmissa skýringa á því af hverju Framsóknarflokkurinn taki ekki til máls. Ég held að skýringin liggi algjörlega í augum uppi. Framsóknarflokkurinn skammast sín í þessu máli. Ástæðan fyrir því er sú sem ég nefndi hér áðan að Framsóknarflokkurinn hefur alltaf verið í röðum hollvina Ríkisútvarpsins. Hann hefur viljað halda því sem öflugum ríkismiðli, hann hefur algjörlega andæft þeim skoðunum sem hafa heyrst, ekki síst hjá hinum nýrri armi Sjálfstæðisflokksins, að Ríkisútvarpið ætti hugsanlega að leggja niður. Mér hefur stundum virst að hv. þm. Brynjar Níelsson til dæmis sé skuggalega nærri þeirri skoðun og ef ég hef rangt fyrir mér þá er ég viss um að hann leiðréttir mig hérna.

Ástæðan fyrir því að þetta er niðurstaðan millum stjórnarflokkanna er auðvitað hrossakaup. Þegar við horfum yfir sögu Sjálfstæðisflokksins — og þetta veit ég að hv. þm. og þingflokksformaður Ragnheiður Ríkharðsdóttir kannast vel við — þá hefur það alltaf verið úrslitakrafa hjá Sjálfstæðisflokknum í öllum stjórnarmyndunum, og ég hef myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum, að komast yfir menntamálaráðuneytið. Ástæðan er ekki síst sú að þeir hafa jafnan talið það mjög mikilvægt til þess að geta haft sem mest tök á Ríkisútvarpinu. Þannig er saga Sjálfstæðisflokksins. Það er hægt að fara yfir hana, þó að ég ætli ekki að gera það í þessari ræðu og sýna fram á það, með því að vísa í söguleg dæmi, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið sitt eigið fólk í lykilstöður, jafnvel undirbúið það vel og stundum jafnvel flæmt fólk vegna skoðana sinna frá Ríkisútvarpinu. (Gripið fram í.) — Jóhann heiti ég Hauksson.

Dæmin eru því miður til staðar. Ef við skoðum sögu lýðveldisins okkar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í 51 af 69 árum í ríkisstjórn og hann hefur alltaf lagt allt kapp á að komast í menntamálaráðuneytið til að ná pólitískum tökum á Ríkisútvarpinu. Það er akkúrat það sem er að gerast hér núna. Það vill svo til að í þessum þingsal situr nú einn af hinum nýju þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem er ærlegri en margir aðrir í þeim röðum. Hann hefur farið giska langt með að segja þetta hreint út. Hv. þm. Brynjar Níelsson hefur skrifað og sagt nokkuð skýrt að því betra sé Ríkisútvarpið sem færri vinstri menn séu þar starfandi. Hann segir það upphátt sem forusta Sjálfstæðisflokksins hvíslar sín á milli.

Þetta eru hrossakaupin. Sjálfstæðisflokkurinn, við myndun þessarar ríkisstjórnar augljóslega eins og svo oft áður, lagðist á þessa sveifina og hefur fengið Framsóknarflokkinn til að fallast á þessa skipan mála þó að ekki séu liðnir nema röskir þrír mánuðir frá því að Framsóknarflokkurinn fylgdi allt öðru viðhorfi og allt annarri stefnu. Það var kannski fyrst og fremst þetta sem ég vildi bæta við, fyrir utan að segja að þakka ber það sem hefur batnað, að ég væri ánægður með það tillit sem tekið er til starfsmanna. Ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er eftir alla sína þátttöku í pólitík svo grænn að hann skilji ekki að þetta er málið, þetta er ástæðan, þá er ég hissa á hv. þingmanni. Ef þetta er rangt hjá mér þá veit ég að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ef þeir treysta sér til að mótmæla þessum fullyrðingum mínum, koma hingað og hafna þeim. Ef þeir gera það ekki tel ég að sú þögn sé í reynd yfirlýsing um samþykki á mínu máli. Kemur það svo mönnum eins og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni eða öðrum í þessum sal á óvart að Framsóknarflokkurinn láti kúga sig í þessu máli? Nei.

Ef við horfum yfir sögu þessa sumarþings og þeirra mála sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram blasir það við í hverju málinu á fætur öðru að Framsóknarflokkurinn hefur verið beygður. Framsóknarflokkurinn fór til dæmis ekki fram með nokkru offorsi í veiðigjaldsmálinu sem við höfum rætt hér í nokkra daga. Það er að vísu svo að hingað kom í pontu einn af þingmönnum Framsóknarflokksins og játaði það ærlega að hann liti svo á að hann væri hér staddur sem fulltrúi útgerðarmanna, en ef maður skoðar stefnu Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni þá kom þetta hvergi fram. Ef maður rýnir til dæmis ályktanir landsfundar Framsóknarflokksins þá er hvergi að sjá neitt í þeim sem bendir til þess að það sé eitthvert kappsmál hjá Framsóknarflokknum að reyna að lækka veiðigjaldið. En það var kappsmál hjá einum flokki. Það var einn flokkur sem sagði þetta aftur og aftur í kosningabaráttunni, sem í sumum kjördæmum setti lækkun veiðigjalds á oddinn. Það var Sjálfstæðisflokkurinn.

Við getum líka borið saman yfirlýsingar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hér á dögunum rétt eftir myndun ríkisstjórnarinnar og efndir þeirra. Hún gaf ansi skýr loforð um hvers eðlis þau frumvörp yrðu sem hún hygðist leggja fram til að taka aftur þær skerðingar sem fyrri ríkisstjórn var nauðbeygð til að ráðast í beint bak efnahagshruninu. Nú, við vissum það og áttum um það orðastað, ég og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, af hverju það frumvarp kom svo seint fram. Ástæðan var sú ein að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn frumvarpinu eins og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vildi leggja það fram á sínum tíma. Það var það sem dvaldi orminn langa töluvert lengi í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Þegar upp var staðið og frumvarpið kom fram kom í ljós að í því fólst minna en helmingurinn sem þurfti til að efna þau loforð sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafði lagt fram.

Ég styð eigi að síður það frumvarp og finnst það jákvætt, það er þó skref. En loforðið var öðruvísi. Við þekkjum líka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra af störfum hennar hér í þinginu. Við vitum alveg hversu einörð hún er í því og hversu mikill styrkur er í hennar huga á bak við yfirlýsingar hennar um að bæta kjör aldraðra og öryrkja. En það varð ekki af fullum efndum, sem aftur undirstrikar þá niðurstöðu sem ég lyfti hér áðan að forusta Framsóknarflokksins hafi einfaldlega ekki nægilega styrk hné þegar hún stendur andspænis Sjálfstæðisflokknum. Það er að koma fram munstur hér í hverju málinu á fætur öðru. Hæstv. fjármálaráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem nú er nánast genginn í salinn, tekst einfaldlega að svínbeygja Framsóknarflokkinn í hverju málinu á fætur öðru. Og hvað er það sem Framsóknarflokkurinn fær í staðinn? Jú, hann fær að leggja fram tillögu um sitt helsta kosningamál, skuldaniðurfærslu, þar sem hæstv. fjármálaráðherra leyfir hæstv. forsætisráðherra allra náðarsamlegast að setja á fót nokkrar nefndir. Og hæstv. fjármálaráðherra ætlar svo af sinni miklu miskunn og mildi að leyfa sérfræðingum sínum að skoða þar ákveðnar niðurstöður. En við vitum það hins vegar að hinir ungu Tyrkir — eða við skulum frekar segja með tilliti til aldurs viðkomandi, hinir nýju Tyrkir þingflokks Sjálfstæðismanna, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason og nokkrir aðrir, hafa lagst algjörlega þvert gegn þeirri niðurstöðu sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hann vilji fá út úr málunum.

Frú forseti. Því segi ég það að skýringin á því að Framsóknarflokkurinn treystir sér ekki til að koma hingað í ræðustólinn og verja það að hann hefur algjörlega skipt um skoðun er sú að hann hefur látið pína sig til hrossakaupa um öll mál nema eitt og það var þingsályktunartillaga hæstv. forsætisráðherra þar sem honum er skammtað ákaflega naumt úr hnefa. Það sem hann fær í staðinn fyrir þetta, að leggjast á hnén fyrir forustu Sjálfstæðisflokksins, er að fá sín mál skoðuð í nokkrum nefndum. Það er ástæðan fyrir skoðanaskiptum Framsóknar í því máli sem við ræðum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, ég tel að hún sé nú þegar orðin fulllöng fyrir eyru og hlustir hv. þingmanna Framsóknarflokksins. En ég vil taka undir áskorun hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar til þeirra þingmanna Framsóknarflokksins sem hér voru á dögum fyrir kosningar að þeir komi og geri hreint fyrir sínum dyrum. Að þeir geri að minnsta kosti tilraun til að færa einhvers konar vísi að málefnalegum rökum fyrir þeim sinnaskiptum sem hafa orðið á afstöðu þeirra og eru snöggtum dýpri en þau sem Sál varð fyrir þegar hann var leiftri lostinn á leiðinni til Damaskus forðum.