142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að leiðrétta það við Kolbrúnu Halldórsdóttur sjálfa, þau mistök að segja að hún hafi verið í stjórn í staðinn fyrir valnefnd. Það er bara formsatriði (KJak: Þetta eru bara staðreyndir málsins.) Já, já, en þetta er ekki það sem umræðan eða pistillinn snerist um. Hann snerist um að samtök sem eru ábyrgðarlaus í sjálfu sér stjórni því hverjir verði skipaðir í stjórn. Ég verð að viðurkenna að ég tel að það væri í andstöðu við íslensku stjórnarskrána. Ég tel óeðlilegt í alla staði að verið sé að framselja vald með þessum hætti til félagasamtaka, hvaða nafni sem þau nefnast, þótt það hefði verið Íþróttasamband Íslands, Blaðamannafélagið eða Landsbjörg, mér er alveg sama. (Gripið fram í.) Ja, kannski ætti að skoða það aðeins betur. Ég er bara að segja að ég hef ekki mikinn húmor fyrir því að verið sé að færa vald með þessum hætti vegna þess að ábyrgðin verður þá óljósari og erfiðara fyrir þann sem ber auðvitað ábyrgð á endanum, ráðherrann, að bera hana ef hann hefur ekkert eða lítið um það að segja hverjir stjórna þessari stofnun eða fyrirtæki.