142. löggjafarþing — 19. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[00:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langaði í lok umræðunnar um þetta mál, um RÚV, að koma örstutt upp til að fara aðeins yfir þau helstu atriði sem mikilvægt er að menn hafi í huga í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er rétt að fram hafa komið breytingartillögur. Hin viðamesta felur í sér að inn kemur ákvæði um að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni mann í stjórnina. Mun hann hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn RÚV. Þetta ákvæði eins og það liggur fyrir, þessi breytingartillaga, er í samræmi við 2. tölulið 2. mgr. 9. gr. laganna eins og þau eru nr. 23/2013. Að þessari breytingartillögu standa nefndarmenn úr allsherjar- og menntamálanefnd úr öllum flokkum utan Samfylkingar og Vinstri grænna. Gerð var grein fyrir þessari breytingartillögu við umræðuna og er svo sem ekki meiru við það að bæta.

Þá eru hér jafnframt tvær breytingartillögur sem fela í sér, og eru í raun um sama atriði, að í stað þess að sjö menn verði kjörnir í stjórnina verði þeir níu. Mig langar að taka fram hér að það er samkomulag um að það sé fjölgað en hlutföllin verði þó þau sömu þannig að stjórnarflokkarnir skipi fimm en stjórnarandstaðan fjóra. Þetta er hugsunin á bak við það ákvæði, að reyna að ná meiri breidd inn í stjórnina.

Aðeins varðandi efni málsins þá hefur þessi nýja skipan á því hvernig menn höfðu hugsað sér að búa til þessa stjórn auðvitað ekki komið til framkvæmda. Þannig að sú stjórn sem nú situr yfir RÚV er skipuð með hinum hefðbundna hætti. Það kom fram í umræðum í nefndinni og við gestakomur í nefndina að engar athugasemdir hafa verið gerðar við störf þeirrar stjórnar. Ekki hafa komið fram neinar athugasemdir um óviðurkvæmileg pólitísk afskipti eða sjónarmið þar inni, svo að því sé svarað.

Mig langar jafnframt að koma því á framfæri — af því að fullyrt var hér í umræðunni að enginn hefði haft neinar sérstakar athugasemdir við þetta lagaákvæði á síðasta þingi, varðandi breytingar á fyrirkomulagi um að búa til þessa valnefnd o.s.frv. — að það voru nokkrir þingmenn sem gerðu það hér í ræðustól, meðal annars sú sem hér stendur og fleiri þingmenn. Bara eftir minni: hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal — við þremenningarnir greiddum öll atkvæði gegn þessum breytingum. En auðvitað var það þannig að frumvarpið um RÚV var viðamikið, stórt mál, tekið á mörgum atriðum og eflaust voru sjónarmið þeirra hv. þingmanna sem þar greiddu atkvæði ólík um það hvað hafi vegið þyngst. Sumir sátu hjá, aðrir greiddu atkvæði með án þess að vera sáttir við allar tillögur eins og fram kom í umræðunni um málið á þeim tíma. Svo urðu þeir sem hvorki gátu séð sér fært að greiða frumvarpinu atkvæði sitt né heldur að sitja hjá að segja nei til að fylgja sannfæringu sinni.

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmönnum sem sátu í nefndinni og tóku þátt í umfjöllun málsins fyrir gott samstarf. Þó að við séum ekki sammála um allt þá eru umræðurnar málefnalegar og góðar. Jafnframt langar mig að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér blönduðu sér í umræðuna um þetta mál.