142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kemur vel fram í þessari umræðu um atkvæðaskýringar hvað umræðan er á miklum villigötum hjá okkur. Hér er fullyrt að tekjutap ríkissjóðs á þessu og næsta ári sé upp í 13 milljarða sem þegar fyrir liggur ef menn skoða frumvarpið að það er nær 7–8 milljörðum. Það er talað um að bolfisksfyrirtækin greiði nánast núll. Þetta er alrangt. Afsláttarreglurnar eru þannig að við erum að hjálpa þeim fyrirtækjum sem eru í vanda og eru illa stödd þannig að þau geti staðið í skilum. Þau fá afslátt en hin sem eru sterkari borga fullt veiðigjald.

Ég held að í þessu frumvarpi hafi tekist að jafna mjög þær álögur milli þeirra greina innan útgerðanna sem við leituðumst við. Það var vitlaust gefið í þeim lögum sem gilda. Bolfisksfyrirtækin hafa greitt allt of mikið og það hefur lagst með miklu mildari hætti á uppsjávarfyrirtækin. Við erum að dreifa þessu, við erum að lækka veiðigjöldin. Það er ekkert sem sýnir okkur annað en að hér hafi of mikil veiðigjöld verið lögð á. Það sýna okkur allar tölur. Við þurfum að fara í framtíðarvinnu og endurskoða með hvaða hætti við ætlum að gera þetta, en það verður ekki búið við stöðuna (Forseti hringir.) eins og hún er.

Nefndin mun skoða þetta á milli 2. og 3. umr. og gera á því þær breytingar sem geta orðið til að gera þetta enn (Forseti hringir.) betra.