142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[13:59]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þeirri stjórnmálahreyfingu sem ég og hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir tilheyrum er gengið út frá hugmyndafræði sem kennir sig við þjónandi forustu. Einn angi hennar felst í því að hlusta af alúð. Í því felst jafnframt að spurningar, sem settar eru fram sem gagnrýni, jafnvel þó að þær séu orðaðar með gildishlöðnum hætti, eru skoðun sem er byggð á tilfinningu sem ber að hlusta á og virða. Gagnrýni er ekki árás. Aðfinnsla er ekki sama og loftárás. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Gagnrýni er hluti af nauðsynlegri lýðræðislegri umræðu í lýðræðissamfélagi þar sem menn hafa ólíkar skoðanir og skiptast á skoðunum til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum þá skýrslu sem nú er komin fram um Íbúðalánasjóð.

Það er tvennt sem maður staldrar við við fyrstu yfirsýn, það er skortur á vönduðum vinnubrögðum, agaleysi og svo ágalli þeirrar umræðuhefðar sem ég minntist hér á áðan. Hluti af þeim ágalla birtist í umræðunni sem hér fer fram degi eftir að skýrslan kom út. Í síðustu viku þegar hæstv. forseti kynnti að þessi skýrsla kæmi út á þriðjudegi og að umræðan ætti að fara fram á miðvikudegi gerði ég athugasemdir við það á fundi þingflokksformanna að mér þætti það skammur tími sem menn hefðu til að kynna sér efni hennar og fara efnislega í umræðu um það sem þarna kemur fram í mjög viðamikilli og þykkri skýrslu. Ég flutti síðustu skýrslu hér í þinginu klukkan um það bil hálfeitt í gærkvöldi, er svo kominn aftur hérna tólf tímum síðar til að ræða þessa skýrslu. Það gefur augaleið að við getum aðeins krafsað í yfirborðið í þessari umræðu.

Ég vil ítreka að það er nauðsynlegt fyrir okkur, þegar líður fram á haustið, að taka aðra umræðu um þessa skýrslu, þegar meira er komið í ljós, þegar hún hefur verið rædd enn betur og við sjáum kannski glitta í einhverja aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í kjölfar hennar.

Ég minni á það líka að það er bara í næsta mánuði sem við eigum von á fyrstu tillögum úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldsettra heimila. Það er nauðsynlegt að hafa þann lærdóm sem draga má af þessari skýrslu vel í huga þegar kemur að þeim skrefum sem menn ætla að stíga þar.

Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að hér birtist okkur mjög gallað húsnæðiskerfi sem er grunnurinn að þessu máli. Hann fór að vísu ekki jafn djúpt í að leita orsaka þess eins og ég mundi vilja gera og velta fyrir sér af hverju það er sem okkur hefur ekki tekist hér á þessu landi að bjóða almenningi upp á almennileg og samkeppnishæf lánakjör, af hverju vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru alltaf prósenti, tveimur eða þremur, hærri en það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er auðvitað vegna þess að það er áhættusamt að lána í íslenskum krónum. Það hefur leitt til þess að við erum með hátt vaxtastig. Það hefur meðal annars leitt til þess að íslenskur almenningur — þegar Jón og Gunna ákveða að kaupa sér sitt fyrsta hús velta þau yfirleitt fyrir sér greiðslugetu sinni frá mánuði til mánaðar og hugsa minna um vaxtastigið, velta lítið fyrir sér hvað breytingar á því muni hafa í för með sér, heldur horfa fyrst og fremst til þess hvort þau muni ráða við afborganir af húsnæði sínu frá einum mánuði til annars. Þetta hefur leitt til þess að fólk tekur of há lán, skuldsetur sig of mikið. Það er ekki æskilegt. Það er eitthvað sem við hljótum að vera sammála um að við þurfum að taka á.

Þegar menn eru komnir út í þessa hluti verða menn að velta fyrir sér hvaða áhrif gjaldmiðillinn hefur í för með sér. Þegar ég talaði um skort á vandaðri umræðu á ég við það að menn klára ekki ferla í íslenskri pólitík eða íslensku stjórnkerfi. Þeir ljúka ekki við ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það er ekki farið eftir ákvörðunum sem búið er að taka. Mál eru ekki leidd til lykta. Það er ekki búið að ákveða enn hvað við ætlum að gera í sambandi við það að ljúka viðræðum við Evrópusambandið. Það er ekki búið að svara þeirri stóru spurningu sem felst í því að taka upp nýjan gjaldmiðil og stöðugri og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir húsnæðiskerfið á Íslandi í framtíðinni. Á meðan menn svara ekki þeim stórum spurningum krafsa þeir áfram í yfirborði málanna.

Það er ánægjulegt að hæstv. ríkisstjórn stofnaði nefndir og starfshópa. Við í Bjartri framtíð studdum það þó að við séum auðvitað áhyggjufull yfir fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Sagan sýnir að full ástæða er til að hafa áhyggjur. Það er full ástæða til að fara vel yfir þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið, að þær ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Þær mega ekki vera þensluhvetjandi og verðbólgumyndandi, með tilheyrandi áhrifum á vaxtastig og þar með með tilheyrandi og vondum áhrifum á stöðu heimilanna.

Það er með þetta í huga sem stíga verður næstu skref. Við þurfum að vinna að því að búa til framtíðarhúsnæðisstefnu með fulltrúum allra flokka og stéttarfélaga þannig að þau mistök sem hér hafa átt sér stað verði ekki endurtekin.