142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð nú að taka undir lokaorð síðasta ræðumanns. Það er alveg stórkostlegt ef Framsóknarflokkurinn ætlar ekki að hafa sig í að halda eina einustu ræðu í umræðum um þetta frumvarp. Gefist hafa þrjú tækifæri til þess í þremur umræðum um málið og það verður örugglega einhver snubbóttasta framsaga fyrir afstöðu stjórnmálaflokks í þingsögunni að það eina sem er á blaði af hálfu Framsóknarflokksins er útbýting þingskjals sem var tilkynnt af forseta af forsetastóli; í því tilviki sat framsóknarmaður í stólnum. Það hefði nú verið alveg lágmark að áður en þessari umræðu lyki hefði Framsóknarflokkurinn komið og gert einhverja grein fyrir viðhorfum sínum til málsins eins og hér hefur ítrekað verið óskað eftir að gert sé.

Það er afar sérkennilegt að við skulum vera hér undir miðnætti að ræða þetta mikla forgangsmál ríkisstjórnarinnar sem að sjálfsögðu hefði einfaldlega átt að fresta afgreiðslu á þegar kom í ljós hversu umdeilt það er og tilgangslaust og algerlega ástæðulaust að standa í þessu stappi núna rétt eftir að lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, voru afgreidd í tiltölulega breiðri samstöðu; andstaðan alla vega ekki umtalsverð því að þeir sem ekki studdu málið beinlínis, og það gerðu þingmenn fjögurra þingflokka af fimm, sátu þá að uppistöðu til hjá.

Breytingartillögur meiri hlutans bera það með sér að það hefur runnið upp fyrir mönnum að frumvarpið var vanhugsað. Það er að sjálfsögðu til bóta að stjórnarmeirihlutinn ætlar að heykjast á því að hunsa starfsmenn Ríkisútvarpsins og taka aftur inn fulltrúa þeirra með málfrelsi og tillögurétt. Það má kannski segja að það sé líka viðleitni í þá átt að fjölga í stjórn úr sjö í níu og breikka þannig aðeins grunninn sem undir henni er. Það breytir ekki hinu að verið er að hverfa frá hinu, sem varð niðurstaðan eftir gríðarlega mikið undirbúningsstarf og endurtekna umfjöllun um málið hér á Alþingi, að hverfa frá pólitískri skipan stjórnarinnar á grundvelli styrkleikahlutfalls hér á Alþingi og búa um þetta með faglegum hætti, þar sem valnefnd veldi fólk á grundvelli skilgreindra hæfniskrafna o.s.frv.

Það sem auðvitað hefði þurft að ná góðri umræðu um — og það eru ærin tilefni orðin á þeim vikum sem liðnar eru frá stjórnarskiptunum, og jafnvel aftur fyrir það, í vissa hluti sem sagðir voru í kosningabaráttunni — er viðhorf til fjölmiðla í landinu, þar sem hefur verið að glitta í að undanförnu afturhvarf til fyrri tíma í þeim efnum, að reyna að hafa stjórn á fjölmiðlunum, temja þá, láta þá hlýða. Loftárásargreinin, sem ég hef að vísu ekki lesið alla, bara séð svona útdrátt úr, hún er mjög merkilegt innlegg í þetta mál. Forsætisráðherra, búinn að vera nokkrar vikur á valdastóli, kvartar og kveinar, meðal annars undan því að fjölmiðlar fari ekki nógu mjúkum höndum um stjórnina á hveitibrauðsdögunum. Það sé ekki bara rauði dregillinn og klappað á öllum vígstöðvum. Fjölmiðlar leyfi sér að flytja fréttir sem stundum séu jafnvel óþægilegar fyrir hina nýju ríkisstjórn. Nú, auðvitað er leiðsögnin ofan úr Hádegismóum enda birtist greinin að sjálfsögðu í Morgunblaðinu.

Ég nefni einnig viðhorf sem komu fram í umræðum fyrr í kvöld frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, um það hve fjölmiðlar hefðu verið ómálefnalegir og ósanngjarnir í umfjöllun um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar — þeir hefðu verið uppteknir af skoðanakönnunum um málið og undirskriftasöfnun, sagt af slíku fréttir sem hv. þingmanni fannst greinilega algerlega ástæðulaust. Eða framlag hv. þm. Brynjars Níelssonar inn í þessa umræðu, bæði í pistlum og héðan úr ræðustól á Alþingi. Fleira mætti nefna til.

Erum við virkilega stödd á vegamótum á nýjan leik þar sem menn vilja fara ár eða áratugi aftur í tímann í þessum efnum, að það þurfi að vera hægt að hafa stjórn á fjölmiðlunum, temja þá? Og Framsókn beygir sig í duftið, snýr við blaðinu frá því fyrir nokkrum mánuðum og þorir ekki að taka til máls í umræðu um málið. Það er ekki mikil reisn yfir því.

Það sem þarna er á ferðinni er augljóst. Að fara að troða þessu litla máli hér inn á þetta stutta vorþing. Þetta er kreddumál. Þetta er hluti af kreddum Sjálfstæðisflokksins. Kannski eru þetta að einhverju leyti svona vöðvahnyklingar, nú vilji hann sýna að hann er kominn, mættur, bláa höndin er þarna einhvers staðar stutt undan valdinu og aðeins minna á sig. Bíðið þið bara, sjáið þið til. Við erum komnir með völdin. Konsertmeistarinn slær taktinn ofan úr Hádegismóum.

Auðvitað þekkjum við alveg þessi viðhorf. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minnti á söguna í þessum efnum. Við höfum fylgst með ályktunum á landsfundum Sjálfstæðisflokksins þar sem það er mjög í tísku, sérstaklega hjá ungliðum, að setja hornin í Ríkisútvarpið. Ef ekki bara leggja það alveg niður eins og nú er greinilega farið að ræða í kreðsum flokksins, þá að minnsta kosti svona vængstífa það með því að selja Rás 2 og eitthvað svoleiðis, það hefur mjög verið tískan á þeim bæ.

Virðulegur forseti. Það væri alveg tilefni til, ef færi gæfist, að fara í dálitla prinsippumræðu um það hvert við erum að stefna. Um er að ræða verulegt fráhvarf frá viðleitninni á síðasta kjörtímabili þar sem mikið var lagt í vinnu við að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um umgjörð fjölmiðlunar, bæði fjölmiðlalögin sjálf og síðan sérstök lög og ný lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem hér eru undir núna. Það er ekki lagt af stað með þeim hætti af hálfu núverandi ríkisstjórnar svo að vægt sé þá til orða tekið, satt best að segja.

Herra forseti. Ég ætla ekkert að lengja umræður af minni hálfu mjög mikið um þetta mál. Það er, held ég, orðið fullreynt að Framsóknarflokkurinn ætlar að þegja sig í gegnum þessa umræðu. Það eru skilaboð í því fólgin, mjög mikil skilaboð. Kannski er það eiginlega besta ræða Framsóknarflokksins, sem ekki var flutt, þ.e. það undirstrikar skömm Framsóknarflokksins að þeir leggja ekki í umræðuna, þeir skammast sín upp fyrir haus út af því að hafa beygt sig í duftið fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Gengið undir kredduna og fallist á að menntamálaráðherra flytti þetta mikla forgangsmál sitt, mennta- og menningarmálaráðherra þjóðarinnar, því að ekki var það ráðuneyti nú höggvið upp, nema bara þetta sem var reytt af því yfir í forsætisráðuneytið. Hann hefur ekkert þarfara og brýnna við Alþingi að segja á þessu fyrsta þingi en þetta frumvarp. Það er forgangsverkefni Sjálfstæðisflokksins í mennta- og menningarmálum þjóðarinnar, að koma aftur pólitískri stjórn yfir Ríkisútvarpið. Það er afar athyglisvert og það er líka mjög athyglisvert að Framsóknarflokkurinn skuli láta þetta yfir sig ganga.

Kannski er það upphafið að því sem í vændum er í fleiri tilvikum. Jafnvel er að byrja að skapast hér munstur eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, að við séum að sjá þetta í fleiri tilvikum. Framsóknarflokkurinn hefur þá greinilega borgað dýru verði forsætisráðherrastólinn, að það er hin táknræna og symbólska forusta Framsóknar fyrir ríkisstjórninni, sem Framsókn fékk, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur völdin þegar á herðir og keyrir hér inn sín kreddumál, lækkar skatta á góðvinum sínum, tekur til hendinni gagnvart Ríkisútvarpinu o.s.frv. En stóra kosningaloforð Framsóknarflokksins, það er sett í nefnd. Móðir allra kosningaloforða í íslenskri stjórnmálasögu, það er bara sett í nefnd.