142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[23:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef beðið svolítið eftir því að þetta mál kæmi á dagskrá vegna þess að mig langaði til að lýsa skoðunum mínum á því. Mig langar að gera það svona:

Það urðu nokkuð merkileg vatnaskil í stjórnmálum, ekki bara í Bandaríkjunum heldur á heimsvísu, ef maður skoðar kosningabaráttuna sem fór fram í Bandaríkjunum síðasta haust. Þá var í fyrsta skipti í sögunni stjórnmálaflokkur, demókratar, sem einbeitti sér öðruvísi en áður að yngsta aldurshópnum í kosningabaráttu sinni. Það voru ekki gerðar sjónvarpsauglýsingar sem beindust sérstaklega að aldurshópnum undir 30 ára vegna þess að í fyrsta skipti í mjög langan tíma er kominn kjósendahópur sem á að meiri hluta til ekki sjónvarp og fylgist allt öðruvísi með fréttum, efni ljósvakamiðla en gert hefur verið síðustu áratugi.

Það endurspeglar auðvitað sömu þróun og hefur átt sér stað hér á landi. Ungt fólk horfir í auknum mæli á sjónvarpsefni á þeim tíma sem hentar því, horfir á fréttir sem vinir þeirra og kunningjar benda þeim á og safnast ekki saman á sjónvarpsfréttatíma eins og þjóðin gerði áður fyrr. Niðurhal efnis er auðvitað eitthvað sem allir þekkja. Efni er hlaðið niður í vaxandi mæli og hefur dreift sér mikið undanfarið. Fólk safnar sjónvarpsefni ólöglega á flakkara og það er þróun sem framleiðendum kvikmynda og sjónvarpsefnis hefur ekki tekist að mæta nógu vel, nema kannski núna þegar fyrirbæri á borð við Netflix eru orðin útbreidd, ekki bara á Ameríkumarkaði heldur líka á Evrópumarkaði og á Íslandi, þó með krókaleiðum.

Af hverju er ég að tala um þetta? Vegna þess að það kemur auðvitað til með að hafa varanleg og afgerandi áhrif á fjölmiðlaumhverfi, ekki bara Íslendinga heldur heimsins alls. Fyrir hinar hefðbundnu áskriftarstöðvar, eins og við sjáum t.d. með Stöð 2 og Skjá 1, verður samkeppnin mjög erfið. Hún verður öðruvísi en áður var og úrvalið og framboðið af sjónvarpsefni fyrir allan almenning kemur til með að breytast mikið í kjölfar þeirrar þróunar sem við höfum í sjálfu sér ekki séð fyrir endann á.

Frjálsu sjónvarpsstöðvarnar þurfa að mæta því og er mjög eftirtektarvert hvernig það hefur verið gert, t.d. á Stöð 2 þar sem ég vann í mjög langan tíma, með framleiðslu á innlendu efni. Það er afskaplega jákvæð þróun. Við sjáum það líka gerast í Danmörku þar sem mikið úrvalssjónvarpsefni er framleitt sem er meðal annars sýnt hér á landi. Það er ágætisdæmi um þann árangur sem hægt er að ná í sjónvarpsgerð. Danir eru farnir að framleiða sjónvarpsefni sem er ekki bara sýnt á innlendum markaði hjá þeim heldur um allan heim og hefur slegið í gegn um allan heim enda gert af metnaði og með framúrskarandi hætti.

Eina leiðin fyrir frjálsu sjónvarpsstöðvarnar til þess að mæta þessum breytta veruleika, netsjónvarpi, ólöglegu niðurhali er innlend dagskrárgerð. Það er auðvitað það sem ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið á að beita sér fyrir, að endurspegla íslenska menningu, spegla þann veruleika sem við búum í og bjóða íslenskum almenningi upp á, ekki bara varðveislu þjóðararfsins, íslenskrar þjóðmenningar heldur líka afþreyingu. Það þarf að geta boðið öllum almenningi upp á eitthvað sem stenst samanburð við það sem frjálsu stöðvarnar eru að reyna að selja í áskrift. Það er mikilvægt með tilliti til ólíkrar efnahagsstöðu, með tilliti til mismunandi aldurssamsetningar o.s.frv. Það er óhjákvæmilegt að hlutverk Ríkisútvarpsins sem stofnun í almannaþjónustu verði veigameira í ljósi þess að þjónusta frjálsu stöðvanna kemur til með að breytast.

Breytingin sem gerð var á stjórn Ríkisútvarpsins fyrir fjórum mánuðum var því ákaflega mikilvæg. Hún tók mið af þeim breytta veruleika sem blasir við í þeim efnum. Lagt var upp með að aukin áhersla væri lögð á faglega aðkomu stjórnar, það var ekki bara rekstrarlegi þátturinn eins og áður var. Það var ekki gert ráð fyrir pólitískt skipaðri stjórn heldur faglega valinni stjórn eða stjórn sem væri valin mun faglegar en áður hefur verið gert. Þess vegna studdi ég frumvarpið sem var lagt fram á síðasta þingi sem og margir aðrir þingmenn.

Á Ríkisútvarpinu starfar mikill fjöldi fagmanna og ég held að við séum öll sammála um að gríðarlega mikilvægt er að kraftar og þekking svona stofnunar fái notið sín sem best. Til þess að svo megi verða er auðvitað líka mjög mikilvægt að sjálfstæði stofnunarinnar sé tryggt, að ekki sé verið að búa til óþarfa spennu, pólitíska spennu í kringum stofnunina og þess vegna var breytingin mjög jákvæð. Við þekkjum mýmörg dæmi þess úr sögunni að skipun ólíkra einstaklinga, misumdeildra, í útvarpsráð með pólitískum hætti hefur skapað mikla úlfúð í kringum stofnunina. Það er henni einfaldlega ekki til framdráttar, ekki gott til framtíðar litið, þegar litið er til þeirra verkefna sem blasa við henni, þeirri ágætu og vönduðu stofnun. Það er einnig gríðarlega mikilvægt vegna þess að að mínu mati starfar núna á Ríkisútvarpinu ein fremsta ritstjórn landsins þegar kemur að öflun frétta og miðlun frétta.

Nýverið hefur breyttum veruleika í framleiðslu frétta verið mætt innan Ríkisútvarpsins með stofnun sérstakrar deildar nýmiðlunar, Ríkisútvarpið hefur gert sig gildandi á netinu á afgerandi hátt. Það er mjög jákvæð þróun sem þarna á sér stað og mjög mikilvægt að meta hana til hliðsjónar við þá þróun sem á sér stað á frjálsu miðlunum þar sem frjálsir miðlar eins og Fréttablaðið eru að draga saman, reyndir fréttamenn eru að hætta. Það sama er að gerast hjá Stöð 2. Morgunblaðið, sem hefur verið í fararbroddi íslenskra dagblaða í áratugi, var á öllum mínum uppvaxtarárum og öllum mínum blaðamennskuárum prentað í um það bil 55–60 þúsund eintökum, gríðarlegt stórveldi í íslenskri blaðamennsku, en er prentað núna, ef ég man rétt en það eru reyndar ábyggilega tveggja ára gamlar upplýsingar, í 28–29 þúsund eintökum. Það er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var enda er útbreiðsla þess og áhrif allt önnur en nokkurn tímann hefur verið.

Það er líka ákveðinn misskilningur sem býr að baki þessu afturhvarfi til fortíðar í frumvarpi menntamálaráðherra, að hægt sé að búa til einhvern veruleika sem við þekktum í kringum 1991 og þar í kring, vegna þess að það er ekki við fjölmiðlana að sakast ef einhver vill agnúast út í að 35 þúsund manns skrifi undir undirskriftalista. Það hefur orðið ekkert með fjölmiðlaumfjöllun að gera. Þær safnast ekki vegna umfjöllunar fjölmiðla. Við höfum séð í mjög mörgum undirskriftasöfnunum og samkomum mótmælenda að það er algerlega grundvallaratriði að sá atburður sem um ræðir hreyfi við fólki og þá getur allt gerst. Hér á Austurvelli geta safnast saman 10 þúsund manns með tveggja daga fyrirvara sem skipuleggja sig með samfélagsmiðlum. Það sama er að gerast um allan heim. Fyrir framan Stjórnarráðið, fimm dögum eftir að nýr forsætisráðherra tók við og ný ríkisstjórn, voru komin 2.500 manns eins og hendi væri veifað. Einfaldlega vegna þess að fólki var umhugað um framtíð umhverfismála á Íslandi.

Miðlun frétta og það hvernig fréttastofur hafa áhrif á samfélagið er allt annar veruleiki núna en áður var. Þess vegna vil ég lýsa þeirri skoðun að sú breyting sem hér er verið að gera er afturför. Breytingin sem var gerð fyrir fjórum mánuðum var mikilvæg. Hún var einmitt í anda þess lærdóms sem við eigum að draga af skýrslunni sem kom út um Íbúðalánasjóð í dag. Við eigum að láta af pólitískt skipuðum stjórnum. Við eigum að horfa til faglegrar hæfni stjórnarmanna, gera mikla kröfu til þekkingar og ráða fagmenn til þess að fara með mál opinberra stofnana og með traust almennings á Íslandi.

Sú breyting sem hér er verið að gera gengur þvert á niðurstöður þeirrar skýrslu, ég held að allir hljóti að vera sammála um það. Það þarf enginn að vera að býsnast yfir því úr sæti sínu í þingsal.

Ég vil segja að lokum að ég held að þetta sé ekki mikið gæfuspor hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég óttast um framtíð Ríkisútvarpsins í ljósi þess sem þetta boðar, ekki vegna þess að ég haldi að í stjórn Ríkisútvarpsins muni raðast hópur einhverra rakinna illmenna. Ég held bara að stofnunin þurfi á því að halda að faglega sé skipað í stjórnina og það séu ekki pólitískt kjörnir fulltrúar sem velji einhverja flokksgæðinga til þess að fara þangað inn eins og verið hefur, því miður. Það er mjög mikilvægt hvernig Ríkisútvarpinu tekst að mæta nýjum veruleika fjölmiðla, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum. Það er mjög jákvætt að sjá hvernig það hefur verið gert og mjög sorglegt að verða vitni að því að menn eru í flýti og í ósætti að stíga mörg skref aftur á bak. Ég harma það.

Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, á Ríkisútvarpinu starfar gríðarlegur fjöldi fagfólks. Það er mjög vandað lið sem skipar fréttastofu útvarps og sjónvarps, sem er sameiginleg núna, og mjög mikilvægt að vel sé farið með þetta mikilvæga fyrirbæri í íslensku samfélagi sem Ríkisútvarpið er. Ekki síst í ljósi þess að verið hefur ákveðinn spekileki, að mínu mati, á íslenskum fréttamiðlum að undanförnu. Reynslumeiri fréttamönnum hefur fækkað en sem betur fer er það þannig að á Ríkisútvarpinu er mikill fjöldi fagmanna og þrautreyndra fréttamanna sem hafa fengið gott rými til þess að stunda vandaða og öfluga fréttamennsku og rannsóknarvinnu, t.d. í Kastljósinu. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að fylgst verður með þróun mála í Ríkisútvarpinu, Það er ekki hægt að spóla tímann til baka til 1991 í þeim efnum og búa til einhverja ógnarstjórn sem kemur til með að hafa áhrif á efnistök og framsetningu frétta og dagskrárdeild Ríkisútvarpsins. Sá tími er liðinn að mögulegt sé fyrir pólitískan meiri hluta í landinu að hafa slík áhrif og þess vegna er sú breyting sem hér er verið að gera algjör tímaskekkja.