142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta frumvarp hefur dregið fram hversu langt fram úr sér menn eru komnir í umræðu um auðlindagjöld almennt í þinginu. Það er fært fram sem sérstök röksemd að ríkissjóður hafi þurft mjög á því að halda eftir fjármálaáfallið að hækka hressilega veiðigjöldin. Við erum komin óravegu frá yfirvegaðri umræðu um það hvað einstakar greinar þola til lengri tíma.

Við erum líka komin óravegu frá einhverri yfirvegaðri umræðu um það hvar hagsmunir þjóðarheildarinnar liggja. Þeir liggja ekki síst í því að hér sé rekinn arðbær sjávarútvegur sem hafi hvata til að fjárfesta og skila góðri afkomu til langs tíma á grundvelli sjálfbærra veiða. Menn geta ekki endalaust fært bága stöðu ríkissjóðs fram sem röksemd fyrir því að tífalda, tuttugufalda eða þrjátíufalda hæstu veiðigjöld sem við höfum áður séð í framkvæmd. (HHj: Segið svo að þið getið ekki lækkað …) (VigH: Alltaf jafn kurteis, Helgi Hjörvar.)