142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék nokkrum orðum að mér og ræðu minni áðan og ég tel nauðsynlegt að bregðast aðeins við því sem hv. þingmaður sagði. Ég var að gagnrýna að Framsóknarflokkurinn hefði ekki komið og gert grein fyrir sinnaskiptum sínum í málinu og vék einhverjum orðum að þeim hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem voru í salnum sem eru nýir þingmenn. Nú þætti mér gott að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýddi á mál mitt þannig að hann hefði tækifæri til þess að bregðast við þar sem ég er í andsvari við hv. þingmann. Ég vék nokkrum orðum að Framsóknarflokknum og þeim sem voru í salnum sem voru allt nýir þingmenn og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að það ætti að krefja gamla Framsóknarflokkinn svara. Ég lít ekki svo á að Framsóknarflokkurinn á þessu kjörtímabili sé einhver annar en sá sem var hér á síðasta kjörtímabili. Það er ekkert gamli Framsóknarflokkurinn sem var hér á síðasta kjörtímabili, það er að sjálfsögðu sami Framsóknarflokkurinn og hann á að svara fyrir þessi skoðanaskipti sín.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri pólitík hjá Sjálfstæðisflokknum að vilja yfirráð yfir Ríkisútvarpinu. Jú, að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því og hv. þingmaður sagði að það hefði verið markmið hjá Sjálfstæðisflokknum í hverri ríkisstjórn sem hann færi í að fá menntamálaráðuneytið. Það er örugglega alveg rétt en það undrar mig þá að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem í tvígang hefur myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, 1991 og 2007, skyldi láta Sjálfstæðisflokknum eftir menntamálaráðuneytið þegar hann vissi svo glöggt hver tilgangur þeirra væri með að ná yfirráðum yfir því ráðuneyti.