142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er nú hugsanlega að skapast vík á milli vina. Ef það á að ásaka mig fyrir að hafa átt einhvern þátt í því að hafa myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 1991 þá frábið ég mér þess. Hv. þingmaður á að vita það ef hann hefur stúderað söguna að það voru þrír þingmenn í þeim þingflokki, allir nýir, allir með einlægni og heiðarleika í hjarta sem fylgdu sannfæringu sinni og það fóru þrjár hendur á loft í nei-i í þingflokki Alþýðuflokksins þegar lögð var fram tillaga um myndun þeirrar ríkisstjórnar. Ég átti eina þeirra handa. Að öðru leyti tel ég að hv. þingmaður hafi í ræðum sínum horft fullþröngt nær sér og flokki sínum. Það er alveg rétt að einn af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur opinberlega orðað það, að minnsta kosti á prenti, að lítil þörf væri á því að fá forseta Bandalags íslenskra listamanna í valnefndina og sá hv. þingmaður kemur nú í gættina. Ég held ekki að það sé ástæðan fyrir þessu frumvarpi heldur að hin almenna ástæða sé sú, ekki að losna við fyrrverandi þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur úr nefndinni heldur að ná hreðjatökum á stjórn Ríkisútvarpsins. Gera það einfaldlega með þessu samkomulagi við Framsóknarflokkinn sem er augljóst, mun að sjálfsögðu skipa fulltrúa sem eru leiðitamir forustu flokkanna beggja. Það var tilgangurinn og ekkert annað.

Að öðru leyti gangast allir menn við syndum sínum, að minnsta kosti þegar þeir eru komnir á minn þingaldur, og ég skal fúslega taka á mig ábyrgðina að hafa samið um ríkisstjórn við Sjálfstæðisflokkinn ásamt þáverandi formanni Samfylkingarinnar árið 2007. Hinu neita ég alfarið.