142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um lækkun veiðigjalda. Allt mælir gegn því að lækka veiðigjöldin frá því sem gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Afkomutölur sjávarútvegsfyrirtækja bera það með sér að hagnaður er mikill og eykst milli ára. Greinin getur með góðu móti borið þá auðlindarentu sem henni ber að gera.

Staða ríkissjóðs er með þeim hætti að hann þarf á öllum sínum tekjum að halda og við blasir að fjöldi framkvæmda sem veiðigjöldin áttu að standa undir verður í uppnámi og mikill niðurskurður blasir við ef skerða á tekjur ríkissjóðs um tug milljarða á þessu og næsta ári. Tæknileg framkvæmd við álagningu veiðigjalds réttlætir ekki að veikja stöðu ríkissjóðs um tug milljarða.