142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af hv. þingfélaga sínum og þingbróður, Brynjari Níelssyni. Mér sýnist að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að taka hann sömu tökum og Framsóknarflokkurinn hæstv. sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra. Það er búið að líma fyrir munninn á þeim ágæta manni. Hann er hættur að tjá sig með þeim skýra og skelegga hætti sem ég og fleiri höfðum gaman af.

En það má þó segja um hv. þm. Brynjar Níelsson að þegar hann á annað borð treystir sér til að fara gegn forustu flokksins og segja það sem í hjarta hans býr er hann miklu ærlegri en forustan sjálf. Hv. þingmaður segir hreint út að hann telji að Ríkisútvarpið batni eftir því sem vinstri mönnum fækki þar. Það vill svo til að ég er þveröfugrar skoðunar. Hann þorir að segja þetta. Sjálfstæðisflokkurinn upp til hópa hugsar það og hvíslar því sín á milli. Þetta er ærlegt viðhorf, en það er rangt og það er ómálefnalegt, ég er á móti því. Ég segi það hins vegar, frú forseti, að margur útvarpsmaðurinn sem er fullhallur að sumra smekk undir Sjálfstæðisflokkinn skilar eigi að síður fínu starfi og ég treysti öllum mönnum til góðra verka á meðan þeir eru ráðnir á faglegum forsendum.

Ég var að reyna að sýna hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fram á, sem mér finnst fullglámskyggn á fortíðina og jafnvel of auðtrúa á stundum, með dæmum að Sjálfstæðisflokkurinn bæði hrekur úr starfi fjölmiðlamenn sem honum finnast óþægir í taumi og reynir að koma í veg fyrir að slíkt fólk nái fótfestu þar, eins og sagan sýnir, með því að ráða menn sem, eins og var orðað hér í fyrri umræðu, eru í lagi. Og hverjir eru í lagi? Jú, menn eru í lagi ef þeir hafa flokksskírteini frá Sjálfstæðisflokknum og fullkomnir ef þeir hafa líka unnið í Valhöll. Þetta sýnir sagan.