142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að koma hér upp vegna ræðu hv. þingmanns út af tvennu. Hann telur sig ekki vera að veitast með nokkru móti að forseta Bandalags íslenskra listamanna, konu sem sat vissulega einu sinni á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en hefur svo farið að sinna öðrum málum og ekki komið að flokksstarfi síðan hún fór af þingi fyrir fjórum árum. Hún veitir forstöðu fjögur þúsund manna frjálsum félagasamtökum sem koma Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ekkert sérstaklega við. Hv. þingmaður skrifaði pistil á vefmiðilinn Pressuna þar sem hann segir, með leyfi forseta, að lögunum hafi verið breytt í tíð síðustu stjórnar til að fá hina „ópólitísku“, innan gæsalappa hjá hv. þingmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur í stjórn Ríkisútvarpsins. Kolbrún Halldórsdóttir situr ekki í stjórn Ríkisútvarpsins heldur er hún tilnefnd sem kvenfulltrúi Bandalags íslenskra listamanna, það er líka tilnefndur karlmaður, í valnefnd þar sem ætlunin er að valnefnd með fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins, fyrir utan fulltrúa þingsins sem hefur margoft komið fram, komi sér saman um fimm manns í stjórn.

Í anda sáttastjórnmála hv. ríkisstjórnar, þeirrar sem hv. þingmaður styður væntanlega, er valnefndin til að koma sér saman um fimm aðila í stjórn sem ráðherra átti líka að skipa formann í, af því að hv. þingmanni er svo umhugað um ábyrgðina. Mér finnst dálítið sérkennilegt eftir að hafa lesið þessi skrif þar sem er auðvitað farið rangt með og því haldið fram að Kolbrún Halldórsdóttir hafi verið sett í stjórn Ríkisútvarpsins að hv. þingmaður hefur ekki leitast við að leiðrétta það í máli sínu og leitast ekki við að leiðrétta það í þeirri ræðu sem hann kemur upp í. Mér finnst það ábyrgðarhluti hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) að hann komi hér upp og svari fyrir það hvort hann telji sig hafa farið rétt með í þessari grein og í ræðu sinni (Forseti hringir.) og útskýri það ef svo er ekki.